Fjárhagsstaða Náttúruverndarráðs

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 13:57:00 (5884)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Einfaldasta leiðin til að sjá til þess hefði náttúrlega verið ef meira fé hefði verið veitt af fjárlögum til þessa starfs, en svo var ekki og í Náttúruverndarráði varð nokkur niðurskurður eins og hjá svo fjölmörgum öðrum stofnunum ríkisins. Náttúruverndarráð sætti engu sérstöku harðræði í þeim efnum. Hitt er annað mál að í mörg ár hefur það verið svo að Náttúruverndarráð, því miður, hefur farið verulega fram úr fjárlagaheimildum á hverju einasta ári. Reynt hefur verið að bæta úr því, m.a. með því að ráða sérstakan fjármálastjóra sem sinnir fjármálastjórn Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs og ég hygg að sú ráðstöfun sé mjög til bóta.
    Sá niðurskurður sem hefur orðið hjá þessari stofnun þarf auðvitað ekki allur að bitna á landvörslunni. Það er auðvitað mat og röðun Náttúruverndarráðs hvernig niðurskurðurinn kemur niður. Það hefur verið komið til móts við þetta að nokkru leyti með því að Ferðafélag Íslands, sem hefur tekjur af ferðamönnum á hálendinu og þeirri aðstöðu sem það veitir, mun annast hluta vörslunnar. Önnur mál hafa enn ekki verið leyst. Hins vegar hef ég ítrekað bent á það að til þess að standa undir landvörslu, sem er mjög nauðsynleg, þá hljóti að koma til í einhverjum mæli aukin gjaldtaka. Það er bjargföst skoðun mín og ég held það eigi að fjármagna þetta með þeim hætti í vaxandi mæli. En Náttúruverndarráð hefur ekki sætt sérstöku harðræði í þessum efnum og sá niðurskurður sem þar hefur orðið þarf ekki allur að bitna á landvörslunni.