Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Þriðjudaginn 05. maí 1992, kl. 23:16:00 (5931)


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Um þetta mál hefur þegar orðið allnokkur umræða og búið að fara í gegnum málið með þeim athugasemdum sem menn hafa gert við það. Ég skal reyna að hlífa fólki við að endurtaka það sem ég hef áður sagt í allmörgum umræðum um málið, bæði utan dagskrár og innan.
    Í upphafi máls míns vil ég benda á að vitrir menn hafa löngum sagt að öll lög séu slæm sem ekki er sátt um og það er alveg ljóst að um þetta mál eins og það liggur nú fyrir getur ekki orðið sátt vegna þess að þetta yrðu óréttlát lög sem vandalítið væri að breyta í þá veru að um þau gæti náðst sátt. En það er svo einkennilegt með störf hæstv. ríkisstjórnar, sem nú stýrir landinu okkar, að það er eins og henni sé flest annað lagið en ná einhverri sátt við fólkið í landinu.
    Ég verð að játa að þegar ég heyrði í fulltrúa ríkisstjórnarinnar, formanni stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna, í hádegisútvarpi, ég held að það hafi verið í dag frekar en í gær, þá sló það mig hversu mikill skortur á vinsemd var í máli hans. Hann var að ausa því yfir þjóðina og gera því skóna að stór hópur námsmanna nýtti sér Lánasjóð ísl. námsmanna til þess að afla sér ódýrs lánsfjár. Þetta er auðvitað svo fjarri öllu lagi sem vera má. Það hefur margsinnis komið fram og mörgum hefur komið það mjög á óvart að einungis um helmingur námsmanna við Háskóla Íslands nýtir sér yfir höfuð Lánasjóð ísl. námsmanna.

Ég hef þekkt allmarga námsmenn í gegnum árin og ég hef aldrei heyrt það fyrr að einhverjum hafi dottið slíkt í hug. Nú kann vel að vera að einhverjir hafi lært af foreldrum sínum að reyna að verða sér úti um ódýrt fé og nægir að minna á fólk sem nýtti sér svo sannarlega á ósvífinn hátt aðgang að Húsnæðisstofnun ríkisins meðan allir gátu vaðið þar inn og fengið það sem þeir báðu um. Vera má að afsprengi þessa góða fólks hafi lært eitthvað af foreldrum sínum og staðið í slíku en ég held að það sé svo mikill minni hluti og svo óverulegur hluti námsmanna að það taki vart að tala um það auk þess sem á auðvitað að vera hægt að koma í veg fyrir það.
    Mér finnst stundum að verið sé að tala um hluti eins og menn viti ekki í raun og veru um hvað er að ræða. Hvað er þetta sem námsmenn hafa fengið hingað til? Hámarkslán til einstaklings í leiguhúsnæði er núna 48.061 kr. Það gleymist stundum að námsmenn búa ekki allir í Reykjavík eða á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Mikill hópur þessara námsmanna kemur utan af landi og á ekki heimili í bænum og þetta fólk getur ef best lætur sætt sig við herbergi með aðgangi að eldhúsi og baði. Og hvers er krafist í leigu fyrir slíkt húsnæði? Svona alla jafna um 25 þús. kr. Ef námsmenn skyldu vilja búa eins og við gerum flest kröfu til, að hafa sitt eigið eldhús og bað, þá þýðir ekkert að tala um neitt sem heitir íbúð fyrir minna en 30 eða 35 þús. kr. Til að bæta gráu ofan á svart segir svo leigusalinn: Þið megið ekki gefa þetta upp vegna þess að hann vill ekki borga skatta af því sem þýðir auðvitað að það rýrir námslán umrædds námsmanns. Það er því ekki feitan gölt að flá í kerfinu eins og það er. Engir eiga eins mikið undir því að námslán séu með sæmilegum hætti og einmitt fólkið sem kemur utan af landsbyggðinni til þess að stunda nám á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
    Það sem við, sem hér höfum mest eytt tíma hæstv. ráðherra og hv. þm., erum að fara fram á er að menn setjist nú niður og reyni að ná sáttum um þetta mál. Það sem á mestu ríður er að menn hætti við það markmið að taka vexti af námslánum. Það getur ekki verið meiningin að námsmenn sem nú stunda nám og í framtíðinni eigi að greiða þann skaða sem við öll eins og hér hefur margkomið fram erum tilbúin til að taka ábyrgð á, sem sagt að hleypa lánasjóðnum í lántökur. Ég er svo hjartanlega sammála þeim sem hafa talað í kvöld og sagt: Þennan skaða verðum við að bera öll því að það er auðvitað mál okkar allra að við rýrum ekki aðgang námsmanna til þess að geta stundað nám sitt. Ég held að þegar til lengdar lætur geti þetta heldur ekki borgað sig.
    Ég hef margsinnis minnt á að skil á gjaldföllnum skuldum við Lánasjóð ísl. námsmanna, sem hafa verið um 91%, eru betri en í nokkrum öðrum sjóði landsmanna vegna þess einfaldlega að menn hafa verið sáttir við það sem þeim var gert að greiða og gert það með glöðu geði. Ég held að þessar nýju innheimtuaðgerðir væru ekki nema til þess að upp rísi miklu meiri vanskil við sjóðinn en hingað til hefur verið og ég get ekki hugsað mér að þetta geti borgað sig. Sú mynd sem blasir við námsfólki í dag er ekki glæsileg.
    Eins og hv. 9. þm. Reykv., Svavar Gestsson, þekki ég foreldra sem eru með fleiri en eitt og fleiri en tvö börn í námi. Og hvað er að koma inn úr dyrunum til okkar sem að þessum börnum standa þessa dagana? Það er stórlega lækkaður barnabótaauki. Það er verri aðgangur að Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er ljóst að það verður erfitt sem aldrei að fá einhverja vinnu á þessu sumri og þegar námsmenn innrita sig þessa dagana í Háskóla Íslands eru þeir krafðir um 22 þús. kr. í innritunargjald. Þetta er ekki merki um vilja þessarar ríkisstjórnar til að stuðla að eflingu menntunar og menningar í landinu. Ég minni á þessi fjögur atriði, það sem blasir við hverri fjölskyldu í landinu, sem er með ungt fólk í námi, og þetta er ekki bara á einu sviði heldur öllum. Margt af þessu unga fólki er auðvitað fjölskyldufólk með ung börn. Hæstv. heilbrrh. hefur verið að tína allt sem hann hefur getað af barnafjölskyldum í heilbrigðiskerfinu. Verið er að draga úr fjármögnun grunnskólans og ég hlýt að spyrja: Hvert er þessi ríkisstjórn að fara? Mér dettur ekki í hug að halda að þetta fólk sé svo illa gert og illviljað að það geti hafa verið upphaflega ætlunin. Eitt er víst að ég er ansi hrædd um að hæstv. ráðherrar hafi alveg gleymt að segja þjóðinni frá þessari fyrirætlan sinni í síðustu kosningabaráttu. Ég held að margt af þessu komi fólki afar mikið á óvart og fólk er satt að segja furðu lostið yfir þessu athæfi.
    Eitt dæmi enn, sem ég ætla nú ekki að gera að umræðuefni vegna þess að ég gerði það í gær og mun gera það þegar það mál kemur aftur á dagskrá, um vinnubrögð sem ég fór hörðum orðum um í gær er frv. sem ríkisstjórnin leggur fram til að rýra kjör sjómanna, þ.e. frv. um Lífeyrissjóð sjómanna. Hver er ástæðan? Ég komst ekki að henni fyrr en í morgun. Í frv. er talað um að sjóðurinn sé svo illa stæður vegna vangoldinna iðgjalda. Hver er sannleikurinn í því? Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins skuldar útgerðin í landinu 125 millj. í iðgjöld. Sjómennirnir eru löngu búnir að borga sín iðgjöld, þau eru tekin af þeim sjálfkrafa. Hvernig á svo að leysa þennan vanda á vanskilum útgerðarinnar? Það á að taka það af sjómönnunum til viðbótar því sem þeir eru búnir að greiða og þetta er algerlega hliðstætt mál þessum aðferðum varðandi lánasjóðinn. Það eru stúdentar, það eru námsmenn sem eiga að greiða mistök okkar við að fjármagna sjóðinn. Þetta getur bara ekki gengið.
    Ég vil lengstra orða og í mestu vinsemd fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann leyfi þessu máli aðeins að hvíla um stund og kalli til liðs við sig fulltrúa námsmannahreyfingarinnar því að þeir eru fullir vilja til að reyna að hjálpa til að leysa vanda sjóðsins. Þeir hafa bara ekkert fengið að komast að því því að það er nú einn háttur þessarar ríkisstjórnar að forðast að ræða við alla aðila. Nægir að nefna nefndaskipanir og annað slíkt og ein blasti við okkur í dagblöðum bæjarins í morgun, nefnd til að endurskoða lög

um Ríkisútvarpið sem ég hélt þó að við ættum öll. ( Menntmrh.: Það eru útvarpslög, ekki bara Ríkisútvarpið.) Jæja, útvarpslög, það er rétt hjá hæstv. ráðherra, það fjallar þá um allt útvarp í landinu en ætli Ríkisútvarpið sé þar ekki allverulegur þáttur. Hverjir eru skipaðir í þessa nefnd? Eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna. Hvað væri á móti því að við í stjórnarandstöðunni fengjum tækifæri til að taka þátt í þessu starfi? Þetta getur ekki gengið ( Menntmrh.: Man þingmaðurinn hvernig þetta var í tíð síðustu ríkisstjórnar?) Mér er alveg nákvæmlega sama hvernig þetta var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það gerir ekki málið betra. En þetta ofbeldi gagnvart öllum skoðunum í landinu er auðvitað gersamlega óþolandi.
    Nú sé ég að hæstv. forsrh. er kominn í salinn og ég hef áður lýst því að ég trúi því ekki augnablik að þær aðgerðir til að rýra lífskjör landsmanna séu gerðar af illum vilja ríkisstjórnarinnar, ég trúi því ekki. En stjórnviska er það ekki og ég vil endurtaka það í eyru hæstv. forsrh. að ekki er hægt að stjórna löndum og þjóðum nema í sátt við þjóðina sjálfa. Lög eru ekki virt nema sátt sé um þau. Ég held að það besta sem hæstv. menntmrh. gæti gert í málinu sem veldur okkur svo sannarlega miklum áhyggjum væri að hæstv. ráðherra setti á milli 2. og 3. umr. niður nefnd manna með fulltrúum hagsmunaaðila til þess að reyna að finna aðrar leiðir til að rétta sjóðinn af en vaxtatöku af litlum hluta námsmanna sem sjóðsins njóta og afnema verstu agnúana úr þessu frv.
    Það sem mér finnst vera verst af þessu öllu fyrir utan vaxtatökuna er að námsaðstoð verði greidd eftir á. Satt að segja skil ég ekki hvernig mönnum sem hafa stundað háskólanám getur dottið annað eins í hug.
    Í fyrsta lagi: Hvernig halda menn að nemendum gangi, kannski nemendum sem eru ekkert líklegir til að verða miklir afreksmenn í námi? En það er einu sinni svo í okkar landi að allir mega reyna. Hvernig skyldi þessu fólki ganga að fá fólk til að ábyrgjast bankalán upp á von og óvon um að prófið takist og menn fái námslán? Oftar en ekki vill til í mörgum deildum Háskólans að mikill meiri hluti stúdenta nær ekki þessu prófi. Nægir að nefna læknadeild og fleiri deildir. Er þetta sanngjörn meðferð á námsmönnum að eiga að hafa þetta yfir höfðinu allan námstímann? Þetta getur ekki gengið.
    Ég hef áður spurt og ég held að ég hafi ekki fengið svar: Hvernig á að fara með það fólk sem getur ekki skilað neinum prófum? Ég nefni fólk sem er í doktorsnámi. Hvernig á það fólk að sanna að það sé virkilega að vinna að ritgerðinni sinni sem getur tekið 2--3 ár, jafnvel fleiri. Hvernig er það hugsað? Varla á það fólk að bíða allan tímann. Ég trúi því ekki. Ég held að menn lendi í mestu ógöngum með þetta fyrr eða síðar því að í mörgu námi, ég vil t.d. minna á háskólanám í Danmörku sem raunar hefur oft verið gagnrýnt þar sem mjög lítið er af prófum eftir annir. Menn fá satt að segja engin próf fyrr en lokapróf. Hvernig í ósköpunum á þetta fólk að staðfesta að það sé virkilega að stunda nám sitt? Eins og kunnugt er hafa Danir ekki BA-gráðu, þeir hafa magisterspróf og fram að því fá menn beinlínis engin próf. Ég held því að þetta verði alveg óframkvæmanlegt þegar til framkvæmdarinnar kemur. Ef þetta tvennt væri sniðið til, vaxtatakan og eftirágreiðslan, þá held ég að það mætti a.m.k. fara að ræða við stjórnarandstöðuna um að þetta frv. næði fram að ganga.
    Prósentutölur á endurgreiðslunum finnst mér svo sem ekki góðar en ég get miklu frekar sætt mig við þær. En þetta tvennt finnst mér alveg útilokað að halda til streitu og ég er ansi hrædd um að það muni líka reynast dálítið erfitt að koma því í gegnum þingið. Ég ætla ekki að fara að halda hér hjartnæma ræðu enn eina ferðina um þau grundvallarmannréttindi sem ég tel jafnrétti til náms vera. Ég hélt að ekki þyrfti að hafa orð á því á hinu háa Alþingi. Það segir sig auðvitað sjálft ef þetta frv. yrði að lögum eins og það er nú þrátt fyrir smávegis leiðréttingar sem þegar hafa verið gerðar þá er verulega þrengt að jafnrétti til náms og ekki síst hreinlega milli landshluta. Það er nefnilega svo einkennilegt á hinu háa Alþingi þar sem sitja menn úr öllum kjördæmum að það er eins og landsbyggðarhlutinn gleymist gjarnan. Og sannleikurinn er sá að segja má að það hafi verið jafnrétti til háskólanáms milli landshluta en því fer svo fjarri varðandi menntaskólanámið eða fjölbrautanám þar sem fólk hefur verið langt frá því að sitja við sama borð og fólk sem getur haft börnin heima meðan á námi stendur. Ég hef margsinnis tekið upp í þinginu hver kostnaður það er að hafa börn í heimavist í öðrum byggðarlögum og þarf ekki um það að tala. Þar er verulegur skortur á jafnrétti og hefði kannski verið nær að líta til þess ef hæstv. ráðherra vill reisa sér minnisvarða í þágu mennta og menningar í landinu. Ég held að við hljótum alla vega að vera sammála um það að framtíð þjóðarinnar sé undir því komin að menntun verði efld í landinu, aukið fé lagt til rannsókna og þannig mætti lengi telja.
    Ég átti þess kost í dag t.d. að líta inn á sýningu á kortagerð og ég vildi nú ráðleggja öllum hv. þm. að leggja leið sína á Hótel Sögu þar sem sú sýning fer fram og íslenskir vísindamenn sýna öðrum þjóðum að þeir standa framarlega í slíkri kortagerð ef hið háa Alþingi legði þar fé til sem þarf og ég held að það verði seint metið hvers virði slík kunnátta og þekking er. Við höfum auðvitað fyrir okkur eins og hv. 2. þm. Austurl. minntist áðan á að stórþjóðir eins og Bandaríkin eru að líða fyrir það núna að hafa vanrækt menntunarþáttinn í landi sínu og er svo komið að milli 30--40% námsmanna við bestu háskóla Bandaríkjanna eru útlendingar vegna þess að það hefur láðst að sinna þeirri menntun sem þarf til þess að komast inn í þessa skóla í heimalandinu. Það sem er nefnilega svo skelfilegt er hversu stuttan tíma tekur að eyðileggja menntun í einu landi. Þegar við tölum um kynslóðir erum við ekki að tala um nema eins og 20 ár og það er ákaflega erfitt að leiðrétta skaðann þegar hann er skeður. Ég held því að okkur geti ekki greint á um að við viljum halda því menntunarstigi sem við höfum haft og helst margefla það og auka.

    Það vakna ævinlega spurningar þegar talað er um hvað við þurfum að gera, hvar við þurfum að spara.Við sitjum og gerum fjárlög árlega, ofast samkvæmt einhverjum spádómum, gjarnan Þjóðhagsstofnunar og svo hygg ég að hafi verið þegar fjárlög fyrir árið 1991 voru gerð. Þá var spáð 4--5% versnandi þjóðarhag. Okkur hefur borist í hendur bók sem heitir ,,Þjóðarbúskapurinn, framvindan 1991 og horfur 1992``. Þjóðhagsstofnun. Reykjavík í apríl 1992 og ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upphaf þeirrar bókar:
    ,,Áætlanir um helstu þjóðhagsstærðir á árinu 1991 og efnahagshorfur fyrir þetta ár og næstu árin hafa nú verið endurskoðaðar. Helstu niðurstöður fara hér á eftir:
    Árið 1991 var um margt hagstætt ár. Landsframleiðsla jókst um 1,4% og þjóðartekjur jukust enn meira eða um 2,8% vegna mikils viðskiptakjarabata.``
    Hvað er orðið um fjárlögin sem samin voru í fyrra? Forsendurnar voru augljóslega rangar. Þar af leiðandi voru þetta að sjálfsögðu röng fjárlög og á fundi hv. fjárln. í morgun lagði ég þessa spurningu fram og óskaði eftir að fjárln. Alþingis liti ofan í það hvernig fjárlögin voru gerð fyrir 1991 og samkvæmt hvaða forsendum. Vítin eru til að varast þau og ég leyfi mér að taka með nokkrum fyrirvara þeirri þjóðhagsspá sem liggur að baki fjárlaga fyrir 1992. Auðvitað er ástæða til að horfast í augu við staðreyndir og hengja sig ekki í einhverjar tölur á blaði sem einhver stofnun úti í bæ gefur hinu háa Alþingi, láta telja sér trú um að allt sé að fara norður og niður og menn fyllast skelfingu og skera niður og gjarnan það sem síst skyldi. En maður gæti svo sem spurt sjálfan sig að því hvar kreppan sé? Í sjónvarpi í kvöld var þjóðinni tjáð að Íslendingar skulduðu minnst helstu iðnríkja Evrópu. ( Forsrh.: Ekki Íslendingar, hið opinbera.) Hið opinbera hét það. Það er rétt hjá hæstv. forsrh. Þetta eru alveg nýjar fréttir fyrir mér. Ég veit ekki betur en það hafi verið lesið yfir þjóðinni að við værum svo skuldsett að við ættum okkur aldrei viðreisnar von.
    Ég held að það sé kominn tími til, hæstv. forseti, að menn fari að ræða um þessi mál af einhverri ábyrgð en ekki pólitískum ungæðishætti. Ég verð að lýsa hneykslan minni á setningu sem stendur reyndar nokkru neðar á þessari síðu, ekki af því að mér sé málið sérlega skylt eða telji ástæðu til þess að taka það til mín. En að Þjóðhagsstofnun skuli setja eftirfarandi setningu á blað jaðrar náttúrlega við að maður eigi að biðja um opinbera rannsókn. En það er svo, með leyfi forseta:
    ,,Tvöfalt meiri halli varð á viðskiptum við útlönd á árinu 1991 en árið áður. Þetta stafaði einkum af`` --- og ég bið menn að hlýða á mál mitt, --- ,,þetta stafaði einkum af slaka í hagstjórn í aðdraganda kosninganna til Alþingis í apríl í fyrra.``
    Gera menn sér grein fyrir hvað þetta þýðir? Það er beinlínis verið að segja að ráðuneyti landsins og þáv. hæstv. ráðherrar séu hreinlega glæpamenn, óábyrgir glæpamenn. Þetta getur ekki þýtt neitt annað. Hvers lags hegðun er þetta? Ég bara spyr. En að þessu mun verða komið síðar. Aldrei dytti mér í hug að bera annað eins á núv. hæstv. ráðherra þó oft hafi borið á slaka í hagstjórn en ekki endilega í aðdraganda kosninga. Ég mundi ekki einu sinni þora að ætla mönnum slíkt. Einhver takmörk hljóta að vera á fullyrðingum fólks og að viðskiptahallinn hafi orðið tvöfalt verri vegna aðdraganda kosninga, það er hreint með ólíkindum að halda öðru eins og þessu fram. Menn eru heldur ekkert að vanda sig mjög og geta þess að bókfærslu ríkissjóðs var gerbreytt og ýmislegt tekið inn í sem skuldir sem aldrei hefur verið reiknað sem skuldir áður eins og skuldbindingar til margra ára, lífeyrissjóðsábyrgðir og annað slíkt. Þetta er því með hreinum ólíkindum og er hreinlega ekki hægt að sætta sig við að vera kjörinn alþingismaður og finna fyrir einhverri ábyrgð vegna þess og láta svo hvað eftir annað segja sér ósatt um þjóðarhag. Það hefur verið gert svo oft og eins og ég hef þegar rakið er auðvitað ekki hægt að sætta sig við það. Að mínu viti hefur fjárveitinganefnd í gegnum árin verið eins og hlýðinn kjölturakki gagnvart yfirlýsingum og fullyrðingum misviturra hagfræðinga sem síðan urðu að éta allt ofan í sig aftur og enginn tók eftir því. En þeir sem hafa enn þá ofurlítið skammtímaminni hnjóta auðvitað um yfirlýsingar um góðærið 1991. Mér hefur ekki verið sagt fyrr að það hafi verið sérstaklega hagstætt ár. Nú veit ég það ef ég á að taka mark á Þjóðhagsstofnun.
    Ef hæstv. menntmrh. þæði aðstoð t.d. mína þá veit ég um nokkrar matarholur þar sem ég gæti fundið verulegt fjármagn sem gæti bjargað Lánasjóði ísl. námsmanna til langs tíma. Það er bara ósköp einfaldlega með því að sækja opinbert fé þar sem það gerir ekkert gagn og væri betur komið annars staðar. Mér fyndist t.d. Seðlabanki Íslands geta að skaðlausu stöðvað innkaup bóka í hið glæsilega bókasafn Seðlabankans sem fæstir hafa aðgang að en hefur verið hálfdrættingur á við háskólabókasafn í gegnum árin um kaup á dýrmætum bókum. Það mætti hvíla þetta í nokkur ár. Þá mætti selja eða þó ekki væri nema hætta að kaupa málverk til þess að finna fjármunum og arði Seðlabankans stað. Ég held að þarna væri umtalsverða fjármuni að finna og þeir eru víðar. Við erum víst öll orðin þreytt á að biðja þá sem mesta fjármuni eiga í þessu landi að greiða skatta sína og skyldur við þjóðfélagið því að það trúir því víst ekki nokkur maður lengur þannig að ég skal ekki vera að stinga upp á því. Það er einnig afskaplega ófrumlegt. En ýmsar hugmyndir og frumlegri ætti ég hæstv. ráðherra til handa ef hann vildi leyfa okkur sem erum í stjórnarandstöðu og þó við séum í stjórnarandstöðu að hjálpa sér við að leysa þennan vanda.
    Ég get alveg upplýst hæstv. ríkisstjórn ef henni tekst --- því lofa ég ekki, ég þori það ekki --- að þvinga þetta leiða frv. gegnum hið háa Alþingi þá verður ekki lengi friður um þau lög. Þess vegna held ég að það væri svo viturlegt að setjast niður og kalla til ráðslags við sig þá sem best þekkja til þessara mála, bæði úr fjármálaheiminum, úr Háskóla Íslands, úr þeim skólum þar sem nemendur sitja sem njóta

námslána og til námsmanna sjálfra og reyna að finna lausn á þessum atriðum sem ég hef minnst á.
    Mikið skelfing væri nú ánægjuleg nýlunda ef hæstv. ráðherrar tækju þeim rökum sem hafa verið borin fram og skildu í fullri vinsemd að þetta má gera betur og það er auðvitað það sem við erum öll að reyna að gera. Ég bið menn lengstra orða að reyna að finna betri lausn á þessu en þetta frv. gerir ráð fyrir og þá finnst mér sérstaklega þessi tvö atriði, vaxtatakan og lánagreiðslurnar eftir á, vera þau atriði sem ómögulegt er að sætta sig við.
    Hvernig heldur hæstv. menntmrh. að ástandið verði í haust þegar enginn námsmaður fær námslán fyrr en eftir jól? Þetta getur bara ekki gengið. Þetta er hreint útilokað og ég held að hæstv. ráðherra hljóti að vita það. Eigum við ekki öll að setjast niður og reyna að finna betri aðferðir til þess að tryggja afkomu sjóðsins, bæði nú og síðar? Ég held það sé farsælla en að berja hausnum við steininn í trássi við guð og menn og halda því til streitu sem er næstum því örugglega óframkvæmanlegt.
    Auðvitað er þegar viðurkennt að lánasjóðurinn kemur til með að bera t.d. ábyrgð á skólagjöldum til Háskóla Íslands. Það er svo sem búið að viðurkenna það meira og minna að auðvitað verður að hækka lánin til samræmis við það. Jú, við græðum á því að þetta er endurgreiðsluskylt, en þetta er auðvitað að taka úr einni hendinni og setja í aðra og í raun og veru án þess að nokkur græði neitt á því. Það er auðvitað líka ljóst og hefur þegar verið viðurkennt að vaxtagreiðslur námsmanna þangað til þeir fá námslán á hverri önn, verða auðvitað greiddar líka með láni úr sjóðnum. Halda menn nú að þetta bjargi miklu? Ég stórefast um það.
    Það sem hefur líka gengið hálfilla að fá í allt þetta mál eru útreikningar sem sanna okkur virkilega að verið sé að vinna að því að tryggja sjóðinn til frambúðar. Ég hef ekki enn þá séð neinar þær tölur sem sannfæra mig um það. Aldeilis ekki nokkrar tölur um það. Áreiðanlega eru til betri reiknimeistarar en þeir sem hér hafa komið að máli og væri ráð að ráðgast við þá líka því hér er um svo alvarlegt mál að ræða að það er ábyrgðarhluti fyrir Alþingi allt að grandskoða þetta mál ekki í kjölinn áður en því verður hleypt út úr þinginu.
    Það er sorglegt til þess að vita að það unga fólk sem hefur bæst í hóp okkar hv. þm. í síðustu kosningum, sem er undantekningarlítið með próf úr háskólum hér heima og erlendis og hefur að sjálfsögðu notið meira og minna lána úr Lánasjóði ísl. námsmanna, skuli láta sér fátt um finnast. Það hefur ekki fyrir því að hlýða á umræður, lætur ekki sjá sig í þingsölum, hvorki í þessu máli né svo sem öðrum. En einhvern veginn fyndist manni að þetta fólk, sem er búið að koma sér vel fyrir og hefur notið aðstoðar Lánasjóðs ísl. námsmanna sem við sem erum ofurlítið eldri áttum ekki kost á, ætti að telja það skyldu sína við þjóðina sem fjármagnaði nám þess og það unga fólk sem er að leggja út í nám í dag að sitja hér og taka þátt í þessari vinnu. Það er með hreinum ólíkindum. Sú var tíðin að á hinu háa Alþingi voru gamlir þingmenn sem voru beinlínis á móti Lánasjóði ísl. námsmanna og sögðu bara sem svo: Ég held þetta fólk geti unnið fyrir sér eins og það gerði í gamla daga --- og gleymdu því að það gerðu það afar fáir. Ég get skilið sjónarmið slíks fólks. En það unga fólk sem hefur fyllt þingsalinn --- eða hefði átt að gera það samkvæmt kjöri sínu --- skuli láta sér fátt um finnast, finnst mér með hreinum ólíkindum. Ja, eiginhagsmunasemi hefði það einhvern tímann verið kallað í mínu byggðarlagi.
    Hæstv. forseti. Það er mikið á þá fáu þingmenn lagt sem hafa áhuga á þessu máli og nú nálgast klukkan tólf á miðnætti. Ég hef ekki hugsað mér að segja miklu meira um þetta mál að sinni en ég ítreka og endurtek að ég skora á hæstv. menntmrh. og ríkisstjórnina alla, --- ég tala nú ekki um hæstv. ríkisstjórnarmenn Alþfl., hvar er hann? --- að setjast niður og reyna að finna betri lausn en þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er erfitt að ná tali af þeim hv. þm. Alþfl. og hæstv. ráðherrum. Hæstv. forseti, ég sný baki við honum, en hann situr hér og skilar þá vonandi til þingflokks síns því sem ég er að segja. En hvernig geta mál þróast?
    Ég hef setið næstum jafnlengi á hinu háa Alþingi og hæstv. félmrh. Jafnan átt við hana hina bestu samvinnu um þau mál sem okkur eru báðum hjartfólgin, hvort sem hefur verið í félagsmálum, heilbrigðismálum, menntamálum, hverju öðru. Ég vildi að hún sæti hér svo að ég gæti spurt hana hvort það er virkilega vilji hæstv. félmrh. að skerða kjör íslenskra námsmanna. Ég yrði mjög hissa ef það væri markmið hennar. En ég veit það ekki, það er sagt að menn dragi dám af sínum sessunaut og svo kann að vera að hæstv. félmrh. hafi orðið fyrir þeirri hremmingu, en hv. 11. þm. Reykv., Finnur Ingólfsson, bendir á auðan stól hv. þm. Árna Johnsens og hristir höfuðið og telur ekki að hann hafi dregið dám af sínum sessunaut þannig að það er sjálfsagt eitthvað misjafnt. En ég vildi heyra hæstv. félmrh. svara mér því játandi að hún sé hlynnt þessum breytingum á Lánasjóði ísl. námsmanna. Ég trúi því ekki.
    Ég vil biðja hæstv. menntmrh. að skila því til formanns sjóðstjórnar að vanda sig betur þegar hann á orðastað við þjóðina um málefni námsmanna. Ég held að sá hugur sem fólst í máli hans í hádegisfréttum í dag hafi ekki verkað traustvekjandi fyrir þá sem til sjóðsins þurfa að leita. Hingað til hafa námsmenn, og allt síðan lögin frá 1982 voru sett, að mér hefur virst, borið heldur hlýjan hug og þakklátan til sjóðsins enda reyndum við sem í þeirri nefnd sátum að vanda okkar verk með aðstoð hinna ágætustu manna. Ég vil benda á ágætan reiknimeistara sem var okkur afar hjálplegur sem var prófessor Þorsteinn Vilhjálmsson. Það hefði ekki sakað að ræða þessi mál dálítið við hann ásamt með öðrum snillingum í reiknikúnst sem ráðuneytin og hæstv. menntmrh. hafa leitað til.
    Ég vona því að þessari umræðu ljúki ekki á þessum sólarhring. Ég vona að fallist verði á að setjast niður og reyna til þrautar að losna við þessi tvö atriði og þegar málið er komið á þetta stig skal ég vera tilbúin til að líta fram hjá öðrum atriðum. En vaxtatakan og eftirágreiðslan eru ekki ásættanlegar. Það er alveg útilokað að bjóða námsmönnum upp á slíkt.
    Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hygg að ég hafi ekki í þingveru minni talað lengur í nokkru máli, en það er einfaldlega vegna þess að mér finnst þetta mál slíkt undirstöðuatriði um velferð þjóðar okkar um framtíð alla að ég hlýt að eyða þeim tíma sem þarf til að berjast gegn því að þetta frv. fari í gegnum þingið óbreytt.