Greiðslur úr ríkissjóði

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 15:46:00 (5908)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Formaður fjárln., hv. 6. þm. Reykn., hefur gert grein fyrir því frv. sem liggur fyrir um greiðslur úr ríkissjóði o.fl. sem fjárln. flytur og ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um frv. Hann hefur gert ítarlega grein fyrir því. Ég vildi aðeins leggja nokkur orð inn í þessa umræðu um afstöðu okkar fulltrúa Framsfl. í nefndinni gagnvart þessu frv.
    Fjárln. stendur sem heild að þessu frv. og mikil vinna var lögð í það í nefndinni og mér er kunnugt um að það var einnig gert í þeirri fjárln. sem sat á fyrra kjörtímabili. Hún lagði mikla vinnu í frv. sitt á sínum tíma sem var til umræðu á síðasta þingi. Aðdragandinn að þessu máli er því orðinn nokkuð langur. Þessu frv. er eins og hinu fyrra ætlað að setja skýr lagaákvæði um samskipti löggjafar- og framkvæmdarvalds á sviði ríkisfjármálanna. Við fulltrúar Framsfl. höfum fylgt þeirri stefnu og reynt að koma þeim sjónarmiðum til skila í nefndinni að lagaramminn um þau sé eins einfaldur og skýr og kostur er, því að oft og tíðum er ekki um mjög einföld mál að ræða, þau ákvæði sem í frv. eru standist í framkvæmd og valdi ekki árekstrum milli löggjafar- og framkvæmdarvalds eftir á þegar á það reynir að fara að framkvæma þau. Þetta höfum við haft að leiðarljósi í vinnu okkar og um þetta atriði voru miklar umræður í nefndinni en það hefur tekist allvel að samræma sjónarmiðin og vil ég láta í ljós ánægju með það. Það er meginreglan í frv., sem kemur fram í 1. gr. þess, að engar greiðslur úr ríkissjóði má inna af hendi nema heimildar til hennar sé aflað fyrir fram í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir hvert reiknisár. Þetta er aðalreglan og spyrja má hvort það þurfi nokkurs meira við. En málið er ekki alveg svona einfalt og það eru fjölmörg ákvæði varðandi ríkisfjármálin sem frv. tekur á.
    Óhætt er að segja að mestur tími hafi farið í að ræða um 2. gr. frv. sem kveður á um heimildir ráðherra til kjarasamninga og meðferð þeirra kjarasamninga á Alþingi. Því hefur verið breytt frá fyrra frv. Meginreglan er í frv., sem samkomulag tókst um, að ráðherra hafi heimild til kjarasamninga, hún sé skýr og ótvíræð. Við fulltúar Framsfl. erum fylgjandi því sjónarmiði að óhæft sé annað en að ráðherra hafi skýrar og ótvíræðar heimildir til kjarasamninga en leiti síðan heimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum fyrir útgjaldaaukningunni eins fljótt og kostur er. Ég tel að þarna hafi náðst lending sem ætti að vera vel skýr og framkvæmanleg. En um þetta hefur eins og ég gat um orðið miklar umræður og þessi lending náðist í málinu.
    Það hefur verið gerð grein fyrir öðrum greinum frv., t.d. 4.--7. gr. sem fjalla um meðferð sértekna og hagnað B-hluta fyrirtækja, reglugerðarákvæði, tilfærslu greiðsluheimilda milli verkefna og ónotaðar fjárveitingar. En framkvæmd reglna og lagaákvæða um þessi málefni, sem hér um ræðir, hafa verið nokkuð á reiki og vantar tilfinnanlega skýrari ákvæði um þessi efni.
    Í 9. gr., sem hæstv. fjmrh. gerði að umtalsefni áðan, var það niðurstaða að hámark skuli sett í fjárlögum ár hvert um yfirdrátt í Seðlabankanum. Við erum samþykkir þessari niðurstöðu og eins og hæstv. fjmrh. tók fram þá hefur sú stefna verið uppi og kom vissulega til umræðu hvort það ætti að taka algjörlega fyrir þessa heimild til yfirdráttar. Ég held að sú lending sem þarna náðist sé heppilegri. Ég sé ekki að fjármagnsmarkaðurinn á Íslandi sé orðinn það þróaður að það sé heppilegra fyrir ríkissjóð eða aðra þá sem gæta fjárhirslunnar að stinga sér til sunds í þessum efnum og þurfa að afla sér rekstrarfjár eingöngu með skammtímalánum og sölu pappíra á markaði. Ég tel að þarna hafi náðst millileið sem er viðunandi.
    Ég er sammála hæstv. fjmrh. um það að 6. gr. heimildir fjárlaga hafa oft verið ansi opnar. Ég tek það alveg á mig ásamt og fleiri hv. þm. Ég er viss um að þeir eiga eins mikinn hlut þar að máli og hæstv. ráðherrar á hverjum tíma. Það er alveg rétt að þarna hafa farið inn ýmis baráttumál margra hv. þm. Þó held ég að þessar heimildir verði að vera fyrir hendi og þá aðallega um kaup og sölu eigna ríkissjóðs, að það

sé háð slíkum heimildum, vegna þess að ég tel að það sé stirt í vöfum að leggja fram lagafrv. um hverja einustu slíka sölu. En að sjálfsögðu er það óhæft fyrirkomulag að eignir ríkisins séu seldar eða keyptar án lagaheimildar. En ég tek undir það vissulega að þessar 6. gr. heimildir verði að vera skýrar.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að ég lít svo á að vegna ákvæða 3. gr. frv. sé óheimilt að selja eignarhlut í félögum, þar á meðal hlutabréf, nema með ákvæðum í almennum lögum.
    Ég ætla ekki að hafa öllu fleiri orð um þetta frv. Við fulltrúar Framsfl. í fjárln. stöndum að þessu frv. Við hlustum að sjálfsögðu á þær hugmyndir sem koma fram við 1. umr. um málið og við munum taka fullan þátt í umræðu um þær athugasemdir í nefndinni þegar málið kemur þangað.