Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:21:00 (5869)



     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hæstv. ríkisstjórn sem nú situr ætlar ekki að láta deigan síga þegar hagsmunir sjómanna eru annars vegar. Það sætir satt að segja furðu að hér hefur komið fram hvert frumvarpið á fætur öðru sem hefur það eitt að markmiði að skerða kjör sjómanna. Fyrir nokkrum dögum fékk ég í hendur rit sem heitir ,,Þjóðarbúskapurinn, framvindan 1991 og horfur 1992``. Þar segir á bls. 5, Helstu niðurstöður, heitir kaflinn:
    ,,Árið 1991 var um margt hagstætt ár. Landsframleiðsla jókst um 1,4% og þjóðartekjur jukust enn meira eða um 2,8% vegna mikils viðskiptakjarabata.``
    Þetta er nú kreppan á Íslandi árið 1991. Því er hins vegar spáð að nú fari allt að versna en það vill svo til að það var gert líka síðast þannig að á þessu tekur auðvitað enginn mark. En hverjir skyldu hafa staðið fyrir aukinni landsframleiðslu? Það skyldu þó aldrei hafa verið íslenskir sjómenn? Það er satt að segja alveg yfirskilvitlegt að koma hér, hæstv. fjmrh., og tala um að frv. sé til að draga úr útgjöldum Lífeyrissjóðs sjómanna. Af hverju skyldu útgjöld Lífeyrissjóðs sjómanna til örorku vera umtalsverðar fjárhæðir? Vegna þess að þetta eru hættulegustu störf sem unnin eru í þjóðfélaginu og verða raunar æ hættulegri með aukinni vinnu um borð t.d. í verksmiðjutogurum. Þó segja megi að tækni hafi aukist virðist lífshætta sjómanna ekki hafa farið minnkandi með hinum nýju skipum. En þá kemur hæstv. fjmrh. og vill draga úr útgjöldum Lífeyrissjóðs sjómanna.
    Ég spyr: Hvar er hv. 16. þm. Reykv. einu sinni enn? Er formaður Sjómannafélags Reykjavíkur að stjórna Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna sem af lifðu, í hvert einasta skipti sem hér er rætt um hagsmuni sjómanna? Satt að segja, hæstv. forseti, sætti ég mig ekki við að ræða þessi mál hér né önnur frv. sem varða kjör sjómanna án þess að hafa þann mann í salnum. Og ég spyr: Er hann í húsinu? ( Forseti: Vegna spurningar hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur get ég upplýst að hv. 16. þm. Reykv. er ekki í húsinu um þessar mundir.)
    Hæstv. forseti. Þessar upplýsingar voru góðar og gildar og komu mér hreint ekki á óvart. En ég mælist til, ef það veldur ekki meiri háttar vandræðum, að umræðunni verði frestað þangað til sá maður er kominn til vinnu sinnar. Hann hlýtur að geta fengið frí dagstund á meðan við tölum um þetta mál. Það getur ekki annað verið. Ég geri ráð fyrir að hv. þm. eigi að einhverju leyti störfum sínum í Sjómannafélagi Reykjavíkur að þakka að hann var yfir höfuð kjörinn til Alþingis. Það er ekki hægt að sætta sig við að hvert frv. á annað ofan af þessu tagi sé rætt án þess að sá maður komi þar nokkurs staðar við sögu. Síðan leikur hann þann leik, eins og nokkrir fleiri áhugamenn um sjómennsku hafa gert, að með hinu nýja atkvæðagreiðslukerfi hafa þeir drattast hingað til atkvæðagreiðslu en ekki nýtt hvíta takkann, sem þýðir að menn greiði ekki atkvæði, heldur ekki hreyft fingurna, og þá er skráð að þeir hafi ekki verið viðstaddir. Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi. Þessir menn hafa verið staðnir að því í þinginu að hegða sér á þennan veg.
    Ég skal hins vegar halda áfram að ræða þetta frv. Ég geri ráð fyrir að hv. 16. þm. Reykv. geti

ímyndað sér hvað ég hef á móti frv. og þá skal fyrst taka 5. gr.
    Margir hafa greitt í Lífeyrissjóð sjómanna síðan hann var stofnaður. Á sínum tíma var gerður samningur með lögum um Lífeyrissjóð sjómanna og menn hafa greitt í sjóðinn í trausti þess að þeir ættu þar ákveðin réttindi. Síðan virðist hægt að breyta þeim samningi rétt eins og hendi væri veifað. Mér er illskiljanlegt, ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að frv. hafi verið samið að beiðni stjórnar Lífeyrissjóðs sjómanna. (Gripið fram í.) Ég vildi bara vita hverjir sitja í þeirri stjórn, hvenær sú beiðni kom fram og í sambandi við hvað.
    Er það sanngjarnt að maður sem stundað hefur sjómennsku, sem í mörgum tilvikum er vel launað starf því annars væri ekki nokkur maður í þessum störfum, sé metinn til örorku eftir því hvort hann getur unnið einhver allt önnur störf? Ég vil minna hæstv. ráðherra á að í okkar almannatryggingalöggjöf er gert ráð fyrir að við örorkumat sé metið hvort maðurinn geti unnið eftir slys eða sjúkdóm 1 / 4 af því sem hann annars hefði getað miðað við fyrri störf, menntun, uppeldi og þess háttar --- og er ég nú búin að gleyma hvernig þetta er orðrétt í almannatryggingalögum. Síðan á að afgreiða sjómannastéttina með því að geti menn ekki verið til sjós geti þeir svo sem sest inn á einhverja skrifstofu fyrir mörgum sinnum lægri laun. Ég trúi því ekki að stjórn þessa sjóðs sé svo gjörsamlega búin að gleyma þeim grundvallaratriðum sem almannatryggingalöggjöf í landinu byggist á, að þetta geti hreinlega verið rétt. Enda kemur nú í ljós í máli hæstv. ráðherra að einhverjir hafa fengið bakþanka og ráðherra kemur með einhverjar vandræðalegar tillögur um að það versta skuli ekki taka gildi fyrr en eftir fimm ár, svona til að taka versta broddinn úr.
    Með leyfi hæstv. forseta segir í 5. gr.:
    ,,1. mgr. 13. gr. orðist svo:
    Hver sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins undanfarin 3 almanaksár og a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum, á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi, sem tryggingayfirlæknir metur 35% eða meira. Örorkumatið skal miðað við vanhæfni sjóðfélaga til almennra starfa.``
    Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra, herra forseti: Hvað eru almenn störf? Er sjómennska ekki almenn störf? Hvað þýðir þetta, ef ætti nú að fara að túlka þetta lagalega?
    Í 5. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal þó miða við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna starfi því, er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd.``
    Vitaskuld á maðurinn að fá greidda örorku samkvæmt þeim lögum sem tengd eru tilvist hans í sjóðnum yfirleitt. Þannig að ég get ekki betur séð en að sá samningur hljóti að vera gjörsamlega brotinn á sjómönnum sem fólst í lögum um Lífeyrissjóð sjómanna.
    Menn hafa greinilega líka fengið einhvern bakþanka yfir barnalífeyrinum. Samkvæmt núgildandi lögum er fjárhæð barnalífeyris til örorkulífeyrisþega breytileg þar sem í lögunum segir að samanlagður lífeyrir frá sjóðnum og almannatryggingum skuli vera einn og hálfur barnalífeyrir almannatrygginga. Síðan segir: ,,Fjárhæð barnalífeyris frá sjóðnum fer eftir því, hvort sjóðfélagi nýtur barnalífeyris frá almannatryggingum eða ekki. Hér er lagt til að barnalífeyrir frá sjóðnum verði alltaf 1 / 2 barnalífeyrir almannatrygginga.``
    Hvað ef maðurinn nýtur ekki barnalífeyris frá almannatryggingum? Skil ég það þá rétt að verið sé að lækka barnalífeyri sjómanna sem orðið hafa öryrkjar, um einn barnalífeyri? Það eru hlýjar kveðjur sem þessari stétt eru sendar héðan úr þingsölum á þessu löggjafarþingi.
    Í athugasemd um 4. gr. frv. segir um ákvæði sem tekur til þess hvenær skila eigi iðgjöldum til sjóðsins svo og dráttarvaxta, því ein ástæðan fyrir því að sjóðurinn er illa haldinn eru vangoldin iðgjöld, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þessi tillaga tekur mið af þeim kjarasamningum sem nú eru í gildi, en gert er ráð fyrir að sjóðstjórn geti breytt þessum reglum verði breytingar á ákvæðum varðandi uppgjörstímabil í kjarasamningum sjómanna og útgerðarmanna.``
    Ég spyr: Hvað þýðir vanskil iðgjalda? Þýðir það að þeim hefur ekki verið skilað af atvinnurekendum? Ef svo er er það gild ástæða til að breyta lögum? Í staðinn fyrir að heimta af atvinnurekendum iðgjöldin eru réttindi sjómannanna, sem greiða iðgjöldin, skert. Ef ég misskil þetta ekki allt saman, sýnist mér frv. vera með hreinustu endemum og vildi svo sannarlega biðja þá nefnd sem við því tekur að skoða það mjög vandlega.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að málið færi til efh.- og viðskn. Það kunna vel að vera rök fyrir því þar sem hér er um lífeyrissjóðsmál að ræða. En ég vil biðja hæstv. ráðherra og hæstv. forseta að sjá svo til að sjútvn. fái málið einnig til skoðunar og umsagnar, þó ekki væri annað, því ég hygg að hafi einhverjir áhuga á kjörum sjómanna í þeirri góðu nefnd, hljóti ýmislegt að stinga í augu.
    En ég ítreka, hæstv. forseti, að ég óska þess að umræðunni ljúki ekki. Það getur ekki skipt þeim sköpum. Ég óska eftir að fá að hafa formann Sjómannafélags Reykjavíkur, sem við erum svo heppin að hafa á hinu háa Alþingi stöku sinnum. Ég vil fá að eiga við hann orðastað um frv. áður en það verður afgreitt til nefndar.