Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 15:02:35 (5960)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni núna á þessum skamma tíma svar ráðherra við fyrirspurnum mínum fyrr í umræðunni um vextina. Ég ætla að gera það hér á eftir í umræðu.
    Ég ætla þó að bera fram tvær spurningar. Sú fyrri er þannig: Haldist verðbólga niðri, við skulum segja í innan við 10% á næstu árum, eða þann tíma sem núv. hæstv. menntmrh. er í stóli menntmrh.,

getum við þá treyst því að vextir fari ekki upp fyrir 1%?
    Í öðru lagi: Er öruggt að þau skuldabréf sem námsmenn munu nú skrifa upp á, þegar þetta frv. verður orðið að lögum, og eru með um 1% vexti, að í þeim verði ekki ákvæði um að ef vextir breytist þá verði hægt að breyta vöxtum á þessum skuldabréfum? Það er afskaplega mikilvægt að fá svör við þessu þannig að ekki verði leikinn sami leikurinn og leikinn hefur verið hjá Húsnæðisstofnun ríkisins á skuldabréfum hjá Byggingarsjóði ríkisins.