Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:00:29 (5863)



     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanrrh. fyrir að fylgja þessu máli úr hlaði. Ég tel að þarna sé mjög merkilegt mál á ferðinni og löngu tímabært að Alþingi taki samninginn um réttindi barna til umfjöllunar og fullgildingar á þingi.
    Ég verð að lýsa því að mér finnst það mjög ánægjulegt að það skuli hafa gerst á þinginu í vetur að komið hafa upp mörg merk mál sem varða sérstaklega réttindi og hag barna. Ég minni í því sambandi á barnalögin, eða frv. til nýrra barnalaga, frv. til laga um vernd barna og ungmenna, frv. um umboðsmann barna og síðan þessa þáltill. Ég held að það væri mjög merkilegt ef Alþingi bæri gæfu til að samþykkja þau mál á því þingi sem nú stendur yfir og væri þá vel að verki staðið hjá þessu löggjafarþingi.
    Hvað þennan samning varðar --- ég hef náttúrlega ekki haft tækifæri til að kynna mér hann út í hörgul, enda er þetta mál nýkomið fram á þinginu og ég hef rétt hlaupið á einstökum atriðum --- sýnist mér að hér sé mjög merkilegur samningur á ferðinni og má segja að hér sé um einhvers konar mannréttindaskrá barna að ræða. Mér sýnist jafnframt, þegar ég skoða hann, að þarna séu hugsanlega hlutir sem hagað er á svolítið annan veg en er í íslenskum lögum eða frv. til nýrra laga sem hér hafa verið lögð fram í vetur. Ég rek mig strax á það í 1. gr. Þar er skilgreiningin á barni miðuð við 18 ára aldur en í frv. um vernd barna og ungmenna sem lagt var fram ekki alls fyrir löngu minnir mig að hugtakið barn hafi verið skilgreint upp að 16 ára aldri og síðan ungmenni 16--18 ára. Þarna er ákveðið misræmi á ferðinni. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé eðlilegast að miða skilgreininguna við 18 ára aldur og vera ekki að reyna að draga þau mörk í lögum eða lagatexta hvenær hættir barn að vera barn og verður ungmenni heldur hafa bara eina skilgreiningu. En um það má auðvitað fjalla síðar.

    Þá bendi ég á annað atriði í 2. mgr. 12. gr. þar sem segir að barni skuli veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. Mig minnir að í frv. til laga um vernd barna og ungmenna hafi þessi réttur stundum verið takmarkaður við 12 ára aldur. Að börn yfir 12 ára aldri mættu tjá sig um sín mál en ekki börn undir 12 ára aldri. Þetta tel ég að ætti að vera víðtækara og ég gerði það að umtalsefni þegar frv. um vernd barna og ungmenna var hér til umfjöllunar að ég teldi enga ástæðu til að hafa aldurstakmark inni í því frv. Ef barn vildi tjá sig ætti því að vera heimilt að gera það burt séð frá aldri.
    Þá vil ég líka fagna því sem kveðið er á um í 17. gr. þar sem mikilvægi fjölmiðla er viðurkennt og tryggð ákveðin vernd fyrir börn gagnvart fjölmiðlum og að fjölmiðlar uppfylli ákveðnar kröfur í upplýsingagjöf til barna. Það vantar inn í frv. sem nú liggur fyrir á Alþingi, um vernd barna og ungmenna, að þau njóti ákveðinnar verndar gagnvart fjölmiðlum. Það held ég að sé mikilvægt að við skoðum þegar við fjöllum um það frv.
    Það segir í e-lið 17. gr. að aðildarríkin eigi að stuðla að því að mótaðar verði viðeigandi leiðbeiningarreglur um vernd barna fyrir upplýsingum og efni sem skaðað getur velferð þeirra með ákvæði 13. og 18. gr. í huga. Fyrst við erum með frv. til barnalaga og frv. um vernd barna og ungmenna til umfjöllunar á þingi held ég að það væri ekki úr vegi að skoða frv. með tilliti til þessa.
    Ég fagna því að þessi þáltill. skuli komin fram, mér sýnist að þetta sé hið merkasta plagg. Vonandi verður hún samþykkt á þingi og vonandi gerist það í kjölfarið að þær skuldbindingar sem Íslendingar taka á sig með þessum samningi nái fram að ganga. Við höfum þetta þá ekki eins og eitthvert skrautplagg sem við veifum til marks um það hversu vel við stöndum að málum heldur flytjum það yfir í framkvæmdina.