Vegarlagning og jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:06:30 (5890)

     Sigurður Hlöðvesson :
    Virðulegi forseti. Ég vil bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh., Halldórs Blöndals.
    Á 113. löggjafarþingi var flutt till. til þál. um könnun á gerð jarðganga og vegarlagningar milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar í framhaldi af opnun jarðganga um Ólafsfjarðarmúla, eða eins og segir í þáltill., með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta Vegagerð ríkisins kanna í samráði við sérfróða aðila lagningu vegar og gerð jarðganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjörð.
    Við könnun þessa skal m.a. hafa í huga hagkvæmni jarðgangagerðar borið saman við aðra valkosti og hafa sérstaklega hliðsjón af stofnkostnaði, notagildi, viðhaldskostnaði og byggðarþróun, félagslegum sjónarmiðum, samtengingu þéttbýlisstaða og styttingu vega.``
    Þessi þáltill. fékk þá afgreiðslu að henni var vísað til ríkisstjórnarinnar með það fyrir augum að þingmannanefnd sem vann að langtímaáætlun um samgöngumál fjallaði um málið.
    Ég vil ekki taka afstöðu til þess hvort rétt sé að fara í jarðgangagerð, það sé sú besta leið sem farin yrði til þess að bæta samgöngur á milli Norðurl. e. og Norðurl. v., þ.e. jarðgöng yfir í Héðinsfjörð og þaðan yfir í Ólafsfjörð frá Siglufirði. Ég vil þó segja að það er mjög mikilvægt að samgöngur milli þessara staða verði bættar, þ.e. að tengja saman Norðurlandskjördæmi v. og Norðurlandskjördæmi e. með betri vegi heldur en nú er, þ.e. veginum um Fljót og Lágheiði til Ólafsfjarðar. Það er mjög brýnt að þar verði miklar bætur á því sá vegur er alls ófullnægjandi til þess að hægt sé að tala um gott vegasamband.
    Ég held ég að þurfi ekki að lýsa því fyrir ráðherra hversu mikilvægt er að samgöngur séu góðar til þess að styrkja byggðina í landinu og þarf kannski ekki að hafa frekari orð um það. En ég vil því spyrja hæstv. samgrh.:
    1. Hvað líður þeirri athugun sem getið er um í þáltill.?
    2. Má vænta þess að ráðherra beiti sér fyrir að samgöngur milli Norðurl. v. og Norðurl. e. um Fljót og Lágheiði til Ólafsfjarðar verði bættar á næstunni, þ.e. með lagfæringu á Lágheiði?