Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 18:57:46 (5861)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Aðeins til að leiðrétta smámisskilning sem kom fram í máli hv. 2. þm. Vestf. Vissulega er frv. sem liggur fyrir byggt á mjög svipuðum forsendum og norsku lögin um umboðsmann barna. Hins vegar er ekki hægt að bera saman íslenska kerfið og það norska vegna þess að það sem umboðsmanni barna er falið í frv. er í raun og veru það sem barnaverndarnefndum og barnaverndarráði var falið með gömlum lögum. En það hefur lengi verið ljóst að barnaverndarnefndir og barnaverndarráð hafa svo til eingöngu fjallað um einkamál, úrlausn barna sem hafa verið í vandræðum og foreldra þeirra. Það er auðvitað ekki hlutverk umboðsmanns barna, samkvæmt frv. sem hér liggur fyrir, heldur skal sá aðili hafa eftirlit með því að stjórnvaldsaðgerðir séu ekki gerðar nema litið sé til hagsmuna barna. Umboðsmaður á ekki að annast einkamál og ekki er til þess ætlast. Hér er því ekki um sambærilegt hlutverk að ræða. Það vildi ég bara leiðrétta.