Samningur um réttindi barna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:05:47 (5864)



     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þann stuðning sem fram hefur komið í máli þeirra þingmanna sem tekið hafa til máls í þessari umræðu við þáltill. um fullgildingu samnings um réttindi barna. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv. að þetta á ekki að vera neitt skrautplagg. Það er að vísu svo að það er okkar álit að framkvæmd þeirra málefna sem samningurinn fjallar um sé á Íslandi í samræmi við ákvæði hans en það er rétt að aðhald frá honum og leiðbeining um löggjöf er beinlínis tilgangur samningsins. Ábendingar sem hér hafa komið fram um það hvernig hv. utanrmn. eigi að halda á málinu eru vel þegnar og m.a. sú ábending 2. þm. Vestf. að leita eftir áliti, ef þurfa þykir, frá hv. allshn. á einstökum þáttum málsins.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en ítreka tillögu mína um að þáltill. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. utanrmn.