Samkeppnislög

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:23:00 (5914)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru mjög mikilvæg nýmæli í IV. og V. kafla þessa frv. Annars vegar er um að tefla bann við samkeppnishömlum og hins vegar um eftirlit við þeim og með þeim. Í 18. gr. eru ákvæði þar sem samkeppnistofnun getur skyldað fyrirtæki til að tilkynna um samruna fyrirtækja eða yfirtöku á öðru fyrirtæki, um kaup á meiri hluta í öðru fyrirtæki eða yfirtöku á starfsemi annars fyrirtækis með öðrum hætti sem gera má ráð fyrir að hafi veruleg áhrif á samkeppnisaðstæður. Þarna eru líka ákvæði um það að ef

eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki þannig að hamlað geti samkeppni og brotið í bága við markmið laganna, þá má bera fram kröfu um ógildingu slíkra gerninga eigi síðar en þremur mánuðum eftir að ráðinu var kunnugt um samrunann eða yfirtökuna.
    Hér verður augljóslega oft um túlkunarvanda að ræða en ég tel að þessi ákvæði geti snert samkeppnisaðstæður sem þegar eru til staðar og þá gæti komið til kasta ákvæðanna sem er að finna í XI. kafla laganna um viðurlög, ekki síst ákvæðanna í 43. gr. þar sem eru heimilaðar stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn bannákvæðum um samninga eða samráð sem skaðlegir geta talist og brjóta í bág við markmið þessara laga. Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara að leggja út í nákvæmum lagalegum skilningi ákvæði þessara laga eða þessa lagafrv., en ætla þó að benda á að þetta er kjarni nýmælanna í frv. og að sjálfsögðu yrði þetta mál athugað mjög vandlega í þeirri nefnd þingsins sem þetta mál fær til meðferðar, hv. efh.- og viðskn. og ég mun ásamt nefndinni leita umsagna um málið sem víðast meðan það verður til meðferðar hér í þinginu.