Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:45:57 (5873)


     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek undir þakkir til hæstv. fjmrh. fyrir að taka vel í að fresta umræðunni og jafnframt fyrir að lýsa því yfir að hann sé handlangari stjórnar lífeyrissjóðsins og skilja mátti að hann teldi sig ekki bera allt of mikla ábyrgð á þessu frv. Hann má vera stoltur af því.
    Hér er talað hvað eftir annað um að einn þáttur í vanda sjóðsins séu vangoldin iðgjöld. Við því er auðvitað aðeins eitt ráð og það er að atvinnurekendur verði látnir greiða þau iðgjöld sem þeir hafa tekið af launþegum. Síðan er talað um að taka sjóðinn út úr Tryggingastofnun ríkisins til þess að rekstur hans verði ódýrari. Ég get fullvissað hæstv. fjmrh. um að það verður ekki til þess að rekstur sjóðsins verði ódýrari. Sannleikurinn er sá að allir lífeyrissjóðir landsins ættu að afgreiðast í Tryggingastofnun ríkisins því að það mundi spara mikla peninga af yfirbyggingu sjóðanna. Ég get heldur ekki skilið hvað er að því að Ríkisendurskoðun endurskoði reikninga sjóðsins, mér er alveg fyrirmunað að skilja hvað sparast við að hún hætti því. En síðast en ekki síst: Má vænta þess, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. komi með hvern lífeyrissjóðinn á fætur öðrum? Þeir eiga allir við ákveðinn vanda að stríða, menn hafa óttast framtíðarmöguleika þeirra á að greiða þau lögskipuðu eftirlaun sem þeim ber og öll þekkjum við þá umræðu og allan þann aumingjaskap sem við hefur gengist þegar talað hefur verið um að sameina alla landsmenn í einn lífeyrissjóð. En ég hlýt að spyrja: Er von á fleiri slíkum frumvörpum þar sem vandi lífeyrissjóðanna er leystur með því að skerða umsamin réttindi aðildarfélaga í lífeyrissjóðunum?