Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 19:31:09 (5979)


     Frsm. minni hluta menntmn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það verður ekkert auðvelt fyrir hæstv. menntmrh. að komast úr þeirri snöru sem hann er í í sambandi við vaxtamálin. Á meðan hæstv. ráðherra fæst ekki til þess að lögfesta 1% vexti sem hámark þá hafa viðskiptaaðilar lánasjóðsins ekki hugmynd um hvaða kjör þeim eru búin eða á hvaða kjörum þau námslán bjóðast sem þeir eru að taka. Það er verið að láta liggja að því að þau gætu orðið 1% en sú stefna ráðherrans sem hann boðar, að halda fast við breytilega vexti, allt að 3%, segir okkur það auðvitað að hér liggur fiskur undir steini hjá ríkisstjórninni og hún vill hafa möguleika á því að hækka þessa vexti eftir að hafa fengið þetta frv. samþykkt eða á sínum starfstíma, því það er auðvitað alveg augljóst að höfnun ráðherrans á því að miða við þá stefnu sem hann er þó að láta okkur halda að verði stefna ríkisstjórnarinnar, er í algjörri mótsögn við það að vilja ekki lögbinda 1% hámarkið.