Vaxtalækkun með handafli

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:18:20 (5896)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það vafðist fyrir þingmanninum að lesa þessa einu setningu, hann sagðist ekki hafa tíma til þess og rökstuddi það í löngu máli, en menn heyrðu síðan setninguna og það var þess vegna sem ég sagði að orð fjmrh. hæstv. hefðu verið snúin út úr samhengi. Þegar hv. þm. segir að ekkert gerist á samri stundu við kjarasamninga sem breytir forsendum um vexti þá veit þingmaðurinn það að samningarnir eru nánast til árs og þeir leggja þess vegna ákveðnar forsendur fyrir efnahagsramma þjóðlífsins og það er auðvitað mjög þakkarvert að aðilar vinnumarkaðarins, launþegar og vinnuveitendur, hafi viljað leggja slíkan grundvöll að efnahagslegum forsendum eins og þeir gerðu. Það eru nákvæmlega þær forsendur sem leiða til þess að vaxtastigið má lækka. Það eru sem sagt efnahagslegar, markaðslegar forsendur.