Greiðslur úr ríkissjóði

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 15:56:37 (5909)


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Eins og hv. síðasti ræðumaður skýrði frá þá styður Framsfl. þetta frv. En vegna forsögu málsins langar mig til að segja öfrá orð. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég lagðist gegn afgreiðslu frv. með þessu nafni í fyrra þar sem mér þótti þá að fjárln. væri komin ofar ríkisstjórninni að afli og völdum og í því væru ákvæði sem augsýnilega væru óheppileg eins og að fara að ræða kjarasamninga á Alþingi áður en þeir væru gerðir. Nú hefur þessum agnúum verið eytt og frv. lagt fram í breyttri mynd og ég vil lýsa yfir heils hugar stuðningi við málið eins og það liggur fyrir á þskj. 737. Ég vil líka bæta því við að fyrr á þessu þingi flutti ég á þskj. 423 frv. til laga um bann við sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda og endurflutti það reyndar frá í fyrra. Það frv. tekur á einum þætti þessara mála, þ.e. að fjmrh. eða viðkomandi ráðherra sé óheimilt að selja eftirtaldar eignir ríkissjóðs og ríkisstofnana eða sjóða í ríkiseign nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum:
    a. fasteignir,
    b. hlutabréf eða eignarhlut í félögum,
    c. skip eða flugvélar,
    b. listaverk og listmuni eða söfn sem geyma menningarverðmæti,
    e. aðrar eignir sem hafa verulegt verðgildi.
    Mér sýnist að frv. í núverandi mynd taki yfir þessi atriði. Frv. mitt hefur að sjálfsögðu ekki fengist rætt á þinginu frekar en önnur þingmannafrumvörp. Hér hefur fyrst og fremst verið sinnt afgreiðslu stjórnarfrumvarpa. Ég vil ekki tefja fyrir því þingmannafrumvarpi sem er til umræðu eða afgreiðslu þess. Ég styð það heils hugar. Ég tel að það taki yfir þau atriði sem talin voru upp í því frv. sem ég flutti og vænti þess að þetta frv. verði að lögum áður en þessu þingi lýkur.