Þátttaka Íslands í Ólympíuskákmótinu

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 14:23:02 (5899)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin og fer í allri vinsemd fram á það að menn skilji þá stöðu sem uppi er hjá Skáksambandinu. Skáksambandið stendur mjög illa fjárhagslega og hefur gert um langt árabil. Það má auðvitað ekki láta þann almenna fjárhagsvanda sem Skáksambandið stendur frammi fyrir verða til þess að menn sendi ekki sveit á Ólympíuskákmótið. Mér hefur skilist --- og það hlýtur reyndar að vera að menn velti því fyrir sér hvenær fjáraukalög, lagafrv. yrði lagt fyrir á þessu ári. Forsendur kjarasamninga breyta ýmsu í fjárlögum fyrir árið 1992. Það er augljóst mál. Og ég hvet til þess að tekið verði á þessari sérstöku fjárbeiðni Skáksambands Íslands jákvætt og það verði tryggt að Íslendingar geti tekið þátt í þessu skákmóti. Hér er um litla fjármuni að ræða og ég bið um það að menn fari ekki að láta hinn almenna vanda Sáksambandsins verða til þess að sambandið hrökkvi frá því að senda sveit á næsta Ólympíuskákmót. Við erum með efnilega sveit. Hún var í 5. sæti á síðasta Ólympíuskákmóti og gæti örugglega komist hærra nú ef hún kemst út.