Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 01:06:50 (5942)


     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Rétt er að það komi fram að þegar þetta mál var rætt í morgun á fundi þingflokksformanna þá gerði ég strax athugasemd við þær hugmyndir sem þá voru uppi um að umræðunni skyldi ljúka á miðnætti. Ég lagði ríka áherslu á að umræðunni yrði haldið áfram þangað til málinu lyki. Ég hef ekki fallist á neinar breytingar á því fyrir hönd þingflokks okkar og ég hef haldið þeirri kröfu til streitu og gerði það við forseta þegar við hittumst upp úr hálftólf. Að vísu urðu smámistök í því fundahaldi þannig að formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar komu þar að á undan okkur formönnum stjórnarþingflokkanna en ég kannast við það að þeir hafi fallist á það fyrir sitt leyti. Mér var tjáð það að þeir féllust á að það væri verið hér til klukkan eitt, en það hefur ekki verið gert neitt allsherjarsamkomulag um það. Eftir því sem mér er tjáð af forseta er aðeins einn þingmaður á mælendaskrá og ef vilji væri til þess að ljúka þessari umræðu ætti það ekki að vera neitt mál. Það er því eitthvað annað sem vakir fyrir mönnum hér en að greiða fyrir þingstörfum eða ljúka þessu máli og koma því til næstu umræðu.