Lífeyrissjóður sjómanna

132. fundur
Mánudaginn 04. maí 1992, kl. 19:48:10 (5874)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :     Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki margt til þess að svara. Þótt ég hafi sagt sjálfur að ég sé handlangari þá þýðir það ekki það að ég taki ekki ábyrgð á frv., vissulega geri ég það. Ég hef trú á því að betra sé fyrir sjóðsfélaga að reglurnar í sjóðnum séu þannig að fólk megi vænta þess í framtíðinni að geta fengið greitt úr sjóðnum þegar það þarf mest á því að halda. Ég bendi á að þær reglur sem sjóðurinn er að taka upp eru í flestum tilvikum samkvæmt frv. þær að samræma bótarétt úr þessum sjóði við bótarétt úr öðrum lífeyrissjóðum. Mér finnst þetta skipta verulegu máli. Jafnframt vil ég að það komi fram að ekki er von á því að fleiri frv. af þessu tagi verði flutt í vor. Það hafa verið flutt nokkur á undanförnum árum og ég held að þau hafi yfirleitt verið til bóta og ég held sem betur fer að skilningur manna á lífeyrissjóðunum hafi verið að breytast og skilningur að vaxa á því að þessir sjóðir eru auðvitað ekki einungis sjóðir hinnar líðandi stundar heldur sjóðir sem eru stofnaðir til þess að þeir sem greiða í þá geti á ævikvöldi sínu fengið að njóta lífsins með viðeigandi hætti sem þeir eiga á skilið.