Afleiðingar sumarlokunar sjúkrahúsa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 10:42:38 (5986)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það alveg ljóst að lokun á einstökum deildum t.d. við Ríkisspítalana hefur í för með sér stóraukið álag á öðrum deildum spítalanna. Lokun á deild 13 á Kleppi, sem hefur verið ákveðin að hluta til, hefur auðvitað í för með sér stóraukið álag á deild 38 og geðdeild Landspítalans, það liggur í augum uppi, stóraukið álag á starfslið og aðra aðila og verri þjónustu við þá sjúklinga sem þarna þurfa að fara inn og lengri biðlista líka. Auðvitað er það alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera niður þjónustu við veikt fólk og það þýðir ekkert fyrir menn að neita því.