Afleiðingar sumarlokunar sjúkrahúsa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:31:00 (5982)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Útgjöld Íslendinga til velferðarmála hafa verið mjög til umræðu á þessum vetri. Sumt af því sem gert hefur verið til að auka sparnað í heilbrigðiskerfinu hefur verið með slíkum endemum að drjúgur hluti þeirra kjarasamninga sem nýlega hafa verið til umfjöllunar í stéttarfélögum víðs vegar um landið ganga út á að leiðrétta verstu afglöpin og afstýra öðrum verri. Þrátt fyrir að Íslendingar eyði álíka miklu til heilbrigðismála og ýmsar nágrannaþjóðir er víða enn pottur brotinn í skipulaginu. Það ætti að bæta en ekki skerða þjónustu til að ná fram sparnaði eins og núverandi stjórnvöld virðast stefna það. Þar virðist stefnan vera fálmkenndar aðgerðir og að leggja auknar byrðar á þá sem minnst mega sín. Þá raunasögu get ég ekki rakið í stuttri fsp. heldur beini ég athyglinni að einum mjög alvarlegum þætti í aðgerðum stjórnvalda, þeirri staðreynd að víða er sjúkrastofnunum gert að spara án þess að til sé heildstæð stefna um raunveruleg áhrif sparnaðarins. Því er hætt við að sparnaður á einum stað leiði til aukins kostnaðar á öðrum stað og þeir sem þessar aðgerðir bitna á eru sjúklingarnir. Víða um land eru þeir sviptir þjónustu vegna sumarlokana en annars staðar fá þeir skerta þjónustu vegna aukins álags á þeim sjúkrahúsum sem eru opin og verða að taka við öllum brýnustu tilfellunum.
    Í sumum tilvikum verða sumarlokanir eflaust til þess að minnka útgjöld sjúkrahúsa í heild, t.d. þegar sjúkir og aldraðir eru sendir heim vegna slíkra lokana. Þess ber þó að geta að öllu þessu raski fylgir ákveðinn kostnaður og hann kemur sjúklingum og starfsfólki ekki til góða. Verra er það þó að slíkar aðgerðir bitna mjög hart á fjölskyldum ýmissa þeirra sem við sjúklingum og öldruðum taka, enda er það nú hluti kjarasamninga að draga í land í þessum efnum. Það er engin tilviljun en hart að það skuli þurfa að semja um slíkan sjálfsagðan rétt í kjarasamningum.
    Í öðrum tilvikum lengjast biðlistar vegna ýmissa læknisaðgerða og kostnaður frestast jafnvel milli ára en hverfur ekki nema sjúklingurinn sé svo ólánssamur að deyja meðan hann bíður. Það er því miður ekki fátítt. En sumt er það sem ekki verður frestað. Ekki er til að mynda hægt að segja konu sem ætlar að fæða á sjúkrahúsi úti á landi að bíða þar til opnar eftir sumarleyfi.
    Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 618 eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. heilbrrh.:
  ,,1. Hefur upplýsingum um fyrirhugaðar sumarlokanir á sjúkrahúsum verið safnað saman á vegum heilbrrn.?
    2. Hefur verið lagt mat á hvað lokanir sjúkrastofnana og einstakra deilda hafi í för með sér fyrir önnur sjúkrahús sem þurfa að taka við auknu álagi vegna þessara lokana?
    3. Hefur sérstaklega verið fjallað um lokanir fæðingardeilda og hvernig skuli mæta þeim?
    4. Er fyrirhugað að endurskoða áætlanir um niðurskurð fjár til einstakra sjúkrastofnana ef þær verða fyrir auknu álagi vegna lokana á öðrum sjúkrastofnunum?``