Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 16:58:40 (5923)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það hefur vakið mig til umhugsunar að sá sem hefur einna mest haft sig í frammi í fjölmiðlum af hálfu stjórnarsinna í tengslum við frv. er verktaki, Gunnar Birgisson. Það hefur hneykslað hann mjög að um 50 millj. kr. hafi verið lánaðar út vegna þess að kerfið var ekki nógu fullkomið og menn hafi verið að innheimta þetta til baka. Talað er um að 40 millj. kr. séu komnar inn. Ég hélt að svona grjótkast úr glerhúsi væri kannski ekki það sem hentaði einna best. Skyldu verktakarnir þola þessa lúsarleit? Skyldi aldrei hafa verið borgað út án þess að verkið hafi verið unnið eins og til stóð hjá verktökunum? Það er ekki skrýtið þó að hæstv. menntmrh. telji að rétt sé að draga upp klútinn.
    Er hægt að halda því á lofti í fjölmiðlum landsins að 50 millj. kr., sem hafa verið greiddar og eru komnar inn í sjóðinn aftur, séu slíkur stórskandali í kerfinu að nú verði bara að loka sjoppunni hvað þessar leikreglur snertir? Það er eins og mig minni að Íslandsbanki hafi verið að afskrifa 1,5 milljarða á seinasta ári. Dálítið merkilegt það. Eru þeir reiðubúnir að gera grein fyrir því hvernig stóð á því? Er búið að framkvæma breytingar á kerfinu? Er Gunnar Birgisson reiðubúinn að mæta í sjónvarpi og leggja til að lánastarfsemi verði hætt þar til svona hlutir fari og kerfið sé orðið fullkomið? Þetta er önnur hliðin á þessu máli.
    Hér ræða menn lánasjóðinn. En úti í menntmn. í morgun ræddum við sjálfsvíg ungra karlmanna, 15--24 ára, og við erum þar þriðja efsta þjóðin í röðinni í heiminum, herra menntmrh. Á hvaða stig förum við þegar við erum búin að afgreiða frv.? Hvar stöndum við þá? Náum við fyrsta sætinu? Náum við fyrsta sætinu í sjálfsvígum með því að afgreiða þá vitleysu sem hér er verið að leggja til? Það er ekki skrýtið þótt herra forseti sé órólegur yfir því að eiga að bera ábyrgð á svona vinnubrögðum. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að láta sér detta það í hug að þannig eigi að standa að málum að menn séu meðhöndlaðir eins og fyrsta árs nemar allan þann tíma sem þeir fara í gegnum skóla. Það nær ekki nokkurri átt.
    Það sækir á mig sú hugsun að þeir sem fluttu tillöguna um að draga úr sjálfsvígum hefðu hikað við að leggja til hugmyndir eins og þessar ef þeir gerðu sér grein fyrir því að ein af ástæðunum fyrir skipbrotum æskumanna er að menn ná ekki markmiðum sínum í námi. Það land sem situr uppi með flest sjálfsvíg barna í heiminum, Japan, stendur í dag frammi fyrir þeirri staðreynd að heimurinn er hneykslaður á þeim kröfum sem gerðar eru til barna og ungmenna og telja að þrátt fyrir hagvöxtinn sem þar er hafi menn ekki áhuga á að búa við þær aðstæður. Hér kemur nefnilega í ljós, sé tillagan um sjálfsvígin skoðuð, að margir stjórnarsinnar eru hlynntir því að það beri að draga úr þeim með fyrirbyggjandi aðgerðum. Er það ekki út og suður að auka svo streitu manna sem eru í námi að það sé ekki aðeins spurning hvort menn þurfi að sitja einu árinu lengur til að ná lokaprófi eða hvort þeir muni yfir höfuð ná lokaprófinu heldur bætist það við að kippt verði fjárhagslega undan þeim möguleikanum til að ljúka námi?
    Einu sinni var höfð sú regla þegar menn áttu að helga sér land --- og er ágætt leikrit til um --- að þeir áttu að labba umhverfis það en ef þeir náðu ekki að loka hringnum fengu þeir ekkert land. Mér sýnist að hæstv. menntmrh. hafi fallið í þá gryfju að ganga þannig frá þessum málum að það sé óhjákvæmilegt í framtíðinni að gera ráð fyrir því að þær breytingar, sem hér er verið að leggja til á því að meðhöndla alla eins og nema í fyrsta skipti, þýði sjálfsvíg --- hve margra veit ég ekki frekar en við reiknum ekki út slysatíðni af öryggi við eitt og annað.
    Hæstv. menntmrh. hefur ekki viljað láta sveigja sig af þeirri braut sem þarna var mörkuð. Kannski er hann ekki í þeirri stöðu að hann geti það. Kannski er honum einnig haldið í herkví óttans með hótun um hrókeringar, þ.e. það mun standa til að raða auðum ráðherrastólunum upp á nýtt og láta svo labba hringinn í kringum stólana tveimur fleiri en fá sæti. Þegar kemur að því að bjallan glymur, þá ryðjast þeir í stólana sem geta en tveir verða eftir og það er ekki vitað hvort núverandi ráðherrar gætu þess vegna lent fyrir utan. E.t.v. er þessi hótun um hrókeringarnar hluti af því að núv. ráðherra metur stöðuna svo að það sé eins skynsamlegt að hlýða verktakanum sem hefur gefið fyrirmælin um hvernig eigi að standa að þessum málum.
    Formaður þingflokks Alþfl., hv. 17. þm. Reykv., kom inn í þingið með vissum stæl og það duldist engum að það rann mengað blóð í hans æðum. Það var svolítið af uppreisnarblóði blandað saman við menntamanninn. Satt best að segja trúðum við því að þegar frá honum heyrðust yfirlýsingar á haustdögum um að ekki yrði allt að regni sem rökkvaði í lofti í þessum efnum, þá trúðum við því að fyrrverandi foringi æskumanna hefði áhuga á því að verja þeirra stöðu þótt hann hefði komist á annan stað í þjóðfélagsstiganum. En hvað gerist? Svo er eins og þessi söngfugl lækki róminn stöðugt. Það er að vísu vorhret fyrir utan gluggann núna en þó ekki svo alvarlegt að það mætti ekki heyrast einstaka tíst. En það heyrist bara ekki eitt einasta tíst lengur varðandi þessi mál. Í staðinn er komin upp ný staða. Það hefur nefnilega gerst að Alþfl. hefur orðið það á að kjósa til starfa í ákveðnu ráði miklu hugrakkari konu en gert er ráð fyrir að taki sæti á varamannabekk. Og uppreisnarforinginn sem talaði á þann veg í haust að hann vildi hafa áhrif virðist núna vera kominn í þá aðstöðu að annaðhvort verði hann að snúast gegn kvenmanni þessum, koma henni fyrir kattarnef svo völd hennar verði ekki þau sem þau eru í dag, eða hann óttast um sæti sitt sem formaður þingflokks Alþfl. Þeir eru margir sem virðast starfa í skjóli óttans þessa dagana. En það verð ég að segja að meðan jafnaðarmenn á Íslandi eiga þó tvo kvenskörunga sem segja og framkvæma stundum allt annað en forustusveitin leggur til, þá er þó vissulega enn von í þeim flokki. En aðförin er líka svo hörð að hæstv. utanrrh. ætlar að leggja frá sér starfið, hætta utanferðunum og vera heima til að verjast uppreisn í flokknum það sem eftir er af kjörtímabilinu.
    Það er svo að stundum mega menn bíða nokkuð lengi eftir uppskeru. Sá sem sáir getur ekki farið að skera upp strax, hann verður að bíða eftir uppskerunni, stundum til hausts, stundum lengri tíma. Það er eins með tímabil í ævi manna að þeir skila ekki arði samkvæmt útreikningum hagspekinnar.
    Skólastjóri sem stýrði Bændaskólanum á Hvanneyri með hvað mestum skörungsskap þeirra sem þar hafa verið, Halldór Vilhjálmsson, brýndi það mjög fyrir nemendum sínum að fóðra vel geldu kúna. Það væri grundvallaratriði ef þeir ætluðust til þess að hún mundi mjólka. Það verður að segjast eins og er að áhrifin frá þessum boðskap hafa verið nokkuð mikil í samfélaginu. Á þeim tímapunkti þegar Ísland var búið að ná því að vera komið í fjórða sæti með þjóðartekjur á mann upp úr 1980 var samþykkt frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem vissulega ætlaði þeim það hlutskipti að þeir gætu búið sig vel undir lífið. Þegar núv. ríkisstjórn tók við voru Íslendingar í 6.--7. sæti með þjóðartekjur á mann. Við höfum sennilega eitthvað lækkað. Það er svakalegt ástand í ár, segja þeir, svakalegt ástand. Það var sami tónninn sem glumdi árið 1991 en samt er það svo að hlutfallslegur fjöldi æskumanna miðað við heildarfjölda þjóðarinnar er alltaf að lækka. Það eru færri og færri barnsfæðingar á hverjar þúsund konur og maður hefði kannski haldið að undir þeim kringumstæðum gætum við staðið af fullri reisn að þessum málum.
    Við höfum vissulega gert fleira upp úr 1980. Við höfum verið að bæta kjör aldraðra þjóðfélaginu. Þar höfum við gert nokkuð stóra hluti. Ég held aftur á móti að í dag spyrji menn: Hvert stefnir þessi ríkisstjórn sem ekki trúir því að það sé vit í því að senda menn til mennta nema þeir eigi nóg af peningum sjálfir? Hvert stefnir sú ríkisstjórn sem boðar þær aðgerðir í heilbrigðismálum sem hefur orðið undrunar- og hneykslunarefni meiri hluta þjóðarinnar?
    Mér hefur stundum verið hugsað til þess að það er misjafnt hve lagnir menn eru að hagnýta sér það þegar þeir á yfirborðinu verða fyrir óhappi. Það verður að segjast eins og er að það var hrein snilld hvernig Hvamm-Sturla hagnýtti sér það þegar Þorbjörg í Reykholti lagði til hans hnífi og særði hann í kinnina. Hann strauk höndina um kinnina og dreifði blóðinu þannig að þeir sem sátu næstir trúðu því að þarna hefði orðið stórkostlegt slys. Hæstv. menntmrh. varð fyrir því áfalli að hent var í hann eggjum eins og allir vita. Þegar fjölmiðlar voru búnir að koma því á framfæri stóð maður eiginlega í þeirri meiningu að hann hefði eiginlega staðið í eggjaþvögunni miðri og höfuðið eitt staðið upp úr, svo stórt var málið orðið. Ég var satt best að segja hissa þegar gamall Keflavíkurgöngumaður sagði við mig að það hefði alltaf verið hætta á ferðum þegar þessar Keflavíkurgöngur voru að fara fram hjá Garðabæ. Þar áttu menn alltaf von á eggjakasti. Merkilegt er það hvað menningin getur verið lífseig. Hvort þetta tengist því að það hefur eitthvað slaknað á þessum göngum og menn hafi ekki fengið útrás fyrir þessa árásarhvöt af þeirri ástæðu að vopnin snerust, menn sneru sér því að menntmrh., það veit ég ekki. En vissulega var þetta vel hagnýtt. Það var brýnt og barið á því að kennarar landsins stæðu sig ekki. Þar væri innrætingin ekki í lagi. Afleiðingin væri þessi. Það er nú svo. Auðvitað er það alvarlegt mál að veita námslán til að auka dvöl manna í skólum ef árangurinn er ekki meiri en svo að það megi búast við svona ófögnuði.
    Nú er það svo að ég gæti að sjálfsögðu tekið mig til og lesið hér upp eitt og annað varðandi þessi fræði fram og til baka. Það er búið að moka í okkur gögnum. Hins vegar er mér það ágætlega ljóst að menn eru svo rökheldir í þessum efnum að það væri alveg sama hvað sagt væri. Það mundi engu breyta með afstöðu stjórnarsinna í þessu máli. Þeir hafa tekið þá ákvörðun, þessu skal verða breytt á þennan veg. En spurningin er þessi: Ef þeim er alvara með að draga úr sjálfsvígunum hljóta þeir að verða að skoða það umhverfi í heild sem æskufólk býr við og spyrja sjálfa sig hvers vegna það gerist undir stjórnartíð hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, að enn skuli það vera staðreynd að sjálfsvígin séu svo alvarlegt vandamál að við erum hvað þetta snertir þriðju hæstu í heimi og það séu karlmenn 15--24 ára sem séu í hæsta áhættuflokknum. Það dugar ekki sem rök á mig að kvenfólkið sé orðið svo harðbrjósta að þeir búi allir við slíka ástarsorg að þess vegna hafi þeir ákveðið að yfirgefa þennan heim. Það hlýtur að vera heildarmyndin af því sem blasir við sem kemur þeim út í þetta vonleysisástand. Þess vegna verð ég að segja eins og er að þó að hér sé verið að ráðskast með þessa hluti fram og til baka og tala um vexti, sem vissulega koma þó ekki til framkvæmda fyrr en löngu seinna, þá hlýtur stærsta málið að vera: Erum við búnir að útbúa þá veröld öryggisleysis að menn gefist upp?
    Það er kannski rétt að hugleiða að í heimsstyrjöldinni síðari voru fleiri sem fóru í skotgröfunum á taugum en hinir sem urðu fyrir skotum. Við höldum áfram að magna spennuna í samfélaginu. Hér er það á hreinu. Það er ekki nóg að þú fáir fallið. Það er líka búið að skrúfa fyrir það að þú hafir peninga til að

rétta þig af aftur. Þetta þýðir að menn þurfa reglulega að mæta til viðtals í bankanum og kanna hvort þeir fái lán. Nú er ekki aðeins boðið upp á alla viðskiptabankana og sparisjóðina. Nú er boðið upp á Seðlabankann líka því að það á að sækja um styrki í Vísindasjóð og hann er eins og allir vita staðsettur í Seðlabankanum.
    Ég verð að segja eins og er að það tiltæki minnir mig þó nokkuð á sögu sem mér var sögð í gamla daga. Strákur fór til bankastjóra og vildi fá hann til að lána sér peninga. Bankastjórinn var tregur, neitaði ekki alveg en sagði svo við strák: ,,Ef þú getur sagt mér hvorum megin ég hef glerauga, þá skal ég lána þér.`` Og strákur virti hann fyrir sér um stund og sagði svo að það væri hægra megin. ,,Hvernig sérðu það?`` spurði bankastjórinn undrandi. Svarið var rétt. ,,Jú, mér sýndist votta fyrir samúð þeim megin.`` Ég held að uppskeran verði kannski sú með Vísindasjóðinn að menn átti sig á því þegar frá líður að þar er ekki verið að leggja til neitt raunhæft í bili. Það er verið að skjóta út í myrkrið. Auðvitað er hægt að endurskipuleggja alla sjóði, setja yfir þá nýja stjórn, skapa þeim möguleika, en í dag blasir ekkert við sem segir að þetta sé vitræn niðurstaða.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar þegar ég horfi á þetta að það alvarlegasta sem hér er lagt til sé tvímælalaust það að auka taugaspennuna hjá námsmönnum eins og verið er að gera með frv. Ég veit ekki hve margir vita það en það hefur gerst að menn hafa verið fluttir beint á Klepp eftir fall í læknisfræði. Sumir hafa náttúrlega orðið ráðherrar þrátt fyrir það en það er annað mál. Ég held nefnilega að þeir stjórnarsinnar sem nú fara offari í þessum efnum og vilja ekki hlusta þurfi að átta sig á því að það er grundvallaratriði, þrátt fyrir allt, eigi námsmaður að geta einbeitt sér að þeim verkefnum sem hann er að glíma við, að hann hafi samfélagslegt öryggi. Ef hann hefur ekki það samfélagslega öryggi að hann sé nokkuð viss um að hann gefi lifað út veturinn, þá er alveg vonlaust að gera ráð fyrir því að hann hafi hugann að fullu við þau verkefni sem hann þarf að hafa hugann við. Mér er ljóst að stjórnarandstaða ræður í sjálfu sér aldrei niðurstöðu svona máls. Það er rökrétt að meiri hlutinn taki þar ákvarðanir. En það er að taka ákvarðanir byggðar á blekkingum að láta Gunnar Birgisson boða þjóðinni að það hafi orðið stórkostlegt slys tengt einhverjum 50 millj. kr. sem menn hafi fengið og séu að endurgreiða. Ef hann er reiðubúinn að beita sér fyrir þeirri lúsarleit í bankakerfinu að það verði athugað hvers vegna þetta gjaldþrotið varð og hvers vegna hitt, hvers vegna þarna tapaðist fé, ef hann er reiðubúinn á jafnréttisgrundvelli að taka þátt í þessari umræðu, þá erum við að tala um aðra hluti. Kannski er það næsta tillagan að við fáum frv. um að bankaleyndin verði afnumin og þessi mál lögð á borðið. Hann hefur ekki hlíft námsmönnum við því að gera grein fyrir því sem þar hefur farið niður.
    Það eru miklu stærri hlutir að gerast í veröldinni í kringum okkur en við í dagsins önn hugleiðum. Bruninn sem varð í Bandaríkjunum út af dómi sem þar var kveðinn upp hefur kostað fleiri mannslíf og hann á eftir að kosta margfalt fleiri mannslíf í Bandaríkjunum. E.t.v. á hann eftir að kosta það að núverandi forseti Bandaríkjanna bíði ósigur í kosningunum. Ég segi ekki að eldarnir hafi verið eins sem léku um Parísarborg þegar námsmannauppreisnin varð þar og París breyttist hér um bil í götuvígi. Þá stjórnuðu sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn þessu landi eins og nú. Hvað gerðu þeirra foringjar þá? Þeir gerðu sér grein fyrir því að þessir eldar mundu brenna hér á landi líka nema þeir kæmu til móts við æskufólkið. Í staðinn fyrir að Íslendingar þyrftu að búa við slíkt ástand sem varð í Evrópu var farið út í ýmsar aðgerðir til að bæta stöðu stúdenta við Háskóla Íslands. Það voru gæfuspor að menn skyldu taka þannig á málum. Ég verð þess vegna að segja það eins og er að ég trúi því ekki að þegar menn standa hér upp frá störfum í vor og fara heim verði þeir sáttir við sjálfa sig fyrir að hafa orðið til þess að auka svo mjög á spennuna í lífi æskufólks að það geti orðið til þess að sjálfsvígum fjölgi, meiri sókn verði í eiturlyf og afleiðingarnar verði á þann veg að við sitjum uppi með verra þjóðfélag en ella. Það er fyrst og fremst ákvæðið um að menn skuli alltaf vera meðhöndlaðir eins og nýnemar sem er hættulegt í þessu sambandi.
    Ég hygg að það hljóti að koma að því að menn spyrji sig alvarlega þeirrar spurningar: Er ekki tímabært að Vesturlönd reyni á einhvern hátt að minnka spennuna í sínum samfélögum? Er það tilfellið að þau þjóðfélög sem hafa komist hjá jafngífurlegri spennu og við byggjum upp séu kannski á ýmsa vegu mun manneskjulegri en það sem við búum við?
    Ég átti þess kost einu sinni að dvelja stuttan tíma í New York. Sú borg er að því leyti merkilegri en allar aðrar borgir að þar úir og grúir af alls konar þjóðarbrotum. Ef maður fer þar um getur maður séð mjög margt í sjónhendingu í menningu hinna ýmsu svæða. Þar er ítalska hverfið, stórhættulegt í orðsins fyllstu merkingu. En þar er líka kínverska hverfið og það var eina hverfið þar sem menn sáu börn að leik og raunverulega eina hverfið þar sem ég skynjaði það að fólkið var í mjög góðu jafnvægi.
    Minni hlutinn hefur gert að tillögu sinni að gera ráð fyrir því að frv. verði aftur vísað til ríkisstjórnarinnar og að menn fari í að vinna það upp á nýtt að nokkru leyti, fari yfir málið á nýjan leik. Við 1. umr. um þetta mál vakti ég athygli á því að ég tel að þeir íslenskir námsmenn sem eiga eftir að starfa hér á landi að loknu námi, greiði íslensku samfélagi sín námslán í reynd til baka með vöxtum og vaxtavöxtum. Þeir gera það í fyrsta lagi með því að greiða höfuðstólinn í gegnum sína endurgreiðslu á námslánunum. Afganginn borga þeir af sínum sköttum. Hinir sem setjast að erlendis munu að sjálfsögðu aldrei greiða íslenskri þjóð vextina af námsláninu. Önnur þjóð nýtur þeirra starfskrafta og önnur þjóð nýtur þeirra skatta þannig að þeir greiða aldrei vextina. Ég er hlynntur því frelsi að menn geti valið á milli og tekið ákvörðun um að búa erlendis. En ég spurði þá og spyr enn: Eiga Íslendingar að greiða útflutningsbætur með

sínum hæfustu einstaklingum? Eiga þeir að greiða útflutningsbætur með þeim á þennan hátt? Ég hallast að því að við eigum ekki að gera það. Ég hallast að því að við eigum að hafa endurgreiðslukerfi á þann veg að þeir aðilar sem ekki koma til með að starfa hér í framtíðinni verði látnir endurgreiða með vöxtum sín lán. Mér finnst ekki eðlilegt að velferðarríkið Svíþjóð geti leikið sér að því að hafa námsstuðninginn lægri en launin hærri hjá læknunum og náð þannig frá Íslandi vel menntuðum mönnum út á það að þeir greiða þeim hærri laun en buðu þeim ekki jafnmikið þann tíma sem þeir voru við nám, mér finnst það ekki rökrétt. Ég tel að slíkir menn eigi að greiða til baka með fullum vöxtum.
    Aftur á móti er mér ljóst að sumir vilja hafa þetta útflutningsbótakerfi. Mér er aftur á móti annað ljóst og það er að hæstv. menntmrh. þarf strax næsta haust að svara menntastéttum Íslands og hæstv. fjmrh. þarf strax næsta haust að svara menntastéttum Íslands hvað þetta þýði í kaupkröfum hjá starfsmönnum ríkisins. Það liggur ljóst fyrir að þær stéttir sem geta sýnt fram á það að samkvæmt útreikningum eftir opinbera aðila geti þeir aldrei borgað sín námslán til baka munu að sjálfsögðu fara fram á stórkostlegar kauphækkanir. Þeim dettur að sjálfsögðu ekki annað í hug. Eru menn að biðja um þann stríðsdans? Ég held nefnilega að það sé nú svo, þótt Gunnar Birgisson sé mikilhæfur verktaki, að þá sé ekki víst að í amstri daganna hafi hann haft nægan tíma til að hugleiða allar hliðar þessa máls. Ég er ekki viss um að hann hafi haft það og mér er ekki ljóst hvers vegna stjórnarsinnarnir ná ekki þeirri yfirvegun þegar þeir skoða þetta mál að þeir átti sig á því að það verður aldrei hægt að kenna neinum mönnum úti í bæ um það hvað hér er samþykkt. Það verður aldrei hægt að kenna neinum öðrum um það en þeim sem sitja á Alþingi Íslendinga. Það er gersamlega út í hött að ætla að þvo hendur sínar og segja: ,,Hann Gunnar sagði það að svona ætti þetta að vera.`` Það gengur ekki eftir nokkur ár. Það gengur bara ekki upp.
    Og mér finnst það líka dálítið sérstakt, þótt ekki sé meira sagt, að nú eru barðar þær bumbur. Það hefur ekki verið annar eins trumbusláttur frá því að rokkið kom til sögunnar eins og efnahagsbumburnar eru barðar núna með þessa svakalegu efnahagslegu stórsókn, leiftursókn, sem Íslendingar eru að fara inn í, EES-svæðið. Maður sér skriðdrekana fyrir sér og allt riddaraliðið. Það verður sko hagvöxtur hér á landi á næstu árum, 5--10% trúlega. Halda menn að það sé ekki hægt að láta námsmenn njóta góðs af því. Eða trúa menn ekki á ævintýrið? Eru þeir sannfærðir um að þetta sé bara blekking, þessi bumbusláttur sem átt hefur sér stað úti í Brussel, að á vordögum eftir sigurgönguna miklu --- óvíst hvort það hefur verið virðulegra hjá Napoleon en það verður þegar Jón Baldvin, hæstv. utanrrh., kemur heim --- skuli það tilkynnt á sama tíma og hann er með samninginn í hendinni, sem hann segir að sé langmesti efnahagslegur ávinningur, einn af þremur stærstu samningum sem þessi þjóð hafi gert, þá eigi að leiða námsmenn á höggstokkinn? Hver skilur samhengið í þessum vopnaburði ef maðurinn trúir því sem hann er að tala um? Ég held að annaðhvort verði að fresta heimkomu utanrrh. fram yfir þessa aftöku eða þá með einhverjum vitrænum hætti að taka upp nýjan takt í trumbuslættinum þannig að þetta ruglist ekki saman. Það gengur ekki að hafa bæði sigurgöngumars og sorgarstef samtímis, það sér hver einasti maður. Það þýðir ekki að veifa samningi upp á það að nú séum við búnir að gera þriðja besta samning sem íslenska þjóðin hefur gert á eftir fullveldinu og á eftir því að við færðum út landhelgina og segja svo: Drengir mínir, það er slíkt svartnætti fyrir stafni að nú verðum við virkilega að þrengja að námsmönnum. Þetta gengur ekki upp. Og mér er sagt að þrátt fyrir þessa sigurgöngu búist menn við átökum á flokksþingi Alþfl. Ég skil ekki hvernig hægt er að búast við átökum þegar foringi flokksins kemur þreyttur heim frá vígvellinum eftir að hafa vakað daga og nætur og með plaggið undirritað og ætli að fara að tala yfir sínum félögum, þá búist bara fréttamennirnir við að það verði átök. Hvers lags mötun er þetta? Er einhver maðkur í mysunni? ( Gripið fram í: Það er vissara að hafa sálusorgara.) Ja, það er nú það.
    Ég held að svo gæti farið að sumt af því alþýðuflokksfólki finnist nóg á því barið í þessu stjórnarsamstarfi þó að hæstv. menntmrh. sé ekki að skamma það opinberlega líka, að það meti stöðuna svo að það sé þess virði að takast á um stefnu Alþfl. á flokksþinginu. Alþfl. hefur átt marga hugsjónamenn og ekkert skáld betra en Þorstein Erlingsson sem orti skilmálana og kannski væri ráð að lesa skilmálana áður en menn færu á flokksþingið og átta sig á því hverjir þeir voru. En það er líka umhugsunarefni að Sjálfstfl. hefur átt skáld, afburðaskáld, skáldið sem orti um Austurstræti og talaði um hverfult að börn þín skuldir sínar greiði. Alltaf er nú sama vandamálið með æskuna. Og hvernig var með skáldið sem var norðan heiða, Davíð Stefánsson? Ekki var hann betri þegar kom að þessu með skuldirnar. Þegar hann las að afdalaklerkur hafi orðið til þess að nota kirkjuna sem eldivið --- sú kynlega vissa hjá klerki fengin að kúgildin séu til þurrðar gengin, --- kirkja fyrirfinnst engin stóð í úttektarbókinn --- þá yrkir hann drápu til að verja þessar gerðir, verja þessa sóun jarðneskra verðmæta. Og í ofanálag taldi hann að flokkur sinn ætti að vera flokkur mannúðar og mildi.
    Er það ekki svo þegar þetta er skoðað að í öllum flokkum blundi sú hugsun að menn en vilji bæta þetta samfélag? Ég er hræddur um það. Ég veit ekki hvort stjórnarsinnar eru að gera sjálfum sér eða komandi kynslóðum neinn greiða með því að reyna að herða sig upp í þeirri trú að það sé rétt að auka nú svo spennuna hjá námsmönnum, eins og hér er verið að leggja til, að við sitjum uppi með meiri mannlegan harmleik en við höfum áhuga á.
    Það er nú einu sinni svo að við höfum sett peninga í brunavarnir og erum með nokkuð gott kerfi í þeim efnum. En kannski er ástandið það sama og Steinn Steinarr sagði: ,,Þó eldur brenni með ógn og kvöl í einu hjarta við Laugaveginn.`` --- Við látum okkur það litlu skipta. Og það eru engar forsendur fyrir því

að það kerfi sem notað hefur verið að eftir að menn væru einu sinni búnir að sanna það fyrir þjóðinni að þeir væru að stunda ákveðið nám, þá eigi nú að taka upp það kerfi að láta menn ganga undir þessa busavígslu á sex mánaða fresti.
    Það er nú svo með frumkvöðlana sem við könnumst við að þriðji ættliðurinn er ekki alltaf hátt skrifaður og ég er ekki viss um að þeir einstaklingar, sem geta átt í erfiðleikum vegna þess vopnabúnaðar sem hér er lagt til að verði notaður, verði aðeins bundnir við stjórnarandstöðuna. Ég veit að formaður míns þingflokks hefur það fyrir reglu þegar hann ávarpar hæstv. menntmrh. að taka það ávallt fram að þetta sé vænsti drengur, hann hafi ekki kynnst honum öðruvísi en sem vænsta dreng. Og auðvitað vitum við þingmennirnir það að megnið af þeim kynnum hafa verið úti í kóngsins Kaupmannahöfn. En það var einmitt í þeirri borg, kóngsins Kaupmannahöfn, sem eitt sinn var sagt að væri munurinn á Íslending og Dana ef ógæfu bæri að höndum, að annar færi heim í sína fæðingarsveit og gerðist þar drykkjumaður það sem eftir væri ævinnar en hinn kastaði sér í síkið.