Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 18:33:30 (5927)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að nauðsynlegt sé að byrja á að vekja athygli á einu grundvallaratriði í því frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem liggur fyrir og ég er ekki viss um að allir þingmenn hafi áttað sig á. Það er sú staðreynd að haustið 1992 á að leggja niður Lánasjóð ísl. námsmanna. Hann mun ekki veita nein lán haustið 1992. Þeir sem í óbreyttu kerfi hefðu fengið í lán alls 800--900 millj. kr. haustið 1992 fá engin lán fyrr en í janúar eða febrúar á næsta ári. Ég verð að segja alveg eins og er að ég dreg það mjög í efa að þingmenn hafi almennt gert sér grein fyrir því að þetta er í raun og veru svona. Ég er ekki viss um að þingmenn stjórnarflokkanna hafi áttað sig á því að leggja á niður Lánasjóð ísl. námsmanna haustið 1992, að það verði engin lán veitt í haust. Ég hef ekki séð neinar hugmyndir um að á sama tíma eigi að segja í stórum stíl upp starfsmönnum Lánasjóðs ísl. námsmanna, en það verða engin lán veitt. Engin. Ekki króna. Þannig að Lánasjóður ísl. námsmanna leggur niður starfsemi sína hálft ár á árinu 1992.
    Ég vildi gjarnan inna hæstv. forseta eftir því hvort einhverjir af forustumönnum Alþfl. eru í húsinu því ég hefði viljað eiga við þá orð um þessi mál. Þeim kemur þetta við þó þeir hafi verið að gera samþykktir um að þetta sé allt saman hæstv. menntmrh. að kenna og hann hafi af þjóðkunnum skepnuskap sínum ákveðið að hafa þetta svona. En það er einu sinni ákvörðun stjórnarflokkanna beggja og ábyrgð Alþfl. líka að leggja niður Lánasjóð ísl. námsmanna haustið 1992.
    Í raun og veru hefði verið hægt að orða frv. þannig, frv. til laga um breytingu á lögum um námslán og námsstyrki:
    1. grein: Lánasjóður ísl. námsmanna er lagður niður frá og með 1. júní 1992 og tekur til starfa aftur 1. janúar 1993.
    Það er það sem verið er að gera. Sparnaðurinn sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ná fram á þessu ári felst allur í þessu af því að lánin verða eingöngu eftirágreidd. --- Ég vænti þess að forseti hafi numið það mál mitt að ég sakna aldrei þessu vant alþýðuflokksmanna og þætti vænt um ef forseti vildi gera húsleit, senda menn í fjallskil, smölun eftir þeim þannig að hægt sé að tala við þá smástund ef svo ólíklega skyldi fara að hægt væri að kveikja á einhverri skilningsglætu í höfðinu á þeim. Ég er ekki viss um að allir þingmenn stjórnarflokkanna hafi gert sér þetta ljóst.
    Ég fór áðan yfir fjárhag Lánasjóðs ísl. námsmanna á árinu 1992 með framkvæmdastjóra lánasjóðsins, Lárusi Jónssyni. Hann hefur sem kunnugt er tekið við störfum þar, hefur margvíslega verðleika eins og alþjóð veit frá Samtökum rækju- og hörpudiskframleiðenda og allir sjá í hendi sér hversu mikill skyldleiki er með þeim tveimur stofnunum sem hér um ræðir. Auk þess sem maðurinn er einn af fyrrv. þingmönnum Sjálfstfl. Hvort tveggja er snertur af hálfgerðum niðursuðuiðnaði eins og þetta er rekið af núverandi ríkisstjórn. ( Gripið fram í: Það þarf góða reikningskunnáttu til.) Það þarf sæmilega reikningskunnáttu til þess að reka Lánasjóð ísl. námsmanna og líka bankana, eins og nefndur maður þekkir líka.
    Hvernig er fjárhagsstaða Lánasjóðs ísl. námsmanna árið 1992? Hún er þannig að fjárþörf vegna vorlána er talin vera um 2,6 milljarðar kr. Fjárþörf vegna haustlána að óbreyttu kerfi væri 1,3 milljarðar kr., þannig að heildarfjárþörf lánasjóðsins á þessu ári til útlána yrði um 3,9 milljarðar kr. að óbreyttu kerfi. Í afborganir og vexti þarf sjóðurinn að leggja 2,2 milljarða kr. til viðbótar við þessa tölu og rekstrarkostnaður lánasjóðsins er talinn vera um 77 millj. kr. Samtals er talið að sjóðurinn þurfi að óbreyttu 6,1 milljarð kr. á þessu ári. Hann hefur í fjárlögum 5,7 milljarða, sýnist mér. Þannig að miðað við þessar forsendur þá skortir upp á að sjóðurinn hafi til óbreyttrar starfsemi 0,4 milljarða króna eða um 400 millj. kr. Til þess hins vegar að ná þarna saman endum hefur ríkisstjórnin ákveðið að flytja öll þau lán, sem hefði átt að greiða út í haust upp á 1,2 milljarða, eða 1,1 milljarð kr. eða svo, yfir á fyrri hluta ársins 1993. Það er talið að með þessu móti flytjist yfir áramótin 800--900 millj. kr. þannig að ef þessi áform ríkisstjórnarinnar ganga eftir þá er sjóðurinn með afgang í lok ársins, ekki aðeins sem þessu nemur heldur má segja að afgangurinn sé um 400 millj. kr. sem sjóðurinn flytur yfir áramótin til þess að takast á við skuldbindingar sínar á næsta ári.
    Auðvitað er það þannig að frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar og forráðamanna lánasjóðsins er hér um það að ræða að verið er að færa fjármuni yfir áramót sem koma svo á sjóðinn aftur eftir áramótin. En það kemur ekki eins út fyrir námsmennina. Íslenskir námsmenn fá engin lán í haust. Það er tillaga Alþfl. --- Jafnaðarmannaflokks Íslands, að leggja niður lánakerfi íslenskra námsmanna haustið 1992. Það er tillaga Alþfl. Það er von að það þurfi að kalla saman sérstakt flokksþing til að ræða um velferðarkerfið og það má auðvitað segja að þessi tillaga sé í góðum samhljóm við málflutning formanns Alþfl. um Lánasjóð ísl. námsmanna á undanförnum árum, en hann hefur verið einna harðastur allra í því að gagnrýna Lánasjóð ísl. námsmanna á undanförnum árum.
    Auðvitað fara einhver lán út í haust, aðallega þó eftirágreidd sumarlán, samkvæmt þessu kerfi. En niðurstaðan er sem sagt sú að Lánasjóður ísl. námsmanna verður lagður niður í haust. Ég vildi gjarnan spyrja þá hv. þm. Alþfl. sem eru í salnum núna og ég ætla ekki að fara að skattyrðast við á einn eða annan hátt, þeir eiga það á engan hátt skilið miðað við þá aðstöðu sem þeir eru í sem varaþingmenn, þá vil ég biðja þá um að kanna hvort það hefur verið samþykkt í þingflokki Alþfl. að leggja niður Lánasjóð ísl. námsmanna í haust. Og við 3. umr. málsins eða framhald 2. umr., hvenær sem það nú verður, mun ég inna formann þingflokks Alþfl. alveg sérstaklega eftir því hvort hann hafi samþykkt það og flokkur hans að

leggja Lánasjóð ísl. námsmanna niður í haust af því það verða engin lán veitt í haust. Það eru engin lán veitt í haust af því að öll lán eiga framvegis að verða eftirágreidd. Ég tel að í rauninni sé þessi þáttur málsins langljótasti þáttur frv. eins og það stendur nú.
    Hæstv. menntmrh. hefur verið að hóta námsmönnum því að ef þetta frv. verður ekki afgreitt þá verði hann að skera niður lánin í haust um 30% og hann sér það væntanlega þannig fyrir sér að þörfin sé 1.200 millj. og hann hafi 800 millj. og hann þurfi þá að skera niður lánin í haust sem því nemur. En það þýðir út af fyrir sig ekki að hann þyrfti að óbreyttu kerfi að skera þá lánin niður um 30% á árinu 1993.
    Ég held það sé nauðsynlegt að talsmenn stjórnarflokkanna svari þeirri spurningu alveg skýrt og skorinort hvort þeir geri sér grein fyrir því að það er verið að leggja lánasjóðinn niður í haust. Ég mun koma aðeins nánar að þessum málum líka síðar í ræðu minni, virðulegi forseti.
    Í tengslum við umræðuna um Lánasjóð ísl. námsmanna núna að undanförnu má segja að ríkisstjórnin hafi haft í frammi alveg eindæma ósvífni í því að rægja, ég segi rægja, námsmenn. Þar hafa talsmenn ríkisstjórnarinnar gengið svo langt að með ólíkindum er. Því er haldið fram að námsmenn séu að svindla sér út lánum í stórum stíl, þeir vantelji tekjur sínar um 600--700 millj. kr., fái út á það aukin lán upp á 300--400 millj. kr. og síðasta tilraunin í þessum efnum kom í hádegisfréttum í dag. Þar sagði formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna að einhver hluti af námsmönnum væri að spila á kerfið, eins og hann sagði orðrétt, og síðan, með leyfi forseta: ,,Þ.e. að verða sér úti um vaxtalausa peninga í einhvern tíma.`` ,,Ert þú þá að tala um misnotkun á kerfinu?`` --- spyr fréttamaður. Og formaður stjórnar lánasjóðsins svarar: ,,Já, ég er að tala um misnotkun á kerfinu.``
    Í þessari frétt kemur það fram að að mati starfsmanna lánasjóðsins vanmeti námsmenn tekjur sínar viljandi, þeir telja þær ekki fram, upp á 640 millj. kr. og fái út á það lán sem nemur 350--400 millj. kr. umfram það sem þeir eiga rétt á. Þannig stendur fréttin. Og í vitund þjóðarinnar sem hlustar er niðurstaðan bersýnilega sú sem til er ætlast. Þetta er svindlaralið, þessir námsmenn. Nota allar mögulegar aðferðir til að ná sér í meiri peninga. Óprúttið svindlaralið. Það er auðvitað kostulegt að fylgjast með umræðunni frá þessari ríkisstjórn og má segja að það sé ástæða til að óska henni til hamingju með að hafa fundið svindlarana í þjóðfélaginu. Það eru námsmenn. Það er þetta fólk sem er að reyna að læra og mennta sig í þjóðfélaginu. Það þarf að skera upp herör gegn þeim og svínbeygja þá, námsmenn, stúdenta. Það er það fólk sem þarf að snúa niður. Þar er ranglætið, hið svívirðilega ranglæti sem ríkisstjórnin berst gegn. Þar er ranglætið sem Alþfl. fann í þjóðfélaginu. Það er ekki núna mikið verið að tala um skattasvindlið sem Alþfl. talaði mikið um þegar hann var í stjórnarandstöðu hér fyrir löngu. Það er ekki verið að tala um stórburgeisana eða kolkrabbann. Nei, það eru námsmenn. Það er liðið sem nú skal fá til tevatnsins og það heldur betur.
    En þetta er ekki eina dæmið um hvernig ríkisstjórnin hefur með skipulegum hætti verið að rægja námsmenn. Annað dæmið er t.d. sá málflutningur formanns menntmn. að einstaka námsmenn séu með lán upp á fleiri milljónir króna, mig minnir að hún hafi nefnt einar 12 millj. kr. þegar það liggur samt fyrir að það er algjör undantekning og aðeins 1% námsmanna, ef ég man rétt, eru með lán sem eru 5 millj. eða meira. En það er endilega hamrað á þessari tölu, að það finnist eitt dæmi eða kannski tvö um einhverja sem eru með 12 millj. kr. Það er jarmað um það í fjölmiðlum daginn út og daginn inn af hálfu þessara manna sem finna ranglætið í fátækum námsmönnum í þessu landi. Svindlaradótið.
    Þessi skipulegi áróður gegn námsmönnum, rógur á hendur námsmönnum, sem Sjálfstfl. stendur fyrir, ósmekklegi áróður, tekur náttúrlega engu tali. En það er hægt að nefna fleiri dæmi um það hvernig Sjálfstfl. hefur beitt sér alveg sérstaklega fyrir því að vega að æru íslenskra námsmanna. Þeir séu mikið í því að vantelja tekjur sínar til að geta náð sér í meiri lán. Þeir séu að harka út lán upp á 12 millj. kr. og blessað fólkið sem situr heima hjá sér og hlustar á fjölmiðlana segir: Ja, 12 millj., það er ekkert annað. Það er munur að vera námsmaður á Íslandi, bara allir með 12 millj. --- Og talið gengur svo út á það, eins og til er ætlast, að þessir menn noti þetta aðallega til að kaupa sér lystikerrur. Enginn hefur þó afhjúpað þennan málflutning eins skemmtilega og Bibba á Brávallagötunni, sem er einn snjallasti Íslendingur sem gengur laus, eins og kunnugt er, sem sagði að námsmenn væru jafnvel að eyða námslánunum sínum til að kaupa mat. Þetta dót sem ætti nú að læra fyrir peningana, ekki vera að eyða þeim í eitthvað að éta.
    Þetta eru ekki einu dæmin um þennan málflutning Sjálfstfl. í sambandi við íslenska námsmenn. Eitt dæmið sem menntmrh. hefur alveg sérstaklega lagt rækt við að tíunda er að það þurfi að taka upp þetta eftirágreiðslukerfi af því að menn fái alltaf of mikið á haustin. Maður gæti ímyndað sér að þarna væri bara lausnin komin á vanda ríkissjóðs og lánasjóðsins um aldur og ævi. En hvernig stendur það mál? Hefur nokkuð verið sagt frá því? Það er sagt frá því af þessum mönnum að þessi lán séu ofgreidd upp á 55 millj. kr. og það er tönnlast á því að mesta skuldin sé kannski 600 þús. kr. hjá einstökum mönnum. Það er tönnlast á því. En það hefur aldrei verið sagt frá því af hálfu ríkisstjórnarinnar að nær öll þessi ofgreiddu lán eru komin í hús aftur um áramót og samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Lánasjóði ísl. námsmanna eru af þessum lánum komin í hús um áramót 85% með útgáfu á svokölluðum E-skuldabréfum og þessi lán eru ekki öll 684 þús. kr. En það er eitt dæmi um það. Eitt. Lægsta skuldin hefur aldrei verið nefnd af ríkisstjórninni í þessu máli, aldrei. Hver er hún? Hún er ekki 680 þús. eða 670 þús. Nei, hún er 5.318 kr. sem þetta rakkaralið hefur verið að svindla sér út úr Lánasjóði ísl. námsmanna. 5.318 kr. Það er nú allt.
     Auðvitað er það þannig að þetta greiðslukerfi er hægt að laga þannig að í sjálfu sér er algjör

óþarfi að búa við þetta eins og það er, það er algjör óþarfi. Eins er það með þessi lán sem menn eru að fá vegna þess að þeir vantelji tekjur sínar. Það er sagt frá því í fréttum að námsmenn fái 350--400 millj. í haustlán umfram það sem þeir höfðu rétt til, en það er ekki sagt frá því að þeir sem fá ofgreidd lán eru skattlagðir í lánum sínum eftir áramótin. Samkvæmt reglum, sem hafa verið settar og ganga út á það að sá sem vantelur tekjur sínar um 100 þús. kr. t.d., skerðir lán sitt um leið um 5.000 kr. af næsta tímabili og sá sem hins vegar oftelur tekjur sínar styrkir að einhverju leyti lánastöðu sína þar á móti. Þannig að það er í gangi tiltekið refsikerfi í Lánasjóði ísl. námsmanna sem réttir þetta allt saman af. En það er ekki sagt frá því. Ekki orð. En það er nákvæmlega tíundað að þarna sé um að ræða mistök og misferli hjá þessum námsmönnum. Þetta er auðvitað málflutningur sem er ekki nokkrum manni bjóðandi í þessu þjóðfélagi. Ekki nokkrum manni bjóðandi.
    Það væri hægt að nefna mörg fleiri dæmi um það hvernig málflutningur ríkisstjórnarinnar hefur verið í þá átt að veikja sem allra mest stöðu námsmanna, berja þá niður þannig að þeir verði eiginlega að taka við hverju sem er. Mörg, mörg fleiri dæmi um það. Ég hef nefnt þrjú dæmi og þau eru öll mjög alvarleg vegna þess að það er verið að vega að æru ungs fólks í þessu landi og segja: Yfirgnæfandi meiri hluti þessa fólks er þannig innrættur að hann stundar svindl á svindl ofan til að framfleyta sér og þetta eru auðvitað kinnhestar sem eru með þeim hætti að ég vona að menn muni þá og ég dreg það reyndar í efa að nokkur stétt hafi orðið fyrir öðrum eins ærumeiðingum af hálfu stjórnvalda eins og námsmenn að undanförnu í þessu máli. En tilgangur ríkisstjórnarinnar er auðvitað augljós. Hann er sá að reyna að skapa jarðveg, skapa stöðu, til að koma þessum ófögnuði í gegn, þessu frv., þessum ófögnuði sem á að fara að afgreiða að manni skilst einhvern tímann á þessu vori undir hótunum menntmrh. um að annars verði námslánin skorin niður um 30%.
    Ég held, virðulegi forseti, að þetta sé málflutningur sem hafi því miður skilað árangri fyrir ríkisstjórnina. Ég held að námsmönnum líði illa undir þessu. Þeim finnist vont að sitja undir svona áróðri. Ég hef orðið var við það sjálfur, ég þekki fjölda námsmanna og veit að þeim líður illa undir ákúrum af þessu tagi.
    Eitt af því, virðulegi forseti, sem menntmrh. hefur gert í þessu máli er það að hóta því að skerða framfærslulánin um 30%. Hann hefur þegar skert þau um 16--17%, hann gerði það í fyrra. En hvað er að gerast í raun og veru að öðru leyti með þessum lagabreytingum? Það er verið að auka raungreiðslur námsmanna um 30% þegar litið er yfir lánstímabilið allt.
    Ég hef undir höndum skjal frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands þar sem birtast niðurstöður útreikninga hennar á afföllum í breyttu og gildandi lánasjóðskerfi sem unnir voru samkvæmt beiðni menntmn. Alþingis 7. apríl 1992. Undirritað af Ingólfi H. Bender. Í því skjali kemur fram að endurgreiðslufall námslána í breyttu og gildandi námslánakerfi er með þeim hætti að ef við skoðum gildandi kerfi á árunum 1992 til 2035, sem menn eru að borga lánið, þá nemur greiðslan 90,9% af láninu á öllum tímanum. Ef við tökum lán með 3% vöxtum eins og gert er ráð fyrir sem möguleika í frv., þá er greiðslan ekki 90,9% heldur 123,5% á tímanum. Með öðrum orðum vextir á vexti ofan og vaxtavextir gera það að verkum að þegar allt lánstímabilið er skoðað þá eru lántakendur þriðjungi verr settir en í gildandi kerfi. Það er verið að tala um að þjóðarbúið verði fyrir áföllum í þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu upp á 3--4%. Það er búið að taka þessa námsmenn niður um 16--17%. En að auki á að herða endurgreiðslur og vexti þannig að það er verið að veikja þeirra stöðu á lánstímanum í heild um u.þ.b. 30% og svo er auðvitað smurt á þetta með því að þetta sé meira og minna ærulítið eða ærulaust lið.
    Þess vegna er það svo að þegar námsmenn skoða hlutina, annars vegar hótanir menntmrh. um 30% skerðingu og hins vegar þetta, þá er það alveg ljóst hvaðan talan er sem komin er frá menntmrh. Hún er ekki bara komin upp úr fjárlögunum, hún er líka þarna. Þetta eru ekki tölur sem eru unnar upp af stjórnarandstöðunni eða námsmönnum. Þetta eru tölur sem eru reiknaðar út að beiðni hv. menntmn. þar sem staða námsmannanna á lánstímanum öllum versnar um um það bil þriðjung.
    Spurningin er hins vegar um það hversu mikið þessar breyttu endurgreiðslureglur styrkja sjóðinn sem slíkan þegar upp er staðið. Þessi þriðjungsbreyting snýr að námsmönnunum sem slíkum og þeim námsmönnum sem geta greitt upp lánin sín. Spurningin er aftur á móti um það hvernig þetta snýr að sjóðnum í heild og það er mál sem ég mun koma að síðar í ræðu minni.
    Einnig liggur fyrir athugun á því hvernig þessi mál koma út fyrir sjóðinn í heild. Hver er þróunin á eiginfjárstöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna á þessum tíma? Það hefur verið reiknað út. Það eru í raun og veru marklausir útreikningar vegna þess að engin ný áætlun liggur fyrir um afföllin sem bersýnilega verða eins og ég mun sýna fram á síðar í þessu tali. Afföllin í nýja kerfinu verða mikið meiri en í gamla kerfinu af því að vextirnir eru komnir á, endurgreiðsluhlutfallið er hærra og höfuðstóllinn mun fara hækkandi hjá þeim sem ekki hafa háar tekjur og eru kannski bara á taxtalaunum. Þegar menn hafa lokið störfum kannski 65, 67 eða 70 ára gamlir, munu þeir eiga svo mikið eftir af láninu að það er augljóst að afföllin í þessu nýja kerfi verða síst minni frá sjónarmiði sjóðsins en í gamla kerfinu. Ég tel reyndar að það sé þveröfugt. Og það er nokkuð athyglisvert að þrátt fyrir umræður um málið mánuðum saman hafa ekki fengist neinar áætlanir um hugsanleg afföll og að mínu mati er ekki hægt að afgreiða málið öðruvísi en einhver áætlun um afföll liggi fyrir. Hún liggur ekki fyrir enn þá. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvort hann hyggst bjóða þinginu upp á að afgreiða frv. frá Alþingi án þess að nýtt mat á hugsanlegum afföllum liggi fyrir.
    Hins vegar hafa verið settir upp útreikningar um þróun eiginfjárstöðu sjóðsins og ég mun fara yfir hana. Ég hafði hins vegar hugsað mér að spyrja hæstv. forseta næst hvað hæstv. forseti hefur hugsað sér um fundahöld, hvort ætlunin sé að taka matarhlé á þessum fundi. ( Forseti: Forseti hafði hugsað sér að gera hlé frá kl. 7 til kl. 8.30 í kvöld og ef hv. þm. er langt kominn með sína ræðu getur forseti alveg sýnt ofurlitla biðlund en að öðrum kosti mundi hv. þm. e.t.v. vilja fresta ræðu sinni til kl. 8.30 í kvöld.) Já, ég þakka hæstv. forseta fyrir þessar mikilvægu upplýsingar en þannig stendur á í ræðu minni að það mundi vera hentugra fyrir mig að halda áfram kl. 8.30 í kvöld. Ég hef ekki nærri lokið ræðu minni, virðulegi forseti. Ég á eftir að fara yfir eiginfjárstöðu sjóðsins og þróun hennar, þannig að ég kysi heldur að forseti frestaði máli mínu núna. ( Forseti: Það er alveg sjálfsagt að hv. þm. fresti ræðu sinni þar til í kvöld þegar við hefjum fund að nýju kl. 8.30.) --- [Fundarhlé.]
    Virðulegi forseti. Fyrr í dag fór ég yfir nokkra þætti þessa máls, m.a. að því er varðar þá umræðu sem fram hefur farið um lánasjóðinn af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem því hefur verið dreift ótæpilega að námsmenn misnoti aðstöðu sína til þess að harka sér út meiri lán. Ég hafði einnig rakið það að endurgreiðslufall lána versnar um þriðjung samkvæmt frv. eins og það lítur út ef vextir verða teknir upp á 3% eins og heimilt er samkvæmt því þó nú um sinn hafi verið tekin ákvörðun um 1% vexti.
    Ég hafði einnig vikið lauslega að eiginfjárhlutfalli sjóðsins og hvernig það breytist. Það sem mér finnst athyglisverðast í þeim efnum er tafla sem birtist í skjali frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, dags. 6. apríl 1992, þar sem fram kemur að ef miðað er við að 45% fjárþarfar sjóðsins verði mætt með ríkisframlagi en 55% með lántöku þróist eigið fé sjóðsins með þeim hætti að eftir mörg ár eða árið 2036 verði um að ræða 60 milljarða fjárbindingu í sjóðnum að óbreyttu kerfi en 53 milljarða að breyttu kerfi með 3% vöxtum. Þannig að frá þeim bæjardyrum séð, þó svo að hlutirnir snúi eins gagnvart einstökum námsmönnum og ég hafði rætt um fyrr, er í raun og veru ekki eins mikil breyting á eiginfjárstöðu sjóðsins og menn hefðu getað ætlað þó svo að það vanti inn í þessa mynd, sem er auðvitað aðalatriðið engu að síður, að ekki hefur verið reiknað út enn þá hversu mikil afföll verði í hinu nýja kerfi. Eins og ég benti á við 1. umr. málsins, og einnig á almennum fundi í Háskólabíói fyrir nokkrum mánuðum, var auðvitað alveg ljóst að sjóðurinn mundi ekki fá nærri eins mikið út úr hinu nýja kerfi og hinu gamla ef miðað var við 3% vexti. Einnig er ljóst að verði vextirnir 1% eins og nú er verið að tala um, er þó nokkur fjöldi fólks sem ekki mun ná að greiða lánin upp af venjulegum launum eins og ég mun víkja að á eftir.
    Virðulegi forseti. Þegar heildardæmið um sjóðinn er skoðað og tillit er tekið til 1% vaxtaálags eins og nú hefur verið ákveðið um sinn, 1,2% lántökugjalds, að endurgreiðslur hefjist tveimur árum eftir námslok og föst ársgreiðsa verði 48 þús. o.s.frv. er fróðlegt að velta því fyrir sér hvað breytist með þessu frá því sem hefði orðið að óbreyttu á þessum tíma. Það er mjög athyglisvert, virðulegi forseti, að sú heildarlækkun á ríkisframlagi sem næst með þessum breytingum, t.d. á árinu 1993 eða 1994, er 70--80 millj. kr. hvort ár. Staðreyndin er sú að ríkisframlagið sem að óbreyttu mundi þróast t.d. fram til ársins 2024 upp í 4,6 milljarða lækkar samkvæmt hugmyndum frv. til ársins 2024 um 2,3 milljarða. Lækkunin er sem sagt 2,3 milljarðar, úr 4,6 í 2,3. En hvert er framlagið sem reiknað er með núna í upphafi? 2,3. Þannig að það ríkisframlag sem menn eru að tala um í þessu dæmi fer ekki að breytast í raun fyrr en eftir árið 2024 og þá verðum við báðir hættir á Alþingi, ég og hv. 4. þm. Reykv., sem er eins og fyrr sérstakur fulltrúi Sjálfstfl. í salnum að þessu sinni ásamt hæstv. menntmrh. Hv. 4. þm. Reykv. rækir þingskyldur sínar betur en allir aðrir þingmenn Sjálfstfl. Þó að við munum sitja hér báðir afar lengi, er hætt við því að það verði lítið eftir af okkur sem alþingismönnum árið 2024, hvað sem öðru líður.
    Árið 2024 fer hið raunverulega ríkisframlag fyrst að lækka. Segi menn svo að ríkisstjórnin sé ekki framsýn. Og eins og menn vita eru aðalrökin fyrir breytingunum t.d. þau samkvæmt framsöguræðu hv. formanns menntmn. að sjóðurinn hafi svo veika stöðu og að ekki sé vilji til þess að auka framlög til sjóðsins eins og nauðsynlegt er. Það er mikið til í því hjá hv. formanni menntmn. að viljinn til þess að auka framlög til sjóðsins hefur oft verið furðulega lítill á Alþingi.
    Engu að síður er það svo að sú röksemd um að verið sé að draga úr framlagaþörf til sjóðsins stenst ekki af því að framlögin munu halda áfram að aukast um skeið og lækka mjög lítið á næstu árum. Þannig að þegar kosið verður næst, sem verður í síðasta lagi 1995, getur orðið fyrr, er lækkunin 106 millj. á árinu 1995 af 6 milljarða pakka. Hér er auðvitað um upphæð að ræða sem er innan skekkjumarka og þegar þessir hlutir eru skoðaðir kemur í ljós að ekki einasta er þetta kerfi sem verið er að gera tillögur um algerlega út í hött gagnvart námsmönnunum sjálfum, heldur gengur það heldur ekki upp að því er sjóðinn sjálfan varðar, því samkvæmt útreikningunum með frv. er það fyrst árið 2024 sem ríkissjóður getur gert ráð fyrir að hann geti farið að lækka framlögin frá því sem þau eru núna.
    Ef litið er yfir allt tímabilið til ársins 2036 er talið að ríkisframlög þyrftu að vera um 190 milljarðar kr. að óbreyttu. Samkvæmt frv. er lækkunin á ríkisframlaginu talin verða um 70 milljarðar kr. og það er breyting úr 190 í um það bil 120 milljarða kr. Að því er ríkisframlagið varðar stendur þetta svona og það er fyrst árið 2024 sem þessir hlutir fara að rétta sig af.
    Gagnvart námsmönnum gengur þetta kerfi engan veginn upp eins og ég hef rakið áður. Gagnvart sjóðnum sem slíkum er það í raun og veru rammgötótt að auki þó svo að ekki liggi fyrir neinar áætlanir um afföll sem yrðu í hinu nýja kerfi.

    Okkur er tjáð að hæstv. ríkisstjórn hafi hugsað sér að ná endum saman með jöfnuði í ríkisbúskapnum á árinu 1993. Augljóst er að ef menn ætla að gera það munu þeir líka hjóla í Lánasjóð ísl. námsmanna aftur á næsta ári með ríkisframlagið, sem þýðir þá að staða sjóðsins er enn verri sem því nemur. Ég óttast þannig að menn séu ekki að segja alla söguna.
    Ef við skoðum hvernig fólki gengur að borga af lánunum af taxtalaunum kemur í ljós að í ýmsum tilvikum mun fólk ekki ráða við það. Það munu verða verulegar eftirstöðvar þó að menn séu búnir að borga í áratugi. Fyrir framan mig hef ég dæmi af framhaldsskólakennara sem tekur lán upp á 2,5 millj. kr., árslán 648 þús. Framhaldsskólakennarinn er einstætt foreldri með eitt barn meðan hann er í námi. Hvað á hann eftir þegar hann hættir að kenna? Hann á eftir 715 þús. kr. eftir 42 ár. Hvergi nokkurs staðar er reynt að reikna það út hvað þessi afföll í raun og veru þýða í heild fyrir sjóðinn. Ég held ég neyðist til þess að spyrja hæstv. menntmrh. að því, án þess að ég ætlist til að hann svari því í andsvörum heldur mætti það vera með öðrum hætti ef hann vill, hvernig hann hugsi sér að farið verði með afföllin.
    Samkvæmt frv., ef ég man það rétt, er gert ráð fyrir að stjórn sjóðsins geti ákveðið hvernig farið verði með afföllin og hæstv. menntmrh. sagði einhvern tíma í þessari umræðulotu á Alþingi að það kæmi til greina að fella afföllin niður þegar viðkomandi er orðinn 67 ára og kominn á eftirlaun eða eitthvað því um líkt, en við höfum engar skýrar upplýsingar um þetta atriði og það er mjög mikilvægt að fá þetta mál á hreint.
    Ég nefndi áðan framhaldsskólakennara á taxtalaunum. Ég nefni viðskiptafræðing á taxtalaunum líka. Hvað á hann eftir? Hann á að vísu ekki eftir 700 þús. kr. þegar hann hættir störfum í hárri heiðurselli. Hann skuldar 537 þús. kr. þegar hann fer að fá ellilífeyrinn. Enn þá skuggalegra er dæmið um einstætt foreldri með tvö börn. Þar er niðurstaðan sú að framhaldsskólakennari sem tekur 3,5 millj. kr. að láni, á eftir 2 millj. kr. eftir 42 ár eða 67 ára að aldri. Þá er miðað við taxtakaup en það er auðvitað ekki hægt að miða við neitt annað í þessu efni. Og viðskiptafræðingurinn, en viðskiptafræðingar eru nú stundum taldir komast sæmilega af, ef þeir eru á taxta eiga þeir eftir 1,8 millj. kr. þegar þeir eru búnir að ljúka sínum langa vinnudegi 67 ára gamlir. Það hefur að vísu ekki verið reiknað út hvað lögfræðingar ættu eftir sem mundi kannski kveikja alveg í ríkisstjórninni vegna þess að hún á marga fulltrúa í lögfræðistéttinni.
    Þannig mætti nefna fleiri dæmi en ég hélt mig við 1% vextina, ekki 3%, eins og heimilað er. En ég ætla að leyfa mér að nefna dæmi um einhleyping í leiguhúsnæði en það er í raun og veru lægsti flokkurinn ef vextirnir væru 3% eins og heimilt er samkvæmt frv. Hvað ætli þessir vesalingar eigi mikið eftir ef þeir fara að taka lán þarna? Viðskiptafræðingar, hagfræðingar, 3% vextir, á taxtalaunun, fá lán upp á 1,7 millj. alls meðan þeir eru í skóla og þeir borga samviskusamlega á hverju einasta ári afborgun og vexti af kaupinu sínu, 7% á hverju einasta ári og þegar viðskiptafræðingarnir, hagfræðingarnir hætta störfum, og það ætti að vera auðveldara fyrir þá að reikna þetta út heldur en okkur hina, hvað eiga þeir þá eftir? Þeir eiga eftir 917 þús. Það er rúmlega helmingurinn af því sem þeir tóku að láni, 917 þús. kr. vegna þess að vextirnir hafa hlaðið svo miklu upp á þetta. Ef við tökum verkfræðing, þá lýkur hann auðvitað við þetta á taxtalaunum. Ef við tökum framhaldsskólakennara, þá fær hann í lán 1,7 millj. kr. og á eftir 1,2 millj. kr. þegar hann lætur af störfum. Þessi framhaldsskólakennari á eftir 1,2 millj. kr. þegar hann lætur af störfum 67 ára að aldri. Þetta er auðvitað hrein vitleysa, virðulegi forseti. Það er ekki verra að hafa formann fjárln. hér í forsetastóli en hann hlýtur að hafa alveg sérstaklega glöggt auga fyrir þessum ósköpum og ber er hver að baki nema hann hafi þar bróður og formann fjárln. helst í senn. Það liggur auðvitað alveg í augum uppi, virðulegi forseti, að það þýðir ekki að afgreiða þetta frv. nema þessi afföll verði reiknuð út. Þau eru svo hrikalega mikil.
    Ég endurtek það sem ég sagði fyrr í dag að ég er sannfærður um að afföllin eru meiri í þessu kerfi en í hinu gamla kerfi. Það er fróðlegt t.d. að leggja saman töflurnar sem menn hafa í sínum frumvörpum og nefndarálitum. Hvað borga menn í afborganir og hvað borga menn í vexti og hvað er eftir? Mín niðurstaða er sú eftir að hafa rennt fingri yfir nokkrar síður, að í raun og veru klári menn nokkuð vel að jaga niður höfuðstólinn. En í flestum tilvikum verði það þannig ef menn eru með venjuleg taxtalaun, þá séu allir vextirnir eftir. Þetta er kannski engin speki en það hlýtur að vera fréttnæmt fyrir ríkisstjórnina. Vextirnir eru eftir þannig að í rauninni er það fráleitt út frá menntapólitísku sjónarmiði séð að leggja vextina á en maður á kannski ekki að gera kröfu um að ríkisstjórnin skilji það. En það er líka fráleitt frá því sjónarmiði að í raun og veru stenst þetta ekki út frá hagsmunum Lánasjóðs ísl. námsmanna.
    Ég hef líka skoðað dæmi um 2% vexti, 3% rakti ég og 1% hef ég rakið og niðurstaðan er alveg skýr í þessum efnum, herra forseti, þetta gengur ekki. Þess vegna á auðvitað ríkisstjórnin að hætta við þessa vexti því að þeir munu aldrei skila sér.
    Í athugunum á þessu máli að undanförnu hefur verið farið nokkuð rækilega yfir fjárbindinguna í sjóðnum í breyttu og gildandi lánasjóðskerfi og ég hef aðeins nefnt það hér áður. Og það er kannski rétt að nefna hér í ræðustólnum nafn þess manns sem hefur reiknað mest af þessu út og heitir Ingólfur Bender og ég sé ekki betur en sé ágætur maður í að vinna þau verk sem hann er beðinn um að vinna og það eru afar fróðlegar upplýsingar um þessa hluti í þeim gögnum sem frá honum hafa komið.
    Fyrr í dag ræddi ég sérstaklega dálítið um 6. gr. frv. og sagði að ég drægi það í efa að þingmenn hefðu yfirleitt gert sér grein fyrir því að verið er að leggja Lánasjóð ísl. námsmanna niður haustið 1992 en það er verið að því. Menn fá engin lán haustið 1992, það er verið að loka sjoppunni. Þetta hefur verið borið undir fjölmarga aðila og ég hef undir höndum umsagnir fjölda aðila um þetta mál sérstaklega og þær eru mjög fróðlegar og þetta er kannski ljótasti þáttur frv. eins og það er núna. Og ég verð að segja alveg eins og er að ég leyfi mér að nefna þetta sem úrslitaatriði og segja: Ég tel það langversta atriðið í frv. eins og það stendur núna, þessa tilraun til að fella niður öll lán nema eftir á. Ríkisstjórnin hefur borið ýmsu við í þessu efni sem ég hef rakið áður, en ég tel að það séu ekki gildar viðbárur. Það er auðvitað þannig að krakkar, háskólastúdentar t.d., sem hafa verið í námi og hafa verið á gamla kerfinu og eru að fá lán núna til vorsins, fá engin lán í haust. Þeir sem eru svo lánssamir að eiga fjölda barna, eins og sumir sem ég þekki, í háskólanámi hljóta að velta þessum hlutum mjög alvarlega fyrir sér og auðvitað sérstaklega þeir sem búa við tiltölulega mjög lágar tekjur þar sem þetta kemur örugglega þannig út að krakkarnir fara ekki í skóla. Ég þekki dæmi um það að það hlýtur að fara þannig að krakkarnir fara ekki í skóla af því að fjölskyldurnar ráða ekki við það.
    Nú er það ekki þannig að við séum að gera þessar breytingar einmitt á þeim tímum þegar staðan í þjóðfélaginu er tiltölulega góð. Það er nú eitthvað annað. Atvinna er lítil, sumarvinna skólafólks verður mjög lítil í sumar og mjög erfitt að fá vinnu fyrir krakkana í sumar. Og þau sem fá vinnu lenda mörg á mjög lágum og lélegum kauptöxtum þannig að þetta kemur á allra harðasta tíma fyrir fjölskyldurnar, fyrir utan þau áhrif sem þetta mun hafa á skólakerfið í heild. Ég reikna þó með því að nemendur, sem eru að byrja háskólanám, eru á 1., 2. eða 3. ári, muni reyna að harka af sér og vera þarna áfram og ljúka tilteknum áfanga. En ég þekki sjálfur þegar dæmi um krakka sem eru að ljúka BA- eða BS-prófi í vor sem munu ekki halda viðstöðulaust áfram af því að það er verið að breyta kerfinu, krakkar sem mundu ella hafa gert það. Ég þekki dæmi um það og ég veit að í sumum tilfellum getur það komið mjög illa út þannig að ég er viss um að þetta kemur þar niður fyrst og fremst og í heildina mun þetta auðvitað draga verulega úr eftirspurn eftir námslánum. Það er náttúrlega sá þáttur sem er ekki gerð tilraun til að áætla inn í dæmin sem hér liggja fyrir. Og eins og ég sagði áðan, þegar maður skoðar dæmin sjálfur þá munar breytingin kannski ekki svo mjög miklu þannig að ég er viss um að það er undirliggjandi og ósagður þáttur í málinu af hálfu ríkisstjórnarinnar að eftirspurn eftir lánum mun minnka mjög verulega verði þetta frv. að lögum og verði sú aðferð notuð sem gerð er skv. 6. gr. Ég endurtek að ég tel að það sé í raun og veru eitt allra versta atriðið í frv.
    Fjöldi hagsmunasamtaka og stofnana hefur sent frá sér sérstaka umsögn um þetta frv. Ein af þeim er t.d. Háskóli Íslands og það hefur stundum verið til siðs í menntmrn., ekki nærri alltaf að vísu, að hlusta á Háskóla Íslands. Hvað segir Háskóli Íslands, og þetta er stofnunin Háskóli Íslands og háskólaráð, um þessa breytingu að færa lánin þannig að þau verði öll greidd eftir á. Hvað segir Háskóli Íslands? Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Í gildandi lögum er áskilið að fyrsta námsaðstoð skuli ekki veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Þetta er gert vegna þess að vitað er að á fyrsta námsári ræðst oft og tíðum hvort námsmðaur hefur tök á viðkomandi námi og festist við það. Eftir að námsmaður hefur sýnt að hann hefur náð þessum tökum er á hinn bóginn engin ástæða til annars en veita honum aðstoð undanbragðalaust með svipuðu fyrirkomulagi og fólki sem skilar vinnu sinni eru greidd laun. Ákvæði 1. mgr. 6. gr. í frv. mundi hins vegar leiða til þess að námsmenn almennt fengju námslán ekki greidd fyrir en hálfu til einu ári eftir að vinnan er unnin. Er vart ætlandi annað`` segir Háskóli Íslands, ,,en að þetta sé byggt á einhverjum misskilningi.``
    Með öðrum orðum: Háskóli Íslands er þeirrar skoðunar að um einhvern misskilning hljóti að vera að ræða. Og er að furða þó að mönnunum detti þetta í hug vegna þess að sú aðferð sem hér er verið að tala um, að greiða námslánin eftir á, löngu eftir á, jafngildir því að ákveðið sé að borga öll laun langt eftir á. Hún jafngildir t.d. því að það yrði ákveðið á Alþingi að þingfararkaup fyrir síðari hluta ársins 1992 yrði borgað í febrúar 1993. Hún jafngildir því að ráðherralaunin yrðu ekki borguð fyrr en í febrúar 1993 fyrir síðari helming ársins 1992. Ég er hræddur um að það hvini í einhverjum keilunum ef þetta kerfi yrði tekið upp, ég segi það alveg eins og er. ( Gripið fram í: Það færi eftir frammistöðu.) Það er aftur verra með frammistöðuna, hv. þm., og það er kannski mál sem er flókið að taka upp hér. (Gripið fram í.) Með frammistöðuna? Hvað var hv. þm. Vilhjálmur Egilsson að segja? Hann er boðinn velkominn til þingstarfa. Gaman að sjá hann hér í salnum. --- Hverjum öðrum en námsmönnum yrði boðið upp á svona trakteringar? Fyrst er sagt að þeir séu að harka sér út námslán með alls konar svindli, þeir falsi í raun og veru tekjutölur út og suður. Námslánin eru lækkuð eitt árið um 16--17% og síðan er sagt: Já, en þessi námslán sem eftir eru, elskurnar mínar, fáið þið borguð hálfu ári eftir að þið eruð búin að leggja að baki það nám sem um er að ræða.
    Það finnst víst sumum að ansi dauft sé yfir verkalýðshreyfingunni á Íslandi um þessar mundir og má margt um það segja. Ég held að menn standi sig þar eftir atvikum. En ég segi alveg eins og er, ég er nærri viss um það, þó að ég sé ekki neinn spámaður, að menn mundu láta í sér heyra ef tekið væri af þeim kaupið alveg í hálft ár, útborgunarskrifstofunum lokað. Ég er t.d. alveg viss um að sá ágæti maður, varaformaður Vinnuveitendasambands Íslands, sem jafnframt er formaður stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, mundi ekki láta sér detta það í hug að leggja það til einu sinni í Vinnuveitendasambandinu að borga ekki sínu fólki kaup fyrr en hálfu ári eftir á. En námsmennirnir, það má koma svona fram við þá. Þetta er nákvæmlega hliðstætt. Því að eins og Bibba á Brávallagötunni hefur sagt: Þessir menn kaupa nefnilega mat.

Þó að sumum finnist það kannski ósvífni, þá kaupa þeir mat fyrir námslánin. Þeir þurfa að éta til þess að geta lært.
    Ég veit ekki hvernig það er t.d. með Verslunarráð Íslands, hvort það hefur gert sérstaka samþykkt um að það væri allt í lagi að hætta að borga laun í hálft ár. Ég veit það t.d. þegar ég lít um salinn að þeir sem þekkja til í fiskeldinu voru að kvarta yfir því um skeið að verið væri að drepa stofnana þar með því að gefa þessum kvikindum of lítið að éta. En námsmennirnir, það er hálft ár. Slagbrandur fyrir útborgunardyrunum og tóm launaumslög. Þetta er hægt að bjóða fólki sennilega bara af því að þetta eru námsmenn og af því að það er búið að ófrægja hlut og málstað námsmanna svo mikið með því að þeir séu að harka sér út lán sem þeir eiga ekkert í, enda segir Háskóli Íslands af fræðilegri hógværð: ,,Er varla ætlandi annað en að þetta sé byggt á einhverjum misskilningi.`` En þetta var ekki misskilningur.
    Ég veit í sjálfu sér ekki, virðulegi forseti, hvaða leið er best að þeim mönnum sem fyrir þessum málum tala. Ég veit í sjálfu sér ekki hvaða leið er best að þeim mönnum sem bera ábyrgð á þessum málum. En ég vil beina því til þeirra í allri vinsemd að þeir skoði þetta mál aðeins betur því að ég held að menn hafi ekki hugsað þennan þátt málsins til enda. --- Nú er það auðvitað eins og venjulega þannig að stjórnarþingmenn láta ekki sjá sig hér í salnum nema einn og einn snillingur sem hér er og það er ástæða til að þakka þeim alveg sérstaklega fyrir. (Gripið fram í.) Stjórnarþingmenn? Þeim sem eru inni því að það er fljótlegra að telja þá upp. Síðan koma hinir hér inn einhvern tíma með atkvæðagreiðsluvélarnar sínar. Nú þarf ekki einu sinni lengur að lyfta upp hægri hendinni eins og var í gömlu þingsköpunum. Nú er nóg að fara með puttann á takkann. Nú demba þeir sér með puttann á takkann og greiða atkvæði með þessari ósvinnu eins og atkvæðagreiðsluvélar.
    Ég er t.d. ekki alveg viss um að allir þingmenn hafi gert sér grein fyrir því að það á að loka lánasjóðnum í haust. Það verður gert. Það verða engin lán borguð út í haust. Ég er t.d. ekki viss um að allir þingmenn Alþfl. hafi gert sér grein fyrir því --- ég fagna komu hæstv. varaforseta þingsins í salinn --- að það er þannig að samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að námslán verði greidd eftir á sem þýðir að engin námslán verða greidd í haust, 1992. Dyrum Lánasjóðs ísl. námsmanna verður lokað. Ég er að endurtaka þetta í tilefni af því að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er genginn í salinn vegna þess að ég ímynda mér að hann gæti hugsað sér að staldra við þegar hann áttar sig á þessu, ekki síst þar sem hann fékk sérstakt bréf í gær frá 8.000 einstaklingum með áskorunum um að breyta frv. frá því sem það er nú.
    Þetta frv. var lagt fram fyrir nokkru og hefur breyst aðeins síðan en þetta atriði með að borga lánin eftir á er alveg afleitt í alvöru talað. 8.000 einstaklingar skrifuðu undir áskorun til alþingismanna. Þessir alþingismenn fengu þetta bréf: Hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hv. þm. Árni R. Árnason, hv. þm. Árni Johnsen, hv. þm. Eggert Haukdal, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hv. þm. Ingi Björn Albertsson, hv. þm. Matthías Bjarnason, hæstv. menntmrh. og hæstv. félmrh. Námsmenn sneru sér sérstaklega að hæstv. félmrh. og fjölmiðlar fóru á fund félmrh. með námsmönnum vegna þess að þeir töldu líklegast að þar væri fréttir að hafa, en eins og kunnugt er vill félmrh. verja velferðarkerfið, og hæstv. félmrh. sagði við fjölmiðla: Já, þetta mál hefur lagast og það er í meðferð og verður athugað betur. Ekki var nokkur leið að skilja ummæli hennar öðruvísi en svo að hún hugsaði sér að beita sér fyrir lagfæringum á málinu.
    Ég hef dálítið verið að tala við Alþfl. í ræðu minni í dag og í kvöld og tveir blessaðir og góðir snillingar, varaþingmenn Alþfl. hafa verið hér og fylgst með þessum umræðum af stökustu samviskusemi og þeim hefur örugglega oft fundist þreytandi hvað ég hef talað illa um flokkinn þeirra. ( Gripið fram í: Þeir eru vanir því.) Þeir eru ekki vanir því, það er misskilningur hjá hv. þm. Hins vegar hefur hæstv. félmrh. ekki verið hérna til þess að hægt væri að ræða við hana um þessi mál, en það bréf sem hv. þm. fengu í gær hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Námsmenn skora á alþingismenn að taka til endurskoðunar það frv. sem nú liggur fyrir um Lánasjóð ísl. námsmanna. Þrátt fyrir að búið sé að gera á frv. breytingar þá er enn að finna í því ákvæði sem ekki er hægt að sætta sig við. Það mun vera stefna allra þeirra flokka sem nú eiga fulltrúa á Alþingi að á Íslandi sé jafnrétti til náms. Lánasjóður ísl. námsmanna er hornsteinn þeirrar stefnu. Þess vegna hljóta alþingismenn að standa vörð um sjóðinn sem félagslegt jöfnunartæki en skoða hann ekki sem peningastofnun sem verður að skila hagnaði. Námsmenn minna á að hin sanna arðsemi menntunar sést ekki í ársreikningum Lánasjóðs ísl. námsmanna heldur skilar sér beint út í þjóðfélagið því til eflingar. Námsmenn vilja benda hv. alþingismönnum á eftirtalin ákvæði sem er að finna í frv.:
    1. Settir verði allt að 3% raunvextir á námslán. Með því að samþykkja þetta frv. eru þingmenn að samþykkja það að settir verði 3% raunvextir á námslán. Þó svo að sú ríkisstjórn sem nú situr hafi ákveðið að fyrst um sinn verði vextirnir 1% þá breytir það því ekki að í frv. er heimild fyrir allt að 3% vöxtum. Eftir að frv. hefur verið samþykkt ræður hinn almenni þingmaður minnstu um það hvort svo háir vextir verði lagðir á. Slíkt er alfarið ákvörðun ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þetta ættu alþingismenn að hafa í huga þegar gengið verður til atkvæða um frv.
    2. Endurgreiðslur verði 5% fyrstu fimm árin en 7% af heildartekjum eftir það og hefjist tveimur árum eftir að námi lýkur í stað þriggja nú. Það hlutfall sem hér er rætt um er of hátt. Í dag greiðir fólk 3,75% af tekjum uns það hefur greitt upp lán sitt. 7% heildartekna er u.þ.b. 10% ráðstöfunartekna og það sér hver maður að slík greiðslubyrði er of há. Námsmenn vilja benda sérstaklega á þau áhrif sem slík

greiðslubyrði mundi hafa á möguleika fólks til að komast inn í húsbréfakerfið og fá þar greiðslumat.
    3. Eftirágreiðsla lána. Námsmönnum þykir það með algjörum ólíkindum að frv. skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni með þessa hugmynd innan borðs. Helstu rök sem færð hafa verið fyrir þessari breytingu eru að á síðasta ári hafi sjóðurinn varið um 55 millj. kr. í svokölluð ofgreidd lán. Það vandamál er þessari hugmynd ætlað að leysa. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði ísl. námsmanna voru um 90% þeirra sem fengu slík lán hjá sjóðnum búin að gera hreint fyrir sínum dyrum um áramót. Reikna má með að þær 8 millj. sem þá voru eftir komi inn nokkrum mánuðum síðar. Það er því alveg ljóst að hér er ekki um neitt eiginlegt vandamál að ræða hjá sjóðnum. Fyrir þessari breytingu eru því engin rök. Hún hefur hins vegar í för með sér geysilegt óhagræði fyrir námsmenn þar sem lánin væru greidd út eftir að önn lýkur í stað þess að fólk fái mánaðarlegar greiðslur eins og eðlilegt er. Fólk er því neytt til að leita á náðir banka og annarra peningastofnana með þeim vöxtum sem þar tíðkast.
    Það er von og trú námsmanna að alþingismenn taki þessar athugasemdir til íhugunar. Aðild að samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna eiga Stúdentaráð Háskóla Íslands með um 5.200 umbjóðendur, Bandalag ísl. sérskólanema með um 3.500 umbjóðendur, Iðnnemasamband Íslands með um 3.500 umbjóðendur og Samband ísl. námsmanna erlendis með um 3.000 umbjóðendur. 15.200 námsmenn telja sig eiga nokkurn hlut að máli varðandi skipan löggjafarsamkundunnar. Við höfum bent á augljósa galla sem er að finna í frv. Við höfum farið fram á það að alþingismenn lagfæri þessa galla áður en teknar verði ákvarðanir sem hafa áhrif á líf þúsunda námsmanna hérlendis sem erlendis.``
    Undir þetta bréf rita Pétur Þ. Óskarsson fyrir hönd Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Almar Eiríksson fyrir hönd Bandalags ísl. sérskólanema, Ólafur Þórðarson fyrir hönd Iðnnemasamands Íslands og Ingibjörg Jónsdóttir fyrir hönd Sambands ísl. námsmanna erlendis.
    Í þessum texta, sem 8.000 aðilar hafa skrifað undir, eru nú ekki stóryrðin. Með mjög hógværum, rökföstum hætti er farið fram á það að hv. stjórnarþingmenn athugi sinn gang. Ég vona að þeir geri það. Ég vona að þeir geri það og átti sig á því að þessi útborgunarstöðvun Lánasjóðs ísl. námsmanna frá 1. júlí 1992 eða svo, þegar sjoppunni verður lokað með slagbröndum, gengur ekki. Þó að námsmenn hafi ekki það vopn sem launafólk hefur að leggja niður vinnu og gera kröfur samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur þá finnst mér að við hin hljótum að segja með þessu fólki: Þetta gengur ekki.
    15.200 námsmenn. Þetta fólk er hluti af fjölskyldum sem telur a.m.k. tvöfalt, þrefalt fleiri Íslendinga. Ég er alveg viss um það að jafnvel þó að ríkisstjórnin færi í gegn með þetta mál núna þá verður það ekki liðið til langframa. Menn þola ekki það ranglæti sem í þessu felst. Þess vegna skora ég ekki síst á hv. alþýðuflokksmenn, sem hafa lýst því yfir að þeir vilji taka á þessu máli, að gaumgæfa málið mikið betur því að ég er sannfærður um það að þó að málin hafi lengi verið til meðferðar þá hafa ekki allir þingmenn gert sér ljóst hvað er verið að gera. Ég er ekkert að áfellast þá í sjálfu sér fyrir það. Mikið er af málum sem menn hafa ekki getað sett sig inn í í einstökum atriðum. Þetta mál var ekki aðalmálið sem rætt var við 1. umr. málsins, þetta mál er miklu meira rætt núna og þess vegna ástæða til og eðlilegt að fara fram á það í fullri vinsemd en þó af miklum þunga að þessir hlutir verði teknir til endurskoðunar.
    Við fyrsta hluta þessarar umræðu flutti hæstv. menntmrh. ræðu þar sem hann gerði athugasemdir við ýmsar þær tillögur sem minni hluti menntmn. flytur. Þeim athugasemdum hæstv. menntmrh. hefur þegar verið svarað að verulegu leyti þannig að ég ætla ekki að víkja frekar að því nema örfáum atriðum og þó einkum því sem segir hér, að pólitíska valdið hafi stundum gengið of langt í að leggja byrðar á Lánasjóð ísl. námsmanna. Rökin fyrir skerðingum á lánasjóðnum núna eru eins og kunnugt er aðallega þau að framlögin í sjóðinn hafi verið of lítil, lánin hafi verið allt of hátt hlutfall af útgjöldum sjóðsins. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Hitt er aftur annað mál, sem menn verða að velta fyrir sér af fullri sanngirni, hvort það er réttlátt að námsmenn framtíðarinnar verði látnir bera hallann á sjóðnum vegna liðinnar vanrækslu. Það liggur fyrir að námsmannahreyfingarnar eru núna tilbúnar til þess að taka þátt í að borga það sem á milli ber í framtíð, en námsmannahreyfingarnar eru tregar til að taka á sig þann halla sem liggur fyrir frá liðnum tíma.
    Hins vegar vil ég segja það sem skoðun mína að ég tel að engin rök séu fyrir því að skerða sjóðinn vegna mikilla lána hans á undanförnum árum. Lánasjóður ísl. námsmanna er hluti af hinu almenna menntakerfi Íslendinga. Lánasjóður ísl. námsmanna er hluti af hinu almenna menntakerfi rétt eins og leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, háskólar, rannsóknir, endurmenntun, fullorðinsfræðsla, vísindi. Við þær aðstæður sem lánasjóðurinn stendur nú frammi fyrir er auðvitað alveg ljóst að ríkissjóður ætti að taka á sig hluta af þeim skuldbindingum sem liggja hjá lánasjóðnum, rétt eins og ríkið hefur gert gagnvart ýmsum félagslegum fyrirtækjum eins og Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða svo ég nefni dæmi, því í öllum þessum tilvikum er um sambærilegar félagslegar skyldur að ræða. En þegar kemur að Lánasjóði ísl. námsmanna þá eru menn tregir til að viðurkenna þetta, því miður, en það ættu menn að gera frekar en að loka sjóðnum hálft ár 1992 eins og gerðar eru tillögur um.
    Hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni 27. apríl: ,,Einnig hafa sumir þeir sem farið hafa með pólitíska valdið í málefnum lánasjóðsins víkkað út lánareglur sjóðsins, án tillits til fjárveitinga hverju sinni.``
    Ég veit alveg hvert þetta skot á að fara. Ég þekki það alveg nákvæmlega. En staðreyndin er sú að markið sem þetta skot ætti helst að beinast að er ekki á Alþingi lengur. Það er úti í Landsbanka.
    Sverrir Hermannsson, fyrrv. menntmrh., tók ákvörðun um að skerða framfærslulán Lánasjóðs ísl.

námsmanna. En á sama tíma tók hann ákvörðun um að auka gífurlega lánaskyldur sjóðsins frá því sem áður hafði verið, m.a. með breyttu tekjutilliti. Þannig að stærstu útgjöld sjóðsins á undanförnum árum fyrir utan fjölgunina, sem er auðvitað gífurlega stór þáttur í málinu, liggur í þeim ákvörðunum sem Sverrir Hermannsson tók einhliða á sínum tíma eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. gat um fyrr í dag.
    Þær ákvarðanir sem teknar voru um breytingar á námslánum í minni tíð gengu út á það að framkvæma lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna undanbragðalaust. Ég tók auðvitað eftir því á þeim tíma þegar ég var að taka þessar ákvarðanir að þær voru misjafnlega vinsælar á vissum stöðum sem verður farið nánar út í í ævisögu minni þegar hún kemur út á næstu öld og ég ætla ekki að fara að rekja hér. Það er alveg ljóst að það fór misjafnlega ofan í kokið á mönnum þegar sú ákvörðun var tekin. (Gripið fram í.) Þið bíðið spennt eftir því, en þið verðið að bíða líka. En staðreyndin er hins vegar sú að jafnframt þeim ákvörðunum voru teknar ákvarðanir um að skera niður lánsrétt upp á 400 millj. kr. á ári þannig að sú breyting á framfærslugrunninum sem átti sér stað og sá niðurskurður á lánsrétti sem um var að ræða stóðst nokkurn veginn á endum.
    Hins vegar gerðist það að auki að námsmönnum fjölgaði mjög verulega á þessum tíma og auðvitað skapaði það ný verkefni fyrir sjóðinn og skylt var að taka á. En það á ekki að gera með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um.
    En markið sem ætti að taka við því skoti sem hæstv. menntmrh. skaut úr ræðustólnum 27. apríl sl. situr úti í Landsbanka.
    Það er auðvitað þeim mun alvarlegra hvernig að þessum hlutum er staðið þegar fyrir liggur að námsmannahreyfingin hefur lýst vilja sínum til þess að taka á vandamálum sjóðsins. Auðvitað er alveg dæmalaust að sjá hvernig ríkisstjórnin vinnur alltaf að öllum málum. Það mega helst aldrei koma menn að nokkurri vinnu á vegum þessarar stjórnar öðruvísi en þeir séu í þessum stjórnarflokkum. Það er eins og engin þjóð sé til í landinu nema þeir menn sem eru enn þá flokksbundnir í þessum stjórnarflokkum og þeim fer sem betur örugglega fækkandi. Aldrei var talað við þá sem hagsmuna eiga að gæta, eins og í þessu tilviki námsmennina. Jú, menn hittu þá aðeins á fundi, þeim var gefinn nokkurra sólarhringa frestur. Svo komu þeir með sínar tillögur og þær fengust aldrei ræddar. Það er stefna ríkisstjórnarinnar, sem er sama stefna og viðreisnarstjórnin hafði fyrir áratugum, að hafa alltaf þessa tvo flokka, bara Alþfl. og Sjálfstfl. en það er nokkurn veginn alveg tryggt að við sem erum í hinum flokkunum fáum aldrei að koma að verkum á undirbúningsstigi af neinu tagi, þó það sé auðvitað vitað að áður en langt um líður tökum við við þessu aftur. Það er alveg á hreinu. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær, eins og hv. 7. þm. Reykn. veit best allra sem sitja hér í salnum. Þannig að það kemur að því að við tökum við þessu aftur.
     En þessi einsýni í sambandi við skipan allra nefnda og ráða. Látum nú vera þó menn sleppi stjórnarandstöðunni, en að tala ekki við námsmenn sem þó voru tilbúnir til þess að skera niður útgjöld sjóðsins upp á 400--500 millj. kr. á ári að því er þeir hafa sjálfir sagt. Það var aldrei við þetta fólk talað.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fara út í þessa þætti frekar í einstökum atriðum. Ég ætla aðeins að víkja að einu atriði að síðustu og það er varðandi Vísindasjóð. Búið var að segja að það ætti að styrkja Vísindasjóð til að taka við einhverjum af þessum verkefnum sem Lánasjóður ísl. námsmanna getur ekki sinnt. Við báðum um upplýsingar um stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum Vísindasjóðs. Hvar er hún? Ég leyfi mér að leggja þá spurningu fyrir hæstv. menntmrh. hvort það sé eitthvað nýtt að frétta af því máli. Er ríkisstjórnin kannski senn að leggja fram stefnumótun í málefnum vísinda og rannsókna? Hvar eru tillögurnar um eflingu Vísindasjóðs? Hvar eru þær? Við höfum ekkert séð af því tagi.
    Auðvitað er það þannig, virðulegi forseti, að ef ríkisstjórnin væri nú --- mér liggur við að segja bara --- að taka svona á Lánasjóði ísl. námsmanna, þá mætti nú horfa á hlutina. En það er allt menntakerfið undirlagt eins og það leggur sig. Tímaframboð grunnskóla er skorið niður í haust og meira á næsta ári. Framhaldsskólarnir munu eiga mjög erfitt með að gegna skyldum sínum. Í háskólanum búa menn við skólagjöld. Framlög til vísinda og rannsókna eru skorin niður. Þetta mun allt í senn koma niður á lífskjörum þjóðarinnar eftir ekki mjög langan tíma. Af þessum ástæðum munum við búa við verri lífskjör þegar fram í sækir. Það mun ekki standa í fjárlögunum 1993 eða 1994 og það verður kannski ekki kosið um það einu sinni árið 1995. En það verður kannski kosið um það árið 2005 eða 2010 þegar afleiðingarnar af niðurskurðarstefnunni í menntamálum, rannsóknum og vísindum eru farnar að segja til sín. Reyndar þekkjum við dæmi um það, m.a. frá Bandaríkjunum, að niðurskurður á framlögum til skólamála kemur slíkum þjóðum í koll oft miklu fyrr. Auðvitað vona ég að menn hafi rænu á því í stjórnarandstöðunni, ef svo fer fram sem horfir og þetta verður samþykkt, að halda því upp í ljósið næst þegar verður kosið, hvað hefur verið gert.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, leggja spurningu fyrir menntmrh. Ég hef borið fram við hann þrjár spurningar í ræðu minni um hina sérstöku 1% vaxtaákvörðun. Hvernig kemur hún út? Er það ætlunin að hún gildi um þau lán sem tekin eru á árinu 1993 og verði föst á þeim lánshluta sem þá er tekinn eða er hætta á að þeim lánsskilmálum verði breytt þegar fólk fer að borga af láninu? Ef svo er hefur þessi 1% vaxtaákvörðun ekkert gildi, enga stoð. Ef aftur á móti það er á hreinu að þetta sé fast, er það mikils vert, en ég spyr þá: Ef svo er, hvernig heldur það? Er ekki alveg ljóst að samkvæmt ákvæðum frv. gæti mennmrh., e.t.v. einhver annar, t.d. ef hæstv. utanrrh. Jón Baldvin yrði menntmrh., breytt þessum lánsskilmálum sem nú eru ákveðnir 1%. Eða er það alveg gullslegið að þetta 1% sé fast?

    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fyrir hæstv. menntmrh. fáeinar spurningar. Ég tel að á ferðinni sé eitt allra stærsta mál þingsins og eðlilegt að menn vilji fara rækilega yfir það. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir það að hann hefur á beinan hátt tekið þátt í umræðunum og greitt þannig fyrir því að þær geti gengið með eðlilegum hætti og vænti þess að hann sjái sér fært að svara þeim fáeinu spurningum sem ég hef lagt fyrir hann.