Prentun EES-samningsins

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 13:46:00 (5952)


     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki bara verið að tala um þingskjöl. Hér er verið að tala um það að hv. alþm. eigi kost á því þegar í stað að kynna sér gögn þessa máls. Þessar bækur eru 1 / 5 af því sem alþingismenn þurfa að kynna sér áður en þetta mál verður afgreitt eins og það hefur verið lagt fyrir annars staðar. Ég hefði talið að löngu áður en málið kemur til meðferðar þurfi menn að fá gögnin í handriti til að geta kynnt sér þau. Þetta vil ég segja í fyrsta lagi.
    Í öðru lagi tel ég að forsætisnefndin verði sjálf og sjálfstætt að hafa frumkvæði að því að koma þessum málum til þingmanna og skapa þeim og þingflokkunum vinnuaðstöðu til að plægja þessa pappíra. Í þriðja lagi þarf að skapa aðstæður til að almenningur geti leitað til Alþingis Íslendinga um þessi skjöl en þurfi ekki að fara krókaleiðir í gegnum lögreglustöðina inn í utanrrn. til að slíta út þessa pappíra. Hér snýst málið með öðrum orðum af hálfu hv. 4. þm. Austurl. ekki bara um það sem utanrrn. kann að vilja leggja fyrir. Þetta snýst í raun og veru um reisn og virðingu og sjálfstæði Alþingis við meðhöndlun þessa máls sem talið hefur verið eitt hið allra stærsta mál sem Alþingi Íslendinga hefur fengið til meðferðar.