Viðlagatrygging Íslands

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:17:00 (5857)


     Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. 7. þm. Norðurl. e. náði heilbr.- og trn. ekki samstöðu um afgreiðslu frv. sem hér liggur fyrir um Viðlagatryggingu Íslands. Minni hlutinn skilar sérstöku nál. á þskj. 819. Undir það ritar auk mín hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Í álit minni hluta heilbr.- og trn. segir, með leyfi forseta:
        ,,Minni hluti nefndarinnar telur að ekki hafi verið farið nægilega vel yfir frumvarpið. Hér er um að ræða mikilvægan og flókinn málaflokk. Málið hefur verið lengi til meðferðar. Við skoðun málsins í nefnd komu í ljós afar mismunandi sjónarmið þeirra sem um málið hafa fjallað. Tryggingaráðuneytið hefur síðan reynt að samræma þessi sjónarmið en nefndin hefur, að dómi minni hlutans, ekki farið nægilega vel yfir forsendur frumvarpsins og frumvarpið sjálft í einstökum atriðum. Þá hafa ekki verið lögð fram nein gögn í nefndinni um fjárhag Viðlagatryggingarinnar, eignastöðu hennar né heldur um hugsanleg fjárhagsleg áhrif frumvarpsins ef samþykkt verður sem lög. Minni hlutinn treystir sér ekki til þess að afgreiða frumvarpið með þessum hætti og telur óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin fjalli um málið á ný og vandi þá betur allan málatilbúnað. Þess vegna leggur minni hlutinn til að frumvarpið um Viðlagatryggingu Íslands verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir nál. skrifa Svavar Gestsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
    Eins og fram kemur í þessu nál. minni hlutans teljum við að þurft hefði að skoða ýmsar forsendur þessa máls aðeins betur. Í nál. minni hlutans er ekki síst vikið að hinum fjárhagslegu þáttum þessa máls og því að hér er um að ræða stórfyrirtæki, reyndar eitt stærsta fyrirtæki sem Íslendingar eiga saman. Þetta er fyrirtæki sem á um 3 milljarða kr.
    Reikningar Viðlagatryggingar Íslands voru ekki lagðir fram með frv. og komu heldur ekki fram í nefndinni né heldur áætlanir um það hvað það þýðir að samþykkja frv. Það er auðvitað ekki nógu góð aðferð að afgreiða svona gífurlega stórt fjárhagsmál eins og lög um Viðlagatryggingu Íslands án þess að talnaefni liggi fyrir.
    Ég aflaði mér í dag nokkurra tölulegra upplýsinga um Viðlagatryggingu Íslands. Þar kemur fram hver eignarstaða stofnunarinnar er en eigið fé hennar var í árslok 1991 2,9 milljarðar kr. Eigið fé jókst á síðasta ári um 381 millj. þannig að þetta verður að heita gott fyrirtæki á íslenska vísu. Það skilaði sem sagt viðbót við höfuðstól sinn upp á hátt í 400 millj. kr., úr 2,5 milljörðum í u.þ.b. 2,9 milljarða. Ég dreg það í efa að mörg fyrirtæki séu öllu stöndugri í landinu heldur en Viðlagatrygging Íslands.
    Tjón á sl. ári námu alls 151 millj. kr. og til varnaðaraðgerða og styrkja var varið á vegum Viðlagatryggingar á síðasta ári um 30 millj. kr. Hagnaður af rekstri var um 200 millj. kr., en eigið fé jókst, eins og ég sagði, um 381 millj., fyrst og fremst vegna þess að eignir fyrirtækisins voru prýðilega ávaxtaðar hjá Seðlabankanum sem menn hafa vanið sig á að tala stundum heldur illa um hér í þessum stól eins og kunnugt er.
    Í frv. er m.a. gert ráð fyrir því að taka vörslu og ávöxtun þessa fjár Viðlagatryggingar Íslands af Seðlabankanum án þess að fyrir því séu færð nein sérstök rök. Ég hef í sjálfu sér ekki haldið langar lofræður um Seðlabankann á mínum þingmannsferli en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst að ávöxtun Seðlabankans á þessum eignum Viðlagatryggingarinnar hafi verið til fyrirmyndar, þegar það kemur í ljós að umfram tekjur af rekstri fær stofnunin um 180 millj. kr. í tekjur af eignum á árinu 1991. En í frv. er, eins og ég gat um, lagt til að taka þetta ávöxtunarhlutverk Viðlagatryggingar Íslands af Seðlabankanum án þess að fyrir því séu færð nein sérstök rök.
    Á árinu 1990 voru iðgjöld 381 millj. kr. Árið áður 285 millj. kr. Síðan greiddi fyrirtækið í endurtryggingariðgjöld um 130 millj. kr. Tjón voru, eins og ég sagði áðan, 151 millj. kr., varnaðaraðgerðir og styrkir um 30 millj. kr. og eigin tjón 180 millj. og iðgjöld umfram tjón voru 72 millj. kr.
    Árið 1989 voru iðgjöld fyrirtækisins umfram tjón 158 millj. eða tvisvar sinnum meiri en á árinu 1990.
    Fyrirtækið greiddi auðvitað verulega fjármuni í innheimtukostnað, um 38 millj., en það ber að taka fram að stjórnunarkostnaður er lítill í þessu fyrirtæki. Starfsmenn Viðlagatryggingar Íslands á árinu 1990 og 1991 voru forstjóri í hálfu starfi og ritari í hálfu starfi. Þarna hefur báknið því ekki þanist mjög mikið út gagnstætt því sem víða vill verða.
    Eins og ég sagði áðan þá eru eignir þessa fyrirtækis á fjórða milljarð króna samkvæmt þessum ársreikningum sem ég fékk loksins í dag frá forstjóra Viðlagatryggingar.
    Á vegum Viðlagatryggingarinnar er auk þess rekinn svokallaður ofanflóðasjóður, það er sjóður sem ekki er kosið í á Alþingi hlutbundinni kosningu, það er einn af fáum sjóðum sem Alþingi kýs ekki í hlutfallskosningu, þannig að það þarf ekki að hafa áhyggjur þar af skipan manna í stjórn, en ofanflóðasjóður velti á árinu 1990 um 27 millj. kr.

    Til þess að hægt sé að fella sig við þá afgreiðslu sem á að eiga sér stað á frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands þurfa auðvitað að vera til fjárhagslegar upplýsingar, en þær eru það ekki. Það er gagnrýnisatriði minni hlutans númer eitt. Við treystum okkur ekki til að breyta lögum um Viðlagatryggingu, 3--4 milljarða fyrirtæki öðruvísi en að vita hvaða áhrif frv. hefur á rekstur stofnunarinnar. Ég veit satt að segja ekki hvernig það er, hvort stjórnarþingmönnum er kannski bara alveg sama um þetta, hvort þeir hafa nokkuð sett sig inn í þetta eða hvort þeir eru tilbúnir til að hlusta núna. Hinn fasti fulltrúi Sjálfstfl. í salnum, hv. 4. þm. Reykv., er staddur hér að vanda og hv. varaþingmaður Alþfl., mætur og frómur veðurfræðingur. ( Gripið fram í: Sérfræðingur í ofanflóðum.) Og sérfræðingur í ofanflóðum. Það er kannski von til þess að úr því við höfum hér veðurfræðing úr Alþfl. til að hlusta á okkur getum við fengið menn til að staldra við það að það sé dálítið skrýtið að afgreiða fjögurra milljarða fyrirtæki án þess að neinn viti hvernig það kemur út. Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, ágætur varaforseti þessarar virðulegu stofnunar, þyrfti aðeins að athuga þetta líka. Ekki síst með ofanflóðin því þau koma ofan að eins og kunnugt er og hann er sérfræðingur í því eins og allir vita.
    Í alvöru talað þá held ég að það væri fróðlegt fyrir stjórnarþingmennina að skoða aðeins hvort það væri ekki sjálfsagt mál að menn veltu því aðeins fyrir sér hvort eðlilegt er að sulla í gegnum þingið eins og hverju öðru ofanflóði, þriggja, fjögurra milljarða rekstri án þess að menn viti eiginlega neitt um hann.
    En fyrir utan það að við tvö í minni hlutanum erum með athugasemdir þá eru fleiri sem gera athugasemdir. Ekkert minni stofnun en t.d. Tryggingaeftirlitið gerir athugasemdir við þetta. Og Samband ísl. sveitarfélaga. Það er óskaplega duglegt að senda frá sér pappíra eins og kunnugt er af ýmsum tilefnum og skal ég ekki tala illa um þá stofnun. Það gerir líka athugasemdir. Ég ætla að byrja á Sambandi ísl. sveitarfélaga og sakna ég nú vinar í stað þar sem eru tveir þingmenn sem töluðu við 1. umr. þessa máls, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Pálmi Jónsson, sem kvörtuðu mjög undan þessu frv. og töldu að það tryggði ekki rétt þeirra landshluta sem yrðu sjaldan fyrir verulegu tjóni. Ég vona að hv. þm. skilji við hvað er átt. Viðlagatryggingin á að tryggja fyrir stórfelldum náttúruhamförum en þeir landshlutar sem fara á mis við stórfelldar náttúruhamfarir fá þar af leiðandi mjög litla fjármuni úr þessari stofnun og hv. þm. töldu að eðlilegt væri að skoða það mál frá almennu jafnaðarsjónarmiði. Þeir gerðu auk þess ýmsar aðrar fróðlegar athugasemdir við þetta frv. og Samband ísl. sveitarfélaga tekur aðeins á því máli líka. Í athugasemdum Sambands ísl. sveitarfélaga segir svo um 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Í athugasemdum er fjallað nokkuð um fok- og óveðurstryggingar og rök gegn því að fella þær undir viðlagatryggingu. Nokkrum sinnum hefur komið upp spurning um hvernig túlka beri tjón af völdum vatnsflóða, t.d. þegar niðurföll hafa stíflast í óvenju miklu úrfelli og flætt hefur í hús án þess að bótaábyrgð sé hjá sveitarfélaginu. Þótt unnt kunni að vera að kaupa slíka tryggingu á frjálsum markaði mælir margt með því að fella slíkar náttúruhamfarir undir áhættu sem tryggð er með sama hætti og verið hefur t.d. ef ár eða lækir flæða yfir bakka og valda skemmdum á tryggðum eignum.``
    Samband ísl. sveitarfélega telur sem sagt að þessa þætti þurfi að taka hér inn. Það eru mörg rök fyrir því að taka þetta ekki hér inn að mínu mati, en í sjálfu sér þá finnst mér að athugasemdir og ábendingar Sambands ísl. sveitarfélaga séu að mörgu leyti gildar og hefði verið eðlilegt að skoða þær aðeins nánar. Síðan vil ég vekja athygli á þeirri sérstöku gagnrýni Sambands ísl. sveitarfélaga sem kemur fram varðandi 10., 11. og 18. gr. frv., en þar segir:
    ,,Engar upplýsingar fylgja frv. um iðgjaldafjárhæðir, tryggingafjárhæðir, endurtryggingar eða eiginfjárstöðu stofnunarinnar. Iðgjöld Viðlagatryggingar hafa þótt há a.m.k. af íbúðarhúsnæði í samanburði við t.d. iðgjöld af brunatryggingum og að teknu tilliti til áhættumats, tryggingaverndar og eigin áhættu hins tryggða. Upplýsingar sem varpað gætu ljósi á þessi atriði fylgja ekki frv.``
    Með öðrum orðum, allar þessar athugasemdir sem Samband ísl. sveitarfélaga gerir lætur meiri hlutinn sem vind um eyru þjóta og að mörgu leyti með rökum en það eru sömu athugasemdir og hv. þm. Pálmi Jónsson gerði þegar málið var til umræðu fyrir nokkru, að það þyrfti að skoða þessa hluti, sérstaklega sem snerta ýmiss konar náttúruhamfarir eins og flóð, rok og þess háttar sem er í raun og veru vísað á bug með afgreiðslu frv. eins og það lítur út núna. Ég er í sjálfu sér ekkert að segja að Alþingi þurfi endilega að hlusta á hv. þm. Pálma Jónsson, það er smekksatriði ( Gripið fram í: Það er skynsamlegt.) og það er ekki nærri alltaf skynsamlegt, sem er nú verra, en það gæti þó verið að hann ætti rétt á því svona eins og hver annar hér í salnum að menn a.m.k. höfnuðu sjónarmiðum hans með rökum. Ég tel út af fyrir sig að það séu viss rök fyrir því að taka þetta ekki inn vegna þess að það mundi hækka iðgjöldin svo mikið og yrði svo dýrt og það er hægt að tryggja þetta annars staðar. Út af fyrir sig er margt til í þeim efnum. Staðreyndin er engu að síður sú að af því að við höfum viðlagatryggingu þá er sá almenni skilningur á bak við hana með þjóðinni að í rauninni þurfi að taka tillit til hættuatriða einmitt af þessu tagi og þegar svona tjón verða er alltaf kallað á viðlagatryggingu. Ætlar hún ekkert að gera? Og þess vegna held ég að þau sjónarmið hafi komið upp á Alþingi að í rauninni væri eðlilegt að breyta grundvelli viðlagatryggingar, auðvitað með því að hækka iðgjöld, líka vegna þess að þegar við ákváðum á sínum tíma að hafa þessi tjón ekki inni í viðlagatryggingunni þá var til stofnun sem ekki er lengur til og hét Bjargráðasjóður Íslands. Þessi stofnun hafði það hlutverk að bæta fyrir tjón af þessu tagi. En nú hefur hún verið lögð niður og þess vegna hefði verið ástæða til að skoða það alveg sérstaklega hvort tjón af þessu tagi ætti að taka inn af því er varðar viðlagatrygginguna.

    Nú er það þannig með þessi lög um Viðlagatryggingu Íslands að þau eru alveg sérstakt mál okkar hv. þm. Pálma Jónssonar því að við sátum báðir í einhverri merkustu ríkisstjórn sem landið hefur átt, ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens, sem setti lög um þetta mál. Ég átti að því dálítið frumkvæði að sett yrðu lög um viðlagatryggingu að því að mér fannst og finnst að þessi eyðslusama þjóð eigi miklu oftar en hún gerir að safna til hinna mögru ára, af hverju svo sem þau kunna að stafa. Þess vegna finnst mér að okkur sé skylt að fara vandlega yfir þetta mál og láta ekki hrófla við því nema fyrir því séu gild rök. Það á ekki að hrófla við málum af þessu tagi bara til þess að breyta heldur verður að breyta með einhverjum tilteknum rökum.
    Þá kem ég að því að Tryggingaeftirlitið er þeirrar skoðunar að þessi breyting sé í raun í besta falli óþörf af því að hún feli ekki í sér heildarendurskoðun á lögunum um Viðlagatryggingu Íslands. Þetta sé ekki heildarendurskoðun heldur kák. Þetta sé ekki mjög merkilegur pappír þó að Tryggingaeftirlitið noti að vísu ekki sömu orðin um þennan pappír og hv. 4. þm. Reykv. notaði stundum um þetta svokallaða EES-samkomulag þar sem hann átti ekki nógu smá orð til að finna út hvað það þýddi --- slitur eða tætlur eða eitthvað þaðan af verra, bútar, eða ekki neitt, þegar hann náði sér best á strik. En staðreyndin er auðvitað sú að Tryggingaeftirlit ríkisins, sem samkvæmt lögum hefur það hlutverk að fara yfir mál af þessu tagi alveg nákvæmlega, telur að þetta sé í raun og veru tilgangslaust af því að menn séu að hrófla við aukaatriðum en ekki aðalatriðum. Það getur auðvitað vel verið að öllum þessum vinum mínum, þingmönnum stjórnarflokkanna, sem hér sitja, sé bara alveg sama um þetta og það eigi bara að afgreiða þetta af því bara, af því að Sighvatur segir það. Þá finnst mér lítið leggjast fyrir suma kappana hér að vera að hlaupa undan Sighvati og hefðu sumir þeirra áður runnið skammt fyrir slíkum snillingum úr Stjórnarráði Íslands, slíkum höfuðsnillingum, háttvirtum eða hæstvirtum.
    Og hvað segir Tryggingaeftirlitið um þetta afkvæmi ríkisstjórnarinnar og aðallega Sighvats, hæstv. heilbr.- og trmrh. Það segir þetta: ,,Tryggingaeftirlitið leggur áherslu á þau atriði sem fram komu í umsögn eftirlitsins, dags. 24. jan. 1992. Tryggingaeftirlitið er gagnrýnið á þá endurskoðun sem fram hefur farið á gildandi lögum um Viðlagatryggingu Íslands. Líkt og fram kom á fundinum í gær var ekki framkvæmd heildarendurskoðun á lögunum heldur skipuð nefnd af hálfu stjórnar stofnunarinnar sem virðist einkum hafa tekið mið af óskum stjórnarinnar, en af því er virðist ekki lagt sjálfstætt mat á það hvernig fyrirkomulag Viðlagatryggingar skuli vera.``
    Sem sagt þessi tillaga gengur út á að stjórnin sér einhverja praktíska agnúa á þessum málum, lagar það í frv. en myndar sér ekki skoðun á því hvernig Viðlagatrygging eigi að vera í heild áður en þetta frv. er samið. Og af hverju segi ég stjórnin? Jú, það var vegna þess að stjórnin réði því hverjir endurskoðuðu plaggið, lögin.
    ,,Staðfest var`` --- segir hér enn fremur, með leyfi forseta --- ,,af nefndarmönnum í gær að heildarendurskoðun hafi ekki farið fram og að vafalítið hefði mátt ígrunda fyrirkomulag vátryggingarskyldunnar ítarlegar. Hafa ber hugfast að frv. felur í sér grundvallarbreytingar á viðlagatryggingu hér á landi og það er vissulega umhugsunarvert að breyta svo mjög vátryggingarskyldunni á þann hátt sem lagt er til nema þá fyrst að vel yfirveguðu máli`` --- segir Tryggingaeftirlitið.
    Hér er í raun mjög djúpt í árinni tekið af Tryggingaeftirlitinu sem telur sem sagt að þetta mál sé óbrúklegt eins og það er. Það má gagnrýna Tryggingaeftirlitið fyrir þessa umsögn og ég geri það, fyrir það að tala ekki skýrar og segja nákvæmlega hvað það vill, því einu breytingartillögurnar sem Tryggingaeftirlitið svo gerir eru við frv. eins og það liggur fyrir án þess að segja nákvæmlega hvernig Tryggingaeftirlitið hefði viljað hafa frv. ef það hefði ráðið þessu. En Tryggingaeftirlitið er eins og allir hér vita sá aðili sem hefur umsjón með tryggingamarkaðinum hér á landi og á að standa þannig að hlutum að þar séu málin tryggð og örugg og m.a. að tryggingafélög séu ekki að taka á sig verkefni sem þau ráða ekkert við, sem tryggingafélög hafa auðvitað oft verið að gera og hafa farið á hausinn þess vegna.
    Auk þeirra athugasemda, sem hafa komið fram í sambandi við Samband ísl. sveitarfélaga, Tryggingaeftirlitið og svo um reikningana og fjárhagslegan grundvöll þessa máls, athugaði nefndin ýmsa fleiri hluti. Ýmsar af brtt. nefndarinnar, sem hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson mælti fyrir áðan, eru til bóta að mínu mati, það er engin spurning. En með hliðsjón af stöðunni þá held ég að langskynsamlegast sé að vísa svona máli aftur til ríkisstjórnarinnar og láta hana skoða þetta aðeins betur eða þá að heilbr.- og trn. verði í þessu í sumar. Mér skilst að nefndin eigi að vinna eitthvað í sumar og það verði ekki flóafriður fyrir henni í allt heila sumar. En það er nú svo sérstakt mál. M.a. er mér sagt að heilbr.- og trn. og fleiri nefndir þingsins --- þetta er nú ein af hinum merkustu eins og við vitum, bæði ég og formaðurinn --- eigi að skoða eitthvað sem heitir EES-mál. Það er eitthvert svona mál. --- Já, hv. þm. Össur Skarphéðinsson spyr: ,,Hvað skyldi það nú vera?`` Hann veit það örugglega að það er ekki menntamálaráð a.m.k. --- Þar kemur það fram í umsögnum um þetta frv. að varðandi EES-málið þá stangist ýmislegt í þessu frv. á við þær forsendur sem samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði byggir á. Nú er ég ekki í sjálfu sér að kvarta undan því. Það liggur auðvitað ekkert fyrir um það að þessi samningur um Evrópskt efnahagssvæði verði að lögum. Það eru mikil umbrot í öllum flokkunum í þessu máli, meira að segja líka í Alþfl., Sjáfstfl. og fleiri flokkum. Það getur vel verið að EES-málinu verði vísað út í hafsauga, ég skal ekkert um það segja og er ekki að gráta það, virðulegi forseti. Hitt er auðvitað ljóst að þeir sem ætla sér að afgreiða þetta svokallaða EES-mál ættu kannski að skoða það aðeins betur áður en þeir afgreiða ný lög um Viðlagatryggingu

Íslands sem er á skjön við þetta EES-mál allt saman. Það má segja að frá mínum bæjardyrum séð sé eini kosturinn við frv., eins og meiri hluti nefndarinnar vill afgreiða það, að nefndin lætur þetta EES-mál sem vind um eyru þjóta.
    Af þessum þremur meginástæðum, virðulegi forseti, sem ég hef nú rakið þ.e. í fyrsta lagi af fjárhagslegum ástæðum, í öðru lagi út af fundum Sambands ísl. sveitarfélaga og í þriðja lagi út af athugasemdum Tryggingaeftirlitsins, þá treystum við Ingibjörg Sólrún Gísladóttir okkur ekki til að afgreiða þetta mál eins og það kemur fyrir af skepnunni og leggjum þess vegna til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Nú þarf það ekki að skoðast sem neitt sérstakt traust á ríkisstjórninni. Það er ástæðulaust fyrir ríkisstjórnina að vera montin yfir því þó að ég leggi til að málinu sé vísað til hennar. Það sýnir bara hvað við í stjórnarandstöðunni erum sanngjörn.
    Staðreyndin er sú að ekkert liggur fyrir um það hvað málið kostar en þetta er þriggja til fjögurra milljarða fyrirtæki. Þetta er stærra en Menningarsjóður sem hefur verið gert heldur betur veður út af. Þetta mál er 500 sinnum stærra en Menningarsjóður sem er búið að taka hálftíma í að ræða utan dagskrár í dag og ræða mikið í fjölmiðlum að undanförnu af eðlilegum ástæðum. Það liggur ekkert fyrir um það hvað málið kostar. Tryggingaeftirlitið gerir stórfelldar athugasemdir við málið, Samband ísl. sveitarfélaga gerir stórfelldar athugasemdir við málið og samt ætla menn bara að afgreiða þetta rétt si svona.
    Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, án þess að ég sé að gera nokkrum manni það upp að hann vanræki þingskyldur sínar, að það er til einn og einn maður utan salarins sem hefur ekki fullt vald á því hvað stendur í þessum pappír. Það er svo alvarlegt. (Gripið fram í.) Ég var að vona, hv. þm., að þetta væri hin endanlega og eina undantekning. Ég tel það alvörumál að umgangast hlutina svona, ekki síst þegar maður hefur viðstadda sérfræðinga, eins og hv. varaþingmann Alþfl., sem er sérfræðingur í ofanflóðum og kann þessi mál betur en allir aðrir. Ég vona að hann leggi orð í belg. Ég vona að menn átti sig á því að það gengur auðvitað ekki að umgangast málin með þessum hætti. Ég ætla að segja það að lokum að ég er sannfærður um að í grófum dráttum er það þannig að stjórnarmeirihlutinn veit ekkert um hvað þetta mál snýst og hvað hann er að afgreiða. Þegar þetta EES-mál kemur, sem er eitthvert tungumál sem menn ætla að taka fyrir seinna á árinu, verða menn að taka þetta mál upp aftur. Það er kannski eini kosturinn við þetta, eins og ég sagði áðan, að menn láta þetta EES-tungumál eins og vind um eyru þjóta þegar þeir afgreiða þennan pappír. Það er okkar niðurstaða, mín og hv. 10. þm. Reykv., virðulegur forseti, að afskaplega vel íhuguðu máli að það sé langskynsamlegast að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar án þess að í því felist tillaga um traust á núverandi ríkisstjórn.