Lánasjóður íslenskra námsmanna

134. fundur
Miðvikudaginn 06. maí 1992, kl. 19:33:36 (5981)


     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Í upphafi míns máls ætla ég að gera að umtalsefni svör sem hæstv. menntmrh. gaf áðan við umræðuna. En áður en ég byrja vil ég þakka ráðherranum fyrir þau svör. Þau skýrðu auðvitað margt sem um hafði verið spurt. Þau skýrðu það einnig að það eru kannski meiri hættur í þessu máli en við gerðum okkur grein fyrir í upphafi umræðunnar.
    Það kom fram í máli hv. þm. Páls Péturssonar að þeir væru miklir vinir, hann og hæstv. menntmrh., og hv. þm. Páll Pétursson ávarpar menntmrh. aldrei öðruvísi en ,,menntamálaráðherrann, vinur minn``. En það skýrðist þó í þessari umræðu að þeir töldu hvor annan á vissum villigötum. Ég ætla ekki að leggja mat á það en ég hef þá trú að hæstv. menntmrh. vilji vel, en verð þó að segja eins og er að með því frv., sem hann hefur lagt fram sem ég veit auðvitað að er stjórnarfrumvarp, tel ég og er sannfærður um að menntmrh. sé kominn á vissar villigötur, þannig að ég er sannfærður um að í þessu tilfelli sem og kannski svo oft áður þá hefur hv. þm. Páll Pétursson rétt fyrir sér, að síðan hinn góði félagi hans, hæstv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson, kom inn í ríkisstjórnina sé hann kominn á vissar villigötur.
    Hæstv. menntmrh. fullyrti að frv. tryggði jafnrétti til náms og með þeim breytingum sem þar væru boðaðar væri farin eina leiðin sem tryggði áfram jafnrétti til náms. Þetta er rangt að mínu viti. Ég fór yfir það við 1. umr. málsins og einnig í fyrri ræðu minni við 2. umr. og færði að mínu viti rök fyrir því að þetta frv. eykur misrétti milli námsmanna þar sem nú er gert ráð fyrir að stór hluti af því, sem verið hefur meginmarkmið laganna í gegnum tíðina, að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur, er í raun og veru þurrkað út. Þó það sé sagt í brtt. að stjórninni sé heimilt að taka tillit til aðstæðna námsmanna og þar með fjölskylduaðstæðna þá er annað í þessu, eins og t.d. tekjurnar, framfærslukostnaðurinn á námsstað og meðan á námi stendur, hlutir sem beinlínis eru teknir út og er ekki hægt að sjá af þeim gögnum sem liggja fyrir að ætlunin sé að taka tillit til þegar fram líða stundir og framfærsla verður reiknuð. Þó svo að svona hlutir séu settir á blað, eins og að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna þá er það auðvitað ekki krafa og stjórn lánasjóðsins er ekki skylt að gera slíkt og þess vegna eru það aðeins orð á blaði. Það er auðvitað framkvæmdin sem öllu máli skiptir.
    Eitt af þeim markmiðum, sem ríkisstjórnin lagði til grundvallar þegar hún fór af stað með þetta mál, var að koma í veg fyrir að námsmenn tækju sér sjálfkrafa styrki með því að ná þannig til þess hóps sem í gegnum tíðina --- og er rétt og kom fram í máli hæstv. ráðherra við 1. umr. að það er viss hópur námsmanna sem getur sjálfkrafa tekið sér ákveðna styrki eftir að hafa komist yfir ákveðna lánsfjárhæð og

þeir vita fyrir að þeir eru í námi sem mun þegar því er lokið ekki skila þeim mjög háum tekjum. Það mun leiða til þess að menn greiða ekki nema hluta af námsláninu sem þeir hafa fengið til baka þegar komið er yfir ákveðna upphæð. Þetta er auðvitað á vissan hátt misrétti, ég tek undir það og það er kannski vandamál, ég hef margoft sagt það. Þetta er vandamál við lögin í dag, en því miður taka þær breytingar, sem núna er verið að berjast fyrir, ekki á þessu og ég ætla að fá að koma inn á það örlítið síðar í mínu máli.
    Vextirnir mismuna. Það er fullyrðing og ég er sannfærður um að svo er. Ég segi það vegna þess og það kom skýrt fram í máli hæstv. menntmrh. áðan að það er er ætlun ráðherrans, sem ég býst við að hann leggi fyrir stjórn lánasjóðsins, að draga úr tekjutillitinu, þ.e. að gefa námsmönnum möguleika á því að hafa hærri tekjur sem nemur, fyrir lánasjóðinn í heild, eftir því sem menntmrh. sagði áðan, 80 millj. kr. útgjöldin fyrir sjóðinn. Vegna breytts tekjutillits þýddi í kringum 80 millj. kr. ( Menntmrh.: Það var áætluð aukning.) Áætluð aukning. Nú segir það mér í raun og veru ekkert um það hvernig tekjutillitið á að breytast, hver tekjuprósentan á að verða, hver skerðingarprósentan á að verða. Mér sýnist í sjálfu sér þetta ekki há upphæð, 80 millj., þannig að ekki er verið að gera mikla breytingu þarna. Hins vegar er það alveg ljóst að 1% vextir, og þar sagði menntmrh. að við værum sammála, fæla ekki frá. En það þýðir að mínu viti að með þessu er verið að gefa fleiri námsmönnum, námsmönnum, sem búa við góðar aðstæður og hafa ekki þurft á aðstoð lánasjóðsins að halda fram undir þetta, kost á því að koma inn í sjóðinn og taka lán með 1% vöxtum. Það á að hætta að taka tillit til teknanna, það á bara að taka tillit til fjölskylduaðstæðna. Það á ekki að taka tillit til námskostnaðar, það á ekki að taka tillit til framfærslukostnaðar á námsstað. Þetta eru allt saman aðstæður og atriði sem hefur verið tekið tillit til og er tekið út nú en það á að gefa þeim, sem hafa tækifæri til að afla sér talsvert mikilla tekna, kost á að koma inn í sjóðinn. Þetta þýðir auðvitað aukin útgjöld fyrir sjóðinn og þetta þýðir að námsmenn geta núna farið að braska með lánin. Einfaldlega vegna þess að inn í þennan hóp kemur ákveðinn fjöldi námsmanna sem hefur ekki þurft á aðstoð lánasjóðsins að halda fram undir þetta, hefur ekki komist inn vegna þess að þeir búa við góðar aðstæður. Nú kemst þessi hópur inn og getur þess vegna farið að braska og ég segi að braska vegna þess að þeir þurfa ekki að borga nema 1% vexti af þeim lánum sem þeir munu taka, en munu auðvitað fara út á markaðinn og ávaxta með miklu betri kjörum en þeir þurfa að síðan að endurgreiða. Vaxtamunurinn mun verða hreinar tekjur fyrir þessa námsmenn. Þetta tel ég hættulegt og það er þetta sem ég segi að muni mismuna námsmönnum. Í þeim 80 millj. sem er verið að tala um að útgjöldin muni aukast vegna breytts tekjutillits þá er ég alveg sannfærður um að hæstv. menntmrh. hefur ekki reiknað þessi viðbótarútgjöld sjóðsins inn í þegar hann talar um að upphæðin sé 80 millj. kr. Ég spyr: Hefur það verið gert og ef svo er, hve stór hluti af þessum 80 millj. eru áætlaður vegna þessara breytinga? Ef það er kannski einhver verulegur hluti þá er ég alveg sannfærður um það að tekjutillitsbreytingin er mjög lítil í raun og veru og ef hún er mjög lítil þá held ég að þetta hafi kannski sáralítil áhrif og þá er ég í sjálfu sér rólegri en ég var.
    Ráðherrann fullyrti í ræðu sinni að breytingarnar mundu hafa áhrif strax í haust, ef ég skildi hann rétt. Ég held að þarna sé talsverður misskilningur. Þær munu ekki hafa áhrif á greiðslugetu lánasjóðsins, greiðslustreymi lánasjóðsins strax í haust. Þær munu hins vegar strax fara að undirbúa styrkari stöðu sjóðsins í framtíðinni, ég tek undir það, það er alveg ljóst, þær munu gera það. En þær munu ekki hafa nein áhrif á greiðslugetu sjóðsins. Vextirnir skila sér ekki inn í auknum tekjum í haust, það verður ekki fyrr en eftir aldamót. Það verður ekki fyrr en þeir námsmenn sem eru að fá lánin núna fara að endurgreiða þau. Þá fara að koma inn hærri tekjur vegna vaxtanna. Hertar endurgreiðslur skila sér heldur ekki í haust. Þess vegna sýnist mér að nú ætli ríkisstjórnin ekki að snúa af þeirri braut sem fyrri ríkisstjórnir hafa farið, þ.e. að draga úr lántökum sjóðsins. Ég er alveg tilbúinn og sagði það í minni fyrri ræðu, til að axla þá ábyrgð sem Framsfl. ber á því að hafa á undanförnum árum í auknum mæli sent lánasjóðinn út á lánsfjármarkaðinn til þess að afla sér tekna til að geta staðið undir lánveitingum. Það er ábyrgðarhluti. Þá ábyrgð bera allir stjórnmálaflokkarnir, Sjálfstfl., Alþfl. og Alþb. Kvennalistinn hefur ekki gert það af þeirri ástæðu að hann hefur ekki verið í ríkisstjórn. En hins vegar sýnist mér að þessi ríkisstjórn ætli að halda áfram á sömu braut með því núna að senda lánasjóðinn út á lánsfjármarkaðinn í trausti þess að grundvöllurinn sé eitthvað sterkari undir lánasjóðnum nú en hann var.
    Það kom fram í máli hæstv. menntmrh. að stjórnarandstaðan og námsmenn væru sammála um að staða sjóðsins væri góð. Það eru fleiri en stjórnarandstaðan og námsmenn sem eru sammála um að staða lánasjóðsins sé mjög sterk um þessar mundir. Lánasjóðurinn er hins vegar í talsverðum greiðsluerfiðleikum. Ríkisendurskoðun segir í sinni skýrslu og ég ætla að fá að vitna í þá skýrslu, ég hef reyndar vitnað áður á öðrum stað í skýrsluna, en í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu lánasjóðsins frá því í apríl 1991 segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Lánasjóðurinn getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu. Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um síðustu áramót. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu verður útkoman 3 milljarðar kr.``
    Þetta segir auðvitað að staða lánasjóðsins er sterk en hann er í greiðsluerfiðleikum. Það eru ekki bara námsmennirnir og stjórnarandstaðan sem halda slíku fram, það er líka Ríkisendurskoðun og ríkisstjórnin hefur oft viljað taka tillit til þess sem hún hefur sagt og ég treysti henni vel í þessum efnum.

    Við 1. umr. þessa máls spurði ég hæstv. menntmrh. hvort hann væri tilbúinn til að láta kanna hvaða áhrif þetta tvískipta endurgreiðslufyrirkomulag, sem ég lýsti við 1. umr. málsins, hefði á ráðstöfunartekjur og ráðstöfunarfé sjóðsins í hærra endurheimtuhlutfalli og hvað það þýddi í raun og veru fyrir þá sem taka lánin þegar þeir eiga að fara að endurgreiða þau. Svarið frá hæstv. ráðherra áðan var það að fyrir þá sem væru tekjulágir að afloknu námi og ættu að endurgreiða sín lán yrði greiðslubyrðin síðustu 15 árin mjög þung, þegar búið væri að skuldbreyta og jafngreiðslulánin kæmu til. En fyrir þá sem hefðu háar tekjur á síðustu 15 árunum væri greiðslubyrðin mjög lítil. Þetta vissi ég án þess að láta kanna það neitt sérstaklega. Ég var sannfærður um að svona mundi þetta vera. Hins vegar hef ég ekki fengið að sjá útreikninga sem staðfesta hvað þetta þýðir í raun og veru. Ég spurði einn fulltrúa í menntmn. hvort nefndin hefði gengið eftir því við ráðuneytið hvað þetta endurgreiðslufyrirkomulag þýddi. Nefndarmenn í menntmn. hafa ekki fengið að sjá þessa útreikninga. Því vil ég nú spyrja hæstv. menntmrh. hvort slíkir útreikningar séu til í menntmrn. og hvort ekki væri eðlilegt að þeim væri dreift þannig að menn gætu áttað sig á því hvað allar þær tillögur sem fram hefðu komið í þinginu um meðferð málsins og þær breytingar á endurgreiðslunum sem talað hefur verið um þýddu og ég bið hæstv. menntmrh. um að sýna mér þessa útreikninga, þannig að hægt sé að átta sig á hvað þetta í raun og veru hefði þýtt.
    Hins vegar er það alveg ljóst og ég tek undir það með ráðherranum að þetta þýðir auðvitað mjög þunga greiðslubyrði fyrir þá sem hafa lágar tekjur. En þá kemur það til sem ráðherrann hefur hamrað mjög á í þessari umræðu að heimildir eru fyrir sjóðstjórnina til að víkja út af og því ekki að skoða þá þær heimildir í tengslum við þetta eins og það fyrirkomulag sem núna er boðað með þessu frv. vegna þess að frv., eins og það liggur fyrir, nær ekki til þess hóps sem ætlunin var að ná til, þ.e. þeirra sem fá styrkina sjálfkrafa. En þetta tvískipta endurgreiðslufyrirkomulag þýðir að það mun hver einasta króna verða endurgreidd af þeim sem lánaðar eru út, en með þessu og þeim heimildum, sem núna eru boðaðar í frv., væri auðvitað hægt að ganga til móts við þá sem byggju við sérstaklega erfiðar aðstæður þegar þeir ætluðu að fara að endurgreiða lánin sín og þá væri ekki um sjálfkrafa styrki að ræða. Þá væri í raun um beina styrki af hálfu sjóðstjórnarinnar til þessa hóps að ræða en ekki um sjálfkrafa styrktöku eins og nú viðgengst.
    Hæstv. menntmrh. sagði áðan í svari sínu að heimilt væri að taka tillit til fjölskylduaðstæðna og þá á ég við og hæstv. ráðherra hlýtur einnig að eiga við að þar sé um fjölskyldustærð að ræða. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Eru fyrirhugaðar breytingar á úthlutunarreglunum þegar þetta frv. verður orðið að lögum, sem stefnir auðvitað í, á að breyta þeim stuðlum sem notaðir hafa verið eftir því hvort námsmenn búa í eigin húsnæði, eftir því hvort þeir búa í leiguhúsnæði, heima hjá foreldrum, eru í sambúð eða eru með börn á framfæri? Er fyrirhugað að breyta þeim útreikningsstuðlum sem hafa verið notaðir til viðmiðunar á undanförnum árum hjá lánasjóðnum við að meta framfærslu eftir fjölskyldustærð? Ef það er meiningin þá eru að mínu viti mjög alvarlegir hlutir á ferðinni. Ráðherrann skýrði þetta með þeim hætti að það væri verið að koma í veg fyrir að námsmenn leggðust í barneignir. ( Menntmrh.: Ég sagði það ekki.) Ja, ég held að þú hafir, hæstv. ráðherra, viðurkennt það síðar í umræðunni að það hefði verið það a.m.k. sem þú meintir og ég sé að það er auðvitað orðið að stefnu ríkisstjórnarinnar að koma í veg fyrir að fólk leggist í barneignir. Þarna á að taka námsmennina í bólinu. Það er búið að leggja fram frv. á þinginu um að leggja niður Lífeyrissjóð ljósmæðra. Menn menn hafa sjálfsagt metið það þannig að það væri óhætt vegna þessarar stefnu. Það á að loka Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Það er verið að loka fæðingardeildum sjúkrahúsanna um allt land og barnabætur eru skornar niður. ( Gripið fram í: Þetta er augljóst.) Þetta er augljóst. Það verður auðvitað að viðurkennast að ríkisstjórnin getur rekið þessa stefnu þó hún sé vitlaus, en hins vegar bið ég hæstv. ráðherra að íhuga það mjög alvarlega hvort rétt sé að ganga mjög hart fram í þessu við námsmenn og þá sérstaklega að haft verði a.m.k. í huga þegar úthlutunarreglur verða gefnar út að ekki verði hróflað við þessum stuðlum sem notaðir hafa verið til að reikna út framfærsluna.
    Varðandi vextina kom það skýrt fram í andsvari ráðherra að í þessum skuldabréfum, sem námsmenn mundu skrifa undir og gefa út, yrði gert ráð fyrir breytilegum vöxtum. Mér fannst hins vegar það koma nokkuð berlega í ljós að ráðherrann ruglar saman, eins og kannski fleiri, annars vegar verðtryggingunni og hins vegar vöxtunum. Það að hækka vextina þó að verðbólgan fari af stað breytir í sjálfu sér engu og er engin ástæða til. Lánin eru verðtryggð með lánskjaravísitölu og ef verðbólgan fer af stað, sem við skulum vona að hún geri ekki, tryggir hún auðvitað þá fjármuni sem lánasjóðurinn lánar út. Vextirnir þurfa ekkert að hækka við það og ekkert samhengi þar á milli nema menn ætli að tryggja enn þá betur stöðu sjóðsins með hærri vöxtum eins og heimild er fyrir í frv. og að fara með þá allt upp í 3%. Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt og skorað á ráðherrann vil ég taka undir þær áskoranir hvort ekki væri rétt að breyta þessu ákvæði frv. þannig að þetta ,,allt að`` færi út en heimildin væri fyrir 1% vöxtum. Eða taka það skýrt fram að vextirnir skyldu aldrei vera hærri en 1%.
    Í þessu máli fer auðvitað að draga til tíðinda og þá ætla ég að koma að því sem ég vildi segja nú við þessa umræðu. Ég hef farið yfir flest af því sem mér fannst athugavert í máli ráðherra við umræðuna áðan en auðvitað það dregur að tíðindum í þessu máli og stjórnarandstaðan ætlar í sjálfu sér ekkert að þvælast fyrir því að þetta frv. komist í gegnum þingið enda getur hún ekki gert það. Ríkisstjórnin mun auðvitað koma fram sínum vilja í þessum efnum en það er hins vegar alveg ljóst að með frv. er verið að gera grundvallarbreytingu á þeirri námsaðstoð og þeim námsstyrkjum sem íslenskir námsmenn hafa búið við á undanförnum árum. Það er með öðrum orðum verið að gera grundvallarbreytingu á Lánasjóði ísl. námsmanna.
    Það er ekkert við því að segja þó þessir tveir flokkar, Sjálfstfl. og Alþfl., ætli að standa að slíkum grundvallarbreytingum. Sjálfstfl. hefur reynt þetta ítrekað í gegnum tíðina í fyrri ríkisstjórnum, í ríkisstjórninni 1983--1987 og í ríkisstjórninni frá 1987--1988. Þeim hefur hins vegar ekki tekist þetta vegna þess að þeir hafa verið í stjórnarsamstarfi með Framsfl. og hann hefur talið það skyldu sína í því stjórnarsamstarfi að standa gegn árásum Sjálfstfl. á þetta velferðarkerfi námsmanna. Nú er hins vegar kominn til samstarfs við Sjálfstfl. flokkur sem heitir Alþýðuflokkurinn --- Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Og þá er öldin allt önnur. Sá flokkur er svo ístöðulítill í þessu stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. að honum er algjörlega sagt þar fyrir verkum. Hann er í raun verkfæri í höndum þessara manna og svo metnaðarlaus fyrir hönd þess fólks og þeirra námsmanna sem kusu Alþfl. í síðustu kosningum, að hann er algjörlega að bregðast þeim. Hann ætlar að standa að því hér í þinginu með sjálfstæðismönnum að auka misrétti milli námsmanna, að hætta að taka tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur og að setja vexti á námslánin og brjóta þannig það samkomulag sem verið hefur milli allra stjórnmálaflokka um að þessi lán ættu ekki að bera vexti og með því að herða svo endurgreiðslurnar eins og raun ber vitni og vísa þannig vanda lánasjóðsins inn í framtíðina með því að þeir sem fara að greiða lánin upp úr aldamótum geta ekki staðið undir þeim endurgreiðslum nema að hluta til, nema að kjör þeirra verði bætt. Þannig er verið að vísa þessu yfir á auknar kjarakröfur í framtíðinni. Gagnvart þeim námsmönnum, sem studdu Alþfl. í síðustu kosningum, er verið að brjóta öll þau prinsipp og þau grundvallaratriði sem námsmenn hafa staðið í trú á að samstaða væri um milli allra stjórnmálaflokka. Þeir hafa staðið í þeirri trú í mörgum undangengnum kosningum að það skipti í raun ekki máli hvaða stjórnmálaflokk þeir kysu hverju sinni a.m.k. ekki hvað lánasjóðinn snertir. Og það var rakið ítarlega í gær í þessari umræðu og lesið úr stefnuskrám Alþfl. og Sjálfstfl. fyrir kosningar sem ég ætla ekki að fara að gera nú. Þar voru hvergi boðaðar þær grundvallarbreytingar sem núna er verið að gera á lánasjóðnum. Það var í þessari trú sem stór hluti námsmanna studdi Alþfl. í síðustu kosningum. Þeir voru hins vegar ekki eins vissir um Sjálfstfl., ekki síst í ljósi reynslunnar af því hvernig þetta var og hvernig þetta hefur verið á undanförnum árum þegar Sjálfstfl. hefur átt aðild að ríkisstjórn. En núna er Alþfl. svo ístöðulítill í stjórnarsamstarfinu að hann ætlar að brjóta öll þessi grundvallaratriði og bregðast þannig námsmönnum.
    Í þeirri umræðu sem á sér stað um stólaskiptin í ríkisstjórninni hefur því verið haldið fram að fyrir dyrum standi verulegar breytingar á ríkisstjórninni. Sú umræða kemur þó aðallega úr herbúðum Alþfl. Það kom til tals í þessari umræðu að til greina kæmi að formaður Alþfl., núv. utanrrh., yrði menntmrh. Þá fórnuðu þingmenn höndum og sögðu nei, þetta er miklu skárra sem nú er og ég tek alveg undir það. En það heyrist í þessari umræðu um stólaskiptin að hæstv. núv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson sé alls ekki nógu harður menntamrh. Hann gangi alls ekki nógu hart fram í að skera niður og því þurfi að setja hann út úr ríkisstjórninni og setja annan mann í hans stað. En þegar menn skoða málið er það þá með þessum hætti? Ég segi a.m.k. nei. Því að fyrir utan þetta mál, sem hér er á ferðinni, sem ég tel vera mjög alvarlegt, þetta er kannski eina málið þar sem ég tel að hæstv. menntmrh. sé á villigötum þó svo að kannski deila megi um margar embættismannaskipanir hans að undanförnu, þá er það alveg ljóst að völd og áhrif núv. menntmrh. eru meiri en nokkurs annars ráðherra í ríkisstjórninni vegna þess að hann segir Alþfl. algerlega fyrir verkum. Ef það á að kjósa mann í einhverja nefnd á vegum Alþfl. þá segir ráðherrann, nei, ekki þennan, það á að vera einhver annar. Í lánasjóðsfrv. segir hann: Annaðhvort styðjið þið þetta eða þið styðjir það ekki.
    Þannig mætti taka fleiri mál. Eitt dæmi um þetta er að á flokksstjórnarfundi Alþfl. var samþykkt áskorun til þingflokksins og undir hana rituðu, fyrir hönd Sambands ungara jafnaðarmanna, ungir jafnaðarmenn sem núna eru í háskólanum og taka þátt í stjórnmálabaráttu háskólans, eru þar í forsvari fyrir þá fylkingu sem vann stórsigur í síðustu stúdentaráðskosningum og þeir bera þetta fram á flokksstjórnarfundi Alþfl. og fá ályktunina samþykkta. Með leyfi forseta ætla ég að vitna hér aðeins í þá ályktun:
    ,,Flokksstjórn skorar á þingflokk Alþfl. að beita sér fyrir eftirfarandi breytingum á frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna. Burt falli 1. mgr. 6. gr.: ,,Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskylda skólasókn og námsárangur.`` Í stað þess komi: Fyrsta námsaðstoð skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskylda skólasókn og námsárangur á yfirstandandi skólaári.``
    Þetta er samþykkt af flokksþingi Alþfl. þar sem allur þingflokkur Alþfl. er. Síðan er þetta tekið fyrir á þingflokksfundi Alþfl. og þá er þessu bara stungið undir stól. Menn vilja í dag ekkert kannast við þessa samþykkt. Þannig að af þessu og öðru sem nú er að gerast á ýmsum sviðum innan Alþfl. sést að það er í raun og veru hæstv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson sem stjórnar Alþfl. Svo eru menn að tala um að það sé nauðsynlegt að skipta um stóla í ríkisstjórninni. Ég held að menn ættu að hafa þetta í huga þegar þeir fara að velta fyrir sér þeim breytingum sem þar eiga að verða. Það mætti fækka stólunum um fimm og láta hæstv. menntmrh. taka við ráðuneytum Alþfl. Þeir eru í rauninni ekkert annað en strengjabrúður í höndum þeirra sjálfstæðismanna. Ég veit hins vegar að það væri fullmikið fyrir hæstv. ráðherra að taka þessi ráðuneyti að sér. Þó hann sé afburðamaður á mörgum sviðum þá yrði vinnudagurinn sjálfsagt langur. Þannig að það mætti hugsanlega skipta einhverjum af þessum ráðuneytum milli hinna ráðherra Sjálfstfl. En stefnubreyting yrði engin hjá þessari ríkisstjórn þó svo Alþfl. færi þar út.
    Auðvitað má um margt deila og ég hef, eins og vinur minn hv. þm. Páll Pétursson, sífellt verið

að hæla hæstv. menntmrh. fyrir allt annað en það frv. sem hér er þó svo ég telji að honum hafi kannski orðið á nokkur mistök þegar hann skipaði nú fyrir stuttu nýjan þjóðminjavörð. Ég hefði talið að það hefði verið nær fyrir hæstv. menntmrh. að bjóða núv. hæstv. forsrh. það embætti af þeirri ástæðu að ég held að enginn maður á Íslandi hafi orðið aðra eins reynslu og hæstv. núv. forsrh. af að grúska í fortíðinni. Þannig má segja að enginn maður hefði verið betur að þessu embætti kominn en hæstv. núv. forsrh. (Gripið fram í.)
    Það er hins vegar dálítið merkilegt að menn skuli geta talað hér klukkutíma eftir klukkutíma um þetta mikilvæga mál sem lánasjóðurinn er og að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður þingflokks Alþfl., skuli ekki láta sjá sig í þingsölum. Eftir því sem við tölum lengur og því lengur sem við höldum honum fyrir utan þingsalinn þeim mun betra kannski. Þess vegna er kannski full ástæða til að leggja nokkuð á sig í þeirri umræðu sem fer fram um þetta lánasjóðsmál. En það hefði auðvitað verið gaman að heyra frá þeim ágæta þingmanni hvernig þessi áskorun frá ungum jafnaðarmönnum og frá flokksstjórn Alþfl. var meðhöndluð í þingflokknum. Það hefði einnig verið gaman að heyra afstöðu hans til þessa máls sem hér er til umræðu eftir að hafa orðið vitni að því að sá ágæti maður var um tíma formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands og hélt sína jómfrúarræðu á þingpöllunum, varinn hundrað námsmönnum þannig að þingverðirnir komust ekki til að ná í hann. En núna þegar Lánasjóður ísl. námsmanna er til umræðu lætur hann ekki sjá sig og sinnir ekki þar með sínum þinglegu skyldum að sitja í þingsalnum og a.m.k. hlusta á umræðuna sem hérna fer fram.
    Það er alveg ljóst eins og ég sagði áðan að stjórnarandstaðan kemur í sjálfu sér ekki í veg fyrir að þetta mál verði samþykkt frá hinu háa Alþingi. Og það er ekkert við því að segja þó að þessir tveir stjórnmálaflokkar, Alþfl. og Sjáflstfl., vilji ná fram þessari grundvallarbreytingu á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er þó eitt sem menn verða að sætta sig við að innan tíðar mun þetta mál verða að lögum og sú breyting, sem menn stefna að, mun ná fram að ganga, því miður. En ég vil þó biðja, eins og margir hv. þm. sem hér hafa talað, hæstv. menntmrh. að íhuga það gaumgæfilega hvort ekki sé hægt að gera einhverja breytingu á eftirágreiðslu námslánanna. Vegna þess að hún ein og sér tengist ekki þeim grundvallarbreytingum sem er verið að gera á lánasjóðsfyrirkomulaginu. Hún ein og sér er að mínu viti aðför að námsmönnum og til þess eins að spara ríkissjóði í kringum 1 milljarð kr. í eitt skipti en þegar fram líða stundir mun hún ekkert hafa með fjárhag lánasjóðsins og þann grundvöll, sem þar á að leggja með þessu frv., að gera.
    Virðulegur forseti. Nú er klukkan tíu mínútur yfir átta og eftir því sem mér var tjáð hefur það staðið til að vera ekki með þingfund lengur en til klukkan átta í kvöld. Ég vildi því gjarnan fræðast um það hjá hæstv. forseta hvaða hugmyndir hann hefur um áframhaldandi þingstarf. Ég á talsvert mikið eftir af minni ræðu enn. ( Forseti: Forseti hafði hugsað sér að ljúka þessum fundi klukkan átta en fannst ekki óeðlilegt að sýna ofurlitla biðlund og leyfa hv. þm. að ljúka sinni ræðu ef hann var kominn á lokapunktinn. En þar sem hann hefur nú upplýst að hann á mikið eftir af sinni ræðu enn þá mundi forseti mælast til að hann frestaði ræðunni til morguns. Þá verður málið tekið upp að nýju og þá hefur hann tækifæri til að halda áfram.) Ég þakka forseta og mun því fresta ræðu minni.