Nefnd um framtíðarkönnun

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:18:27 (6001)



     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ekki hafi neitt komið fram í mínum orðum sem mætti túlka svo að ég hefði gert lítið úr því starfi sem þarna hefur verið unnið, þvert á móti sagði ég að þetta starf hefði komið að gagni. Hv. 9. þm. Reykv. sagði að það væri slæmt, eins og hann orðaði það, að hætt væri við að láta gera athugun á framtíðinni. Það er ekki auðvelt að láta gera athugun á framtíðinni en það er hins vegar hægt að spá um hana. En það vill oft verða erfitt. Ég minnist þess að hæstv. núv. viðskrh., ágætur samstarfsmaður, þá forstjóri Þjóðhagsstofnunar, kom á gamlárskvöld eða gamlársdag í sjónvarp og var spurður hvernig síðasta ár hefði gengið. Hann sagði þá að það væri eiginlega ekki hægt að svara því. Það væri afskaplega erfitt að spá um nýliðna fortíð. Og hvernig halda menn þá að það sé að spá til 20--30 ára?
    Vegna þess sem hv. 7. þm. Reykn. nefndi, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og gaf hér áðan, hef kannski talað fullhratt, þá nefndi ég að af fyrrnefndum fimm ritum voru tvö rit með samtals sex greinargerðum gefin út á vegum framtíðarkönnunar. Að auki hafa tvær greinargerðir verið gefnar út af öðrum aðilum. Það kann að vera að þetta sé það sem hv. þm. á við. Ég ætla ekki að þræta um það við hann því hann hefur sjálfsagt betri upplýsingar um þetta en ég þar sem hann hafði umsjón með þessu starfi á sínum tíma.