Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:09:44 (5997)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur lagt fram fsp. sem hann kynnti hér í ræðustólnum áðan og fyrsta spurning hans er: ,,Hvað líður störfum nefndar um framtíðarkönnun sem skipuð var af þáverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni, 9. apríl 1984?``
    Í árslok 1983 samþykkti þáv. ríkisstjórn að láta gera könnun á líklegri framtíðarþróun á stöðu Íslands næstu 20--30 árin. Í apríl 1984 voru síðan skipaðar tvær nefndir, framkvæmdanefnd og ráðgjafarnefnd til að skipuleggja og fjalla um verkið. Árið 1985, 1986 og 1987 var veitt fé á fjárlögum til þessa verkefnis og var unnið að því á þessum árum. Vinnan lá niðri frá apríl 1987 til september 1988. Vorið 1989 var verkinu ýtt af stað aftur en þó á óformlegri hátt en árin 1984--1987. Forsrn. veitti nokkru fé til verksins árið 1990 til þess að gera upp kostnað frá fyrri árum en lítið varð um frekari framkvæmdir. Skömmu eftir að núv. ríkisstjórn tók til starfa ákvað forsrh. að ekki yrði fengist frekar við þetta verk.
  ,,2. Hvernig var staðið að þessari könnun og hvað hefur hún kostað skattgreiðendur til þessa?`` Aðallega var staðið að verkinu á þann hátt að sérfræðingar voru fengnir til að skrifa greinargerðir um tiltekin efni og voru þær síðan ræddar í vinnuhópum sem skipaðir voru um einstök viðfangsefni. Þær greinargerðir sem lokið var við voru síðan gefnar út. Á fjárlögum voru eftirfarandi fjárveitingar til framtíðarkönnunar 1985 2 millj. 459 þús., 1986 2 millj. 478 þús., 1987 2 millj. 91 þús. Auk þess greiddi forsrn. 738 þús. kr. á árinu 1986 og 557 þús. kr. á árinu 1990 vegna verksins. Þetta eru samtals um 19 millj. kr. á núgildandi verðlagi.
  ,,3. Eru allar skýrslur á vegum könnunarinnar komnar út?`` Samkvæmt áætlunum framkvæmdanefndar um framtíðarkönnun voru tvenns konar útgáfur um framtíðarhorfur fyrirhugaðar. Annars vegar var áformað að gefa út ritröð framkvæmdanefndar, fimm bækur með sextán greinargerðum starfshópa um framtíðarhorfur næsta aldarfjórðung. Hins vegar átti

að gefa út í sérstakri bók yfirlitsrit um framtíðarkönnunina. Af fyrrnefndum fimm ritum voru tvö rit með samtals sex greinargerðum gefin út á vegum framtíðarkönnunar. Að auki hafa tvær greinargerðir verið gefnar út af öðrum aðilum. Handrit að þremur greinargerðum lágu fyrir árið 1990 en voru ekki gefin út. Útgáfa þeirra mundi nú kalla á verulega endurskoðun og því talsverða vinnu.
  ,,4. Hver annast nú um framkvæmd málsins?`` Framkvæmd málsins er lokið og það verður ekki tekið upp aftur með þeim hætti sem stofnað var til þess árið 1984.
  ,,5. Hvað hyggst forsrh. gera á grundvelli þess starfs sem unnið hefur verið við framkvæmd þessarar könnunar?`` Það starf sem unnið var á vegum verkefnis um framtíðarkönnun hefur komið að gagni við umfjöllun þeirra mála sem þar var unnið að. Líkleg framtíðarþróun og staða Íslands hlýtur jafnan að vera til íhugunar og umfjöllunar við stefnumótum í mikilvægum málum. Hins vegar er ekki fyrirhugað að gera neitt sérstaklega á grundvelli þeirrar könnunar sem fsp. þessi snýst um.