Fjárhagsstaða Náttúruverndarráðs

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 13:55:00 (5883)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. umhvrh. og varðar málefnið fjárhagsstöðu Náttúruverndarráðs. Samkvæmt frv. til fjárlaga fær Náttúruverndarráð 38,5 millj. til starfsemi sinnar. Náttúruverndarráð fór eindregið fram á að þurfa ekki að verða fyrir þessum flata niðurskurði og óskaði eftir að fá 40 millj. og 700 þús. kr. en ekki var orðið við því. Nú er það rétt eins og fram hefur komið að Náttúruverndarráð fór allverulega fram úr heimildum með greiðslum sínum á síðasta ári, en hefur fært rök fyrir þeim fjármunum og er ekki annað að sjá en það hafi allt saman verið meira og minna nauðsynlegar framkvæmdir sem farið var í. T.d. má nefna framkvæmdir í Skútustaðagígum, lagfæringar á tjaldstæði í Skaftafelli og einnig má nefna að unnið var að endurbótum á íbúðarhúsi þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli og er það nú loksins orðið múshelt, eins og kemur fram í bréfi frá Náttúruverndarráði.
    Nú er svo að Náttúruverndarráð hefur reynt að miða starfsemi sína við fjárlög og gert áætlanir í því sambandi en þá berast þær fregnir að fjmrn. gerir kröfur um að Náttúruverndarráð greiði einhverjar milljónir til baka til ríkissjóðs sennilega vegna þess að ráðið fór fram úr á síðasta ári.
    Ekki er séð hvernig hægt er að verða við þessu af hálfu Náttúruverndarráðs öðruvísi en þá að draga úr rekstri, t.d. með því að ráða ekki landverði, því að það er þá eitt af því sem hefur ekki verið gengið frá endanlega fyrir árið.
    Ég hlýt því að spyrja hæstv. umhvrh. hvernig hann ætli að sjá til þess að hægt verði að halda uppi nauðsynlegri starfsemi til verndar okkar dýrmætu náttúru.