Vaxtalækkun með handafli

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:12:00 (5893)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég beini spurningu minni til hæstv. forsrh.
    Hæstv. forsrh. hefur margoft ítrekað að vaxtalækkun með handafli komi ekki til greina og hefur haft mörg orð uppi um það, bæði í þingræðum og núna síðast í sinni stefnuræðu í upphafi þingsins að vaxtalækkun með handafli sé engin lausn í raun og veru. Forsenda vaxtalækkunar séu hallalaus fjárlög eða eftir því sem hallinn á fjárlögum er minni því lægri geti vextirnir orðið. Þegar þetta markmið hafi tekist þá sé það náttúrlega alls ekki handaflið sem á að ráða heldur fyrst og fremst sé það markaðurinn. Þá komi markaðurinn til og vextirnir lækki.
    Nú hefur það hins vegar gerst í tengslum við kjarasamninga að vextir hafa verið lækkaðir með handafli og það á sama tíma og hæstv. fjmrh. lýsir því yfir í viðtali við fréttamann á Stöð 2 að hallinn á fjárlögum verði örugglega 2 milljörðum kr. meiri en fjárlög gera ráð fyrir. Fjmrh. sagði í fréttaviðtali að það væri kraftaverk ef hallinn á fjárlögum yrði innan við 6 milljarða.
    Því spyr ég hæstv. forsrh.: Hvað veldur því að nú er allt í einu hægt að lækka vexti með handafli

á sama tíma og að hallinn á fjárlögum er að aukast að mati hæstv. fjmrh.?