Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:46:00 (5858)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um fullgildingu samnings um réttindi barna sem er á þskj. 828.
    Með þessari tillögu fer ríkisstjórnin þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings frá 20. nóv. 1989 um réttindi barna. Samningurinn er birtur sem fskj. með tillögunni.
    Þessi samningur er árangur af starfi sérstaks starfshóps mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem vann að gerð hans á árunum 1979--1989. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti samninginn án atkvæðagreiðslu og var hann lagður fram til undirritunar í New York 26. jan. 1990 og undirritaður fyrir Íslands hönd sama dag með fyrirvara um fullgildingu. Samningurinn öðlaðist gildi 2. sept. 1990 og 116 ríki eru nú aðilar að honum.
    Virðulegi forseti. Hér á landi er framkvæmd þeirra mála sem þessi samningur fjallar um í fullu samræmi við ákvæði hans og er því ekki talið nauðsynlegt að gera fyrirvara um einstök ákvæði við fullgildingu samningsins. Þó er talið rétt að leggja fram sérstaka yfirlýsingu vegna ákvæða samningsins um endurmat dómstóla á ákvörðunum stjórnvalds um forsjá barna og um aðskilnað ungra fanga frá eldri föngum.
    Ég leyfi mér að gera stuttlega grein fyrir meginákvæðum samningsins en vísa að öðru leyti til athugasemda sem tillögunni fylgja.
    Samningurinn skiptist í þrjá hluta auk inngangs. Í fyrsta hluta er kveðið á um þau réttindi sem eiga að njóta verndar samkvæmt samningnum. Í öðrum hluta hans eru ákvæði um framkvæmd samningsins og loks í þriðja hluta eru hefðbundnar loka- og gildistökugreinar. Samningurinn nær til barna undir 18 ára aldri nema lögræðisaldur sé lægri hjá samkvæmt lögum viðkomandi lands. Ríkjum ber að tryggja börnum þeim réttindi sem samningurinn kveður á um án mismununar. Þegar tekin er ákvörðun sem varðar barn skal fyrst

og fremst haft í huga hvað barninu er fyrir bestu. Ríki eiga að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til að réttindi þau sem samningurinn kveður á um verði virk. Ríki eiga að virða réttindi og skyldur foreldra til að leiðbeina börnum sínum þannig að þau megi njóta þeirra réttinda sem samningurinn kveður á um.
    Kveðið er á um rétt barna til að lifa og ná þroska, til þess að fá nafn, ríkisfang og vera skráð strax eftir fæðingu og til að halda persónulegum auðkennum sínum. Fjallað er um rétt barna sem skilin hafa verið frá foreldri eða foreldrum gegn vilja þeirra. Ríkjum ber að greiða fyrir sameiningu fjölskyldna sem ekki búa í sama landi og stuðla að því að barn geti viðhaldið sambandi við foreldri sem ekki býr í sama landi og það. Þau skulu og gera ráðstafanir gegn því að börn séu flutt ólöglega úr landi og þeim haldið erlendis. Börn eiga að hafa rétt til að tjá sig í málum er varða þau sjálf.
    Í samningnum eru að auki almenn ákvæði um tjáningarfrelsi barna, trúfrelsi þeirra, félagafrelsi og friðhelgi einkalífs. Ríkjum ber að virða þá meginreglu að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á börnum sínum og aðstoða foreldra við að gegna foreldrahlutverki sínu.
    Ríkjum ber að vernda börn gegn hvers konar illri meðferð. Sérstök ákvæði eru um börn sem talin eru þurfa á sérstakri vernd að halda. Kveðið er á um rétt barna til heilbrigðisþjónustu og rétt barna sem vistuð eru á stofnunum. Fjallað er um rétt barna til almannatrygginga og rétt þeirra til að fullnægjandi lífsskilyrði og menntun sé þeim látin í té. Aðildarríkjum ber að virða rétt barna til hvíldar og tómstunda og rétt þeirra til að taka þátt í menningar- og listalífi. Börn eiga rétt á vernd gegn arðráni og vinnu sem getur verið þeim skaðleg. Ríkjum ber að vernda börn gegn ólögmætri notkun ávana-, fíkni- og skynvilluefna og gegn kynferðislegri misnotkun. Þeim ber að grípa til ráðstafana til að hindra brottnám barna og verslun með þau. Fjallað er um réttindi barna sem hafa verið svipt frelsi. Kveðið er á um skyldur ríkja til að sjá börnum sem sætt hafa illri meðferð eða eru fórnarlömb vopnaðra átaka fyrir endurhæfingu og félagslegri aðlögun. Fjallað er um réttarvernd barna sem eru ákærð eða dæmd fyrir refsiverðan verknað.
    Í samningnum er gert ráð fyrir því að sérstök nefnd sem kosin er af aðildarríkjunum fylgist með framkvæmd hans. Aðildarríkjum ber að gefa nefndinni skýrslur um það sem þau hafa gert til að framkvæma ákvæði samningsins og hvaða áhrif hann hefur haft.
    Eins og heyra má af því sem ég hef rakið fjallar þessi samningur um hvers konar samskipti barna við foreldra sína og samfélag. Sum ákvæðanna kveða á um réttindagæslu á mjög afmörkuðum sviðum. Önnur ákvæði eru almenns eðlis. Hvað varðar fjárhagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi er gerður sá fyrirvari að ríkið skuli grípa til þeirra ráðstafana sem þau hafa bolmagn til. Samningurinn er að mínu áliti mikilvægur þáttur í baráttu Sameinuðu þjóðanna fyrir auknum mannréttindum um allan heim. Það er von ríkisstjórnarinnar að Alþingi samþykki tillöguna á þessu þingi þannig að Ísland geti tekið þátt í starfi á grundvelli samningsins sem allra fyrst.
    Ég leyfi mér, frú forseti, að leggja til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn.