Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 21:30:13 (5928)

     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að vafalaust er hér um eitt mikilvægasta mál þessa þings að ræða og reyndar hygg ég þegar til lengri tíma er litið eitt af mikilvægustu málum þjóðarinnar. Ég hef reyndar sagt það áður en vil endurtaka það að það er sannfæring mín að við hljótum að byggja á þekkingu eins og aðrar þjóðir sem eru komnar á það stig að nýta nokkurn veginn til fullnustu náttúruauðlindir sínar. Reyndar bað ég um orðið því mig langaði til að beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hvort hann hefði lesið leiðara Morgunblaðsins sl. sunnudag og Reykjavíkurbréf þann sama dag. Þetta eru afar athyglisverð skrif og eiginlega má draga þau saman í þau fáu orð að ,,mennt er máttur``. Í þessum skrifum er lýst þeirri hrörnun sem orðið hefur í Bandaríkjunum frá því að frjálshyggjan, skulum við segja, var innleidd þar með Reagan fyrir rúmum 10 árum sem gerði það eins og hér eitt af sínum fyrstu verkum að draga úr opinberum stuðningi við menntun. Fullyrt er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að í Bandaríkjunum séu nú um 17% unglinga ólæsir og óskrifandi. Reyndar hlustaði ég á rektor eins þekktasta háskóla í Bandaríkjunum nota miklu hærri tölu, allt að 30%, en við skulum segja að hún sé einhvers staðar þarna á milli. 17% er sannarlega nógu hátt. Í skrifum Morgunblaðsins eru rök færð að því að þarna megi finna meginástæðuna fyrir því ástandi sem við höfum séð í Bandaríkjunum nú og meginástæðuna fyrir því að 1% Bandaríkjamanna safna stöðugt meiri auði en hinir meiri fátækt.
    Er það þetta sem við Íslendingar viljum? Ég leyfi mér þó að fullyrða að hæstv. menntmrh. vill það ekki. Ég þekki hæstv. menntmrh. af því að hugsa ekki svona, en mér finnst að hann láti draga sig inn á afar hættulega braut með þeim niðurskurði, ekki aðeins til námsmanna þó að það sé afar alvarlegt sem við erum að ræða hér, heldur einnig til skólakerfisins í heild og hann sé þar í raun að reisa sér minnisvarða sem ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst hæstv. menntmrh. ekki eiga skilið. Ég spyr þess vegna hæstv. menntmrh. hvort hann hafi hugleitt þetta og af því að ég veit að hann fær Morgunblaðið, spyr ég hreint út: Hefur hæstv. menntmrh. lesið þá lýsingu sem Morgunblaðið gefur af því ástandi sem hefur orðið þar sem menn hafa farið inn á þann veg að draga svo úr menntun?
    Reyndar gæti ég bætt miklu fleiru við því ég þekki allvel til í Bandaríkjunum og þekki nánast af eigin raun hvernig málin hafa smám saman þróast þar á undanförnum árum eftir að stöðugt var dregið meira úr opinberri aðstoð til menntunar. Þar er ekki lengur jafnræði til mennta. Ég sé ekki betur en að með því frv. sem hér er til umræðu sé einmitt stigið skref sem dregur strax úr jafnræði til menntunar og ætla ég að koma að því síðar.
    Sannarlega met ég þær breytingar sem eru gerðar á frv. og eru til bóta. En því miður þarf að ganga langtum lengra. Mikið hefur verið rætt um vexti og ég sagði í ræðu minni í 1. umr. að 1% vextir væru út af fyrir sig þolanlegt, en mér finnst dálítið merkilegt að þegar menn tala um vexti ræða menn bara um eina vexti. En það eru aðrir vextir og fleiri sem námsmenn greiða. Við erum í fyrsta lagi líklega eina þjóðin í heiminum sem ekki reiknar verðtryggingu eða verðbótaþáttinn sem vexti. Þetta eru verðtryggð lán og þar eru vextirnir u.þ.b. 5%, líklega 4--5%. Ég þekki ekki til nokkurrar þjóðar sem reiknar ekki verðbótaþáttinn til vaxta. Í dag hefur einmitt verið rætt um aðra afar mikla vaxtabyrði námsmanna.
    Ég tek heils hugar undir það sem hv. ræðumaður á undan mér lýsti ítarlega, þ.e. þeim ákvæðum frv. að veita ekki lán fyrr en eftir á. Námsmenn verða þá að taka þau lán og eftir því sem ég kemst næst mun það vera um 1 milljarður sem þannig verður í útlánum til námsmanna til að brúa bilið. Vextir af þeim eru 8--10% og ég reikna nú varla með því að námsmenn fái lán sín á lægstu kjörvöxtum. Þeir fá það ekki nema þeir hafi fasteignaveð með mjög lítilli veðsetningu. Þannig að vextir sem námsmenn eru að greiða eru í fyrsta lagi verðtryggingin, sem er 4--5%, síðan þeir vextir sem lagðir eru ofan á, sem hæstv. ráðherra hefur af mildi sinni ákveðið að skuli vera 1%, og svo vextir af þeim lánum sem þeir verða að taka áður en þeir fá námslán og verða raunar að velta stöðugt áfram. Það er líka athyglisvert að bankarnir veita þeim námsmönnum sem þurfa að taka lán vegna fyrstu annar, þ.e. áður en þeir eru búnir að fá fyrstu prófskírteini sín, aðeins 90% af því sem þeir mundu fá hjá lánasjóðnum. Þannig að vextirnir sem námsmenn bera eru miklu hærri en 1% eða 3%.
    Út af fyrir sig hef ég margsinnis lýst þeirri skoðun minni að við eigum að leggja niður verðtryggingu og hafa fasta vexti. Ég vona að þingmenn kannist við það. Við hv. þm. Eggert Haukdal höfum verið hvað ötulastir við að boða það. Það kemur einhvern tímann að því að verðtryggingin gengur ekki, þegar hér er orðið opið peningakerfi með Evrópulöndunum.
    Ég vil því leggja mikla áherslu á það að vextirnir eru ekki 1% eins og menn eru að tala um, þeir eru einhvers staðar nær 14--15% þegar allt er tekið saman sem námsmenn þurfa að greiða í vexti af því fjármagni sem þeir þurfa til framfærslu. Þetta er náttúrlega ekkert annað en okur.
    Af því að hæstv. ráðherra hefur af mildi sinni ákveðið að vextir skuli vera 1% nú, af hverju er þeirri grein ekki breytt? Ég er ekki viss um að það verði svona mildur og góður hæstv. menntmrh. einhvern tímann seinna. Það var einhver að segja það áðan að hæstv. utanrrh. ætlaði að taka að sér menntamálin. Guð hjálpi okkur þá. En sem sagt: Af hverju er ekki bara hægt að breyta þessu og hafa hámarkið þá 1% til að tryggja að ekki verði slíkt slys? Ég tel að það væri strax mikill áfangi. En langtum meiri lækkun vaxta felst vitanlega í því að halda því kerfi sem nú er og veita þeim námsmönnum sem komist hafa í gegnum fyrstu önn með gildum prófum lán fyrir fram, með öðrum orðum: ekki eftir á. Þar felst vitanlega langsamlega mesta vaxtalækkunin.
    Það er náttúrlega alveg ljóst sem kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni að útlánin verða sáralítil í haust. Það getur verið að það verði greiðsla á einhverju sumarnámi, ég skal ekki segja um það, en þau verða afar lítil í haust. Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh. --- spurning númer tvö --- hvort til þess hafi verið tekið tillit við gerð fjárlaga. Er í fjárlögum í ár reiknað með minni útlánum í haust? Ljóst er að það verða minni útlán því það er ekki borgað fyrr en eftir á. Námsmenn í haust fá ekki lán fyrir haustönninni fyrr en eftir áramót. Var þetta virkilega tekið með í fjárlagadæmið? Á með þessu móti að bæta afkomu ríkissjóðs á árinu 1992, en láta í staðinn námsmennina greiða vexti af þeim lánum sem þeir þurfa að taka? Með öðrum orðum: Við getum sagt að vaxtabyrðin sé flutt frá ríkissjóði með því að hann sparar sér vexti með minni halla og yfir til námsmanna og þeir látnir bera þessa vaxtabyrði. Mér þætti fróðlegt að vita það hvort hæstv. menntmrh. sé sammála þeim tölum sem hafa verið nefndar, að það sé um einn milljarður sem útlán verði minni eða hátt í það með því fyrirkomulagi sem hér er gert ráð fyrir. Ef hann er ekki sammála því vildi ég gjarnan heyra hvaða tölur það eru aðrar.
    Ég harma þær ofsóknir sem hafa komið fram í fjölmiðlum upp á síðkastið og sem reyndar hæstv. menntmrh. því miður flutti inn í þingið að sumu leyti í garð námsmanna, eins og t.d. þær að 55 millj. kr. væru oflán og manni skildist að hefðu ekki náðst inn. Nú hefur verið upplýst að öll þessi upphæð, nema 8 millj., var greidd í lok síðasta árs þegar gert var upp. Við heyrðum það í fjölmiðlum í hádeginu að of há lán nemi yfir 600 millj. kr. og almenningur er afvegaleiddur með því og látið að því liggja að þarna séu námsmenn að ná sér í meira fjármagn en þeir eigi rétt á. Ég skal ekkert segja um það hvort einn og einn stundi það, en ég er sannfærður um að allur þorri námsmanna gerir það ekki. Og ég er sannfærður um að þeir sem gera það eru varla reiknaðir í einum hundraðshluta reyndar langtum minna.
    Hins vegar getur náttúrlega svo farið að námsmenn vanmeti tekjur sínar og þær geti orðið meiri en þeir hafa metið. En mér er tjáð að allar þessar umframgreiðslur hafi verið endurgreiddar þegar gert er upp nema á síðasta ári 55 millj. kr., sem þó voru síðar endurgreiddar og eftir standa aðeins 8 millj. kr.
    Mér þætti afar vænt um ef hæstv. menntmrh. vildi leiðrétta þetta fyrir þjóðina og láta koma fram réttar tölur í þessu sambandi og rétta þróun þessara greiðslna, ef ég má segja svo. Hvenær hafa þær aftur verið greiddar sjóðnum? Hafa þær ekki verið greiddar sjóðnum, eins og fram kemur hjá námsmönnum? Er það rangt sem námsmenn eru að segja okkur og hafa sannarlega fært rök fyrir með sínum tölum? Er það ekki rétt að þær umframgreiðslur, sem sjóðurinn birtir, hafa fengist endurgreiddar? Er það ekki líka rétt að þær 55 millj., sem hæstv. ráðherra nefndi í ræðu, hafa fengist endurgreiddar nema 8 millj.? Mér finnst afar mikilvægt að þessi leiðrétting komi fram hjá hæstv. menntmrh. þannig að námsmenn liggi ekki í þingtíðindum undir rangri sök í þessum efnum.
    Ég er þeirrar skoðunar að þessi þáttur, eftirágreiðsla lánanna, sé það versta sem eftir stendur í frv. Það er ýmislegt sem þyrfti svo sannarlega að bæta og sjálfur hef ég sagt að við framsóknarmenn værum tilbúnir að setjast niður og skoða fjölmargt eins og fulltrúar okkar í menntmn. hafa reyndar gert, fjölmargt sem gæti orðið til þess að draga úr lánsþörfinni, en þetta atriði er hlutur sem við getum aldrei nokkurn tímann sætt okkur við. Að mínu mati er þetta tvímælalaust eitt það versta, ef ekki það versta, sem eftir stendur í frv. og nauðsynlegt að fá leiðrétt. Ég skora á hæstv. menntmrh. að skoða hug sinn vel um þetta atriði og ganga til móts við námsmenn í þessu efni.
    Ég ætla alls ekki að segja að hæstv. menntmrh. hafi lofað leiðréttingu á þessu á fjölmennum fundi í Háskólabíói þar sem við báðir vorum, en hitt vil ég segja að hæstv. menntmrh. tók svo vinsamlega í allar ábendingar námsmanna að ég hygg að þeir hafi farið frá þeim fundi ólíkt glaðari en þeir komu til hans og farið frá honum í því trausti að miklu meira yrði leiðrétt í frv. en gert hefur verið hingað til.
    Ég vil einnig taka undir það sem hér hefur komið fram að mér þykja námsmenn hafa sótt mál sitt af mikilli hæversku og mikilli kurteisi. Ég hef ekki orðið var við nein stóryrði, nein fúkyrði, engar hótanir eða neitt slíkt. Langt frá því. Mér finnst að þeir hafi lagt þetta allt afar málefnalega fram og get ekki annað en dáðst að þeim í þessu sambandi því svo sannarlega eru þeir að berjast fyrir kjörum sínum og ekki bara sínum heldur kjörum námsmanna um alla framtíð og um framtíð þjóðarinnar eins og ég hef áður minnst á.
    Ég hef verið að velta því dálítið fyrir mér þegar ég les frv. hvað heimildir sjóðstjórnar eru ótrúlega miklar. Ég rekst alltaf aftur og aftur á orð sem gefa það til kynna og vekja upp spurningar í mínum huga. Um hlutverk sjóðsins stendur að hann eigi að veita námslán til framhaldsskólanáms. Í 6. gr. stendur að námsmaður skuli að jafnaði hafa rétt til að taka lán. Hvað þýðir þetta ,,að jafnaði``? Það hlýtur að vera, skilst mér, sjóðstjórnin sem metur þetta ,,að jafnaði`` og hvað þýðir það? Það felst í því afar mikil óvissa. Við skulum segja að það séu námsmenn sem fullnægja öllum skilyrðum um próf sem við höfum verið að tala um hér og eru í skólum sem fullnægja þeirri kvöð að skólinn geri svipaðar kröfur til náms og gerðar eru til háskólanáms hér. En samt sem áður kemur þarna inn að námsmaður hefur aðeins heimild að jafnaði. Af hverju hefur námsmaður, sem fullnægir þessum reglum, ekki rétt á láni, námsmaður sem hefur ekki styrki eða laun sem nægja honum fyrir framfærslu? Að sjálfsögðu ættu allir íslenskir námsmenn sem þannig er ástatt um að hafa jafnan rétt en ekki ,,að jafnaði`` rétt til þess að fá lán úr sjóðnum. Þetta skapar afar mikla óvissu og þessi óvissa hefur hvergi komið betur fram en í framhaldsnámi læknanema, sem ég hef áður minnst á hér, og sem mjög mikið hefur verið ritað um í blöðin og heldur áfram. Það eru ótrúleg svör sem formaður og framkvæmdastjóri lánasjóðsins hafa látið frá sér fara, hreint og beint ótrúleg. Maður hugleiðir stundum þegar maður les það hvort mennirnir viti hvað þeir eru að segja og skrifa.
    Hæstv. menntmrh. svaraði spurningum mínum um þetta við 1. umr. en ég ætla að leyfa mér að endurtaka þær og ég vil gjarnan biðja hæstv. menntmrh. enn á ný að svara. Þá er rétt að taka dæmið um læknanemann sem er í framhaldsnámi og er skyndilega sviptur möguleikum á námsláni eftir að hafa þó náð því í gegn að fá slíkt námslán. Hann er skilinn eftir í mjög miklum vandræðum með sína fjölskyldu erlendis. Það hafa komið fram í dagblöðum nákvæmar lýsingar á þessu og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Honum er neitað um lán án þess að skoða hvort þau námslaun eða námsstyrkir sem hann kann að hafa erlendis nægi til framfærslu. Hvers vegna er læknanemanum einum neitað um það að skoða framfærsluna? Og það er gert meira. Honum er gert skylt að byrja að greiða lánin áður en náminu lýkur. Er það ekki alveg tvímælalaust skilningur hæstv. menntmrh. að læknanemi í framhaldsnámi eigi til jafns við aðra rétt á láni ef hans tekjur duga ekki fyrir framfærslu? Er það ekki alveg tvímælalaust? Ég vil gjarnan fá því svarað aftur. Það má segja að hæstv. menntmrh. hafi svarað því en það sakar ekki að hafa það betur skjalfest. Kannski sjóðstjórnin fari að hlusta á hæstv. menntmrh. Það er í þeirri von sem ég spyr. Ég held að hæstv. menntmrh. hafi miklu betri skilning á þessu máli en komið er fram hjá talsmönnum lánasjóðsins. Það er afar mikilvægt að þessir námsmenn fái skilning hæstv. menntmrh. svart á hvítu.
    Ég skal ekki lengja þetta mikið en ég vil gjarnan ljúka þessum fáu orðum með því, sem ég hóf þessa ræðu mína á, að hvetja hæstv. menntmrh. til að líta langtum lengra fram á veg, skoða hvaða áhrif slíkur samdráttur í menntun mun hafa á þjóðina þegar til langs tíma er litið. Ég nefndi leiðara og grein í Morgunblaðinu sem er afar athyglisverð og ég vona að hæstv. menntmrh. hafi lesið hana en það mætti miklu fleira nefna.
    Í athugun fræðimanna sem ég sá nýlega á vexti og viðgangi þjóða ber allt að sama brunni. Þar eru færð rök að því að vöxtur þjóða eins og Japana, Tævanbúa og fleiri byggist fyrst og fremst á mjög miklu framlagi til menntunar og skipulagðri menntun. Þar eru færð rök að því að ýmsar smáþjóðir sem hafa staðið sig vel eins og Svisslendingar og fleiri þjóðir byggi fyrst og fremst á þekkingunni. Það er sorglegt þegar svo góður grundvöllur hefur verið lagður að þekkingu, eins og gert hefur verið hér á undanförnum árum, og sem sannarlega er að gefa þjóðinni mikinn arð af því fjármagni sem til þess hefur verið lagður, að þessi grundvöllur skuli nú að vissu leyti --- ég vil alls ekki segja eyðilagður, langt frá því, það er ekki svo langt komið sem betur fer en fyrsta skrefið hefur tekið til þess að veikja þennan mikilvæga grundvöll. Það er sorglegt. Manni hefur skilist að svo muni áfam verða á næsta ári þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra um að þetta sé algerlega tímabundið. Þetta er að mínu mati miklu alvarlegra mál en mér finnst koma fram í ýmsum ræðum talsmanna stjórnarflokkanna. Ég leyfi mér að fullyrða að jafnvel afskiptaleysi hæstv. ríkisstjórnar af atvinnuleysinu, atvinnuvegunum og erfiðleikum þeirra sé ekki eins alvarlegt og hér er á ferðinni. Staðreyndin er vitanlega sú að öll hagræðing í atvinnulífinu hlýtur að byggja á þekkingu. Staðreyndin er sú að öll nýskipun í atvinnulífinu hlýtur að byggja á þekkingu og staðreyndin er vitanlega sú að allur hagvöxtur þessa þjóðfélags hlýtur að byggja á þekkingu. Það er líka staðreynd að góður rekstur heilbrigðiskerfisins og velferðarkerfisins í heild hlýtur að byggja á þekkingu. Við Íslendingar getum verið afar stoltir af því að gott menntakerfi og góðir styrkir hafa gefið okkur marga færustu sérfræðinga í heimi á hinum ýmsu sviðum velferðarmála.
    Ég hvet hæstv. menntmrh. til að endurskoða þetta. Hann tæki stórt skref ef hann féllist á að fella niður ákvæði um eftirálánveitingar í frv. Ég veit að það yrði mjög mikils metið af námsmönnum.