Lánasjóður íslenskra námsmanna

133. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 01:10:25 (5944)


     Frsm. minni hluta menntmn. ( Hjörleifur Guttormsson) (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það ber nokkuð nýrra við ef forsetadæmið ætlar ekki að standa við gert samkomulag við stjórnarandstöðuna. Ég verð að lýsa mikilli undrun yfir því að það eigi að breyta frá því sem hefur verið sæmileg regla að orð standi sem fram hafa farið á fundum og hafa verið staðfest af formönnum þingflokka eða þeim sem gegna störfum þeirra. Þetta er auðvitað ekki vegna þess að málið sé ekki umræðu vert áfram. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra eigi eftir að tala í málinu og margir sem þurfa kannski að mæla eitthvað eftir ræðu hans. Ég held það sé vafasamt að draga einhverjar ályktanir af því að það sé einn á mælendaskrá núna. Það hefur verið sígandi mælendaskrá í málinu í allan dag og mönnum er ljóst að margt er ósagt í málinu og ég held að forsetar gangi þess ekki duldir að þetta mál er ekki útrætt við 2. umr. málsins.
    En það var ekki erindi mitt, heldur að hvetja til þess að menn standi við það sem um hefur verið samið við forseta þingsins. Ég held að það væri ráð fyrir þann sem gegnir störfum fyrir aðalforseta að kveðja til þann sem hefur staðið að þessu samkomulagi og að látið verði reyna á það. En boðleiðirnar eru orðnar harla einkennilegar í hinni mjög svo samhentu forustu þingsins ef menn átta sig ekki á því frá hverju hefur verið gengið og að formaður þingflokks Sjálfstfl. þurfi að koma til þess að lýsa andstöðu við það sem forseti hefur samið um við formenn stjórnarandstöðuþingflokkanna. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvers vegna formenn stjórnarflokkanna voru ekki þátttakendur í því að vera viðstaddir eins og ætla mátti af orðum hv. 8. þm. Reykv.
    En að öðru leyti er mér ekkert að vanbúnaði að ræða málið frekar þegar næst verður boðað til fundar þannig að þá þarf enginn að óttast að umræðuefni sé þrotið í málinu.