Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 19:28:44 (5978)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég er að vona að mér dugi tvær mínútur til að svara þessari einnar og hálfrar klukkustundar löngu ræðu. Hv. þm. ræddi um ákvæðið um vextina og taldi það ósæmilegan málflutning hjá mér að segja að borð þyrfti að vera fyrir báru upp að 3% mörkum og spurði í hvers konar hugarheimi ég hrærðist í. Ég mótmæli því að hér sé um ósæmilegan málflutning að ræða. Í frv. var upphaflega ákvæði um 3% vexti. Í meðförum menntmn. og með mínu samþykki og stjórnarflokkanna var því ákvæði breytt í ,,allt að 3%``. Þessar ábendingar um breytingar komu m.a. fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni við 1. umr. um þetta mál. Áður en málið var afgreitt úr nefnd samþykkti ríkisstjórnin að minni tillögu að vextir skyldu ákveðnir 1%. Það var gagnrýnt að ríkisstjórnin skyldi gefa út þá tilkynningu og nú er gagnrýnt að vaxtaákvæðið skuli ekki fest við 1%. Það er þessi málflutningur sem mér finnst vera ósæmilegur.
    Hv. þm. spurði hvernig ég sjái fyrir mér útfærslu á að vaxtakostnaður, sem bætt er við lánsupphæðina, verði greiddur. Sú endurgreiðsla verður auðvitað með sama hætti og lánið sjálft. Það er ekki sæmilegur málflutningur að gagnrýna það nú þegar ég upplýsi að vaxtakostnaði verði bætt við lánið sem greitt er út í febrúar, kostnaði vegna láns sem námsmaður kann að þurfa að taka meðan hann bíður eftir láninu frá lánasjóðnum. Hér er ég að upplýsa hvað þegar hefur verið rætt í stjórn lánasjóðsins til hagsbóta fyrir námsmenn en þá er brugðist við með neikvæðum hætti.
    Hv. þm. gagnrýndi það líka að ég hefði sagt að ef till. til rökst. dagskrár verði samþykkt eða frv. ekki samþykkt þá væri ég með hótanir um að skerða þyrfti grunnlán um allt að 30%. Ég sagði þetta vegna þess að ég reikna með að við verðum að fara að fjárlögum. Ég veit að það er nokkuð sem ýmsum í stjórnarandstöðunni þykir einkennilegt að við ætlum okkur að gera en sú er ástæðan fyrir því að ég hef sagt þetta.