Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:50:56 (5859)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir að tillagan skuli koma fram á þessu þingi. Fyrr í vetur spurðist ég fyrir á þskj. 677 hvað tefði staðfestingu á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna sem undirritaður var af Íslands hálfu 26. jan. 1990 og hvenær ætlunin væri að það yrði gert. Hæstv. ráðherra upplýsti þá að málið væri í undirbúningi og tillaga yrði lögð fyrir á þessu þingi. Hún liggur nú fyrir og ég vona svo sannarlega að hún verði samþykkt áður en þessu þingi lýkur.
    Eins og hæstv. viðskrh., sem mælti fyrir tillögunni, minntist á fjallar þessi samningur um fjölmörg þau atriði sem eru grundvallarmannréttindi barna, þessara einstaklinga sem ekki eru færir um að standa vörð um eigin málefni, og komið er inn á fjölmörg atriði sem skipta miklu máli.
    Það er talað um réttindi barna til að hafa samgang við báða foreldra sína. Talað er um í athugasemd við 3. gr. að barnalög nr. 9/1981, ættleiðingalög nr. 15/1978 og barnaverndarlög nr. 53/1966 séu byggð á þeim sjónarmiðum sem kveðið er á um í 1. og 2. tölul. 3. gr. Síðan er vikið að frv. sem hér liggja fyrir sem eru byggð á hugmyndum sem í þessum samningi eru.
    Fyrir þinginu liggur enn fremur, eins og margoft hefur verið talað um, frv. til laga um umboðsmann barna. Tvímælalaust væri setning þeirra laga í samræmi við hugmyndir sem koma fram í þessum samningi enda hafa fjölmörg lönd komið því embætti á laggirnar.
    Því miður hefur mér skilist, samkvæmt fréttum sem úr hv. allshn. berast, að enn og aftur eigi að salta það mál. Fer nú að verða illskiljanlegt hvað þar ræður ferðinni. Að því verður komið seinna. Það er tvímælalaust ánægjulegt ef þessi þrjú frv., frv. til barnalaga, frv. um vernd barna og unglinga og frv. til laga um umboðsmann barna, mættu verða að lögum á þessu þingi. Þá hefði hið háa Alþingi svo sannarlega sinnt málefnum barna umfram það sem við höfum átt að venjast.
    Hér er á ferðinni hið ágætasta mál og ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. utanrrh. og jafnframt hæstv. dómsmrh., sem vissulega kom að því máli, fyrir að þessi tillaga skuli liggja fyrir og mun að sjálfsögðu styðja það að hún nái fram að ganga.