Flutningur starfa út á land

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:23:33 (6003)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Hæstv. forseti. Sem svar við fyrri fsp. hv. fyrirspyrjanda vil ég segja þetta: Stærstu tölvukerfi ríkisins snerta launavinnslu, bókhald ríkisins, álagningu og innheimtu skatta. Þessi kerfi eru í sjálfu sér þróuð sjálfstætt og utan um kjarna þeirra er haldið í Skýrsluvélum ríkisins. Forvinnsla ýmiss konar gagna og upplýsinga sem inn í þessi tölvukerfi fara eru gerð bæði í Reykjavík og vítt og breitt um landið.
    Að því er varðar launavinnslu til starfsmanna ríkisins, sem hv. fyrirspyrjandi minntist á í sinni ræðu, er í meginatriðum tvennt að segja: Starfsmannaskrifstofa fjmrn. afgreiðir laun til þorra ríkisstarfsmanna en sú stefna hefur verið mörkuð að færa alla vinnslu og undirbúning launafærslna sem mest út í stofnanir ríkisins. Slík vinnsla hefur nú þegar verið færð til fræðsluskrifstofuumdæmanna að verulegu leyti, einnig til Vegagerðar ríkisins og þar með deilda hennar úti um land, Pósts og síma og stefnt er að því að koma þessu í aðrar stærri stofnanir þar sem af hagkvæmnisástæðum þykir skynsamlegt að vinna verkin.
    Hinn meginþáttur launaafgreiðslunnar lýtur að því að við yfirtöku ríkisins á sjúkrahúsum var launavinnsla þeirra ekki flutt til starfsmannaskrifstofu fjmrn. heldur var ákveðið að hún yrði áfram í hlutaðeigandi sjúkrahúsum eða bæjarfélögum. Sú ákvörðun ar tekin til þess að störfin mættu haldast sem víðast um land. Um það varð hins vegar samkomulag að sú launaafgreiðsla og þau launatölvukerfi sem notuð yrðu uppfylltu skilyrði um það að ríkið, þ.e. fjmrn., gæti hvenær sem er kallað eftir upplýsingum á sambærilegu formi. Á því þarf að halda vegna kjarasamninga og upplýsinga um starfsmannahald ríkisins. Því miður hefur orðið nokkur misbrestur á því.
    Um bókhaldskerfi ríkisins, BÁR, er það að segja að þetta er miðlægt kerfi sem er unnið í Reykjavík að stofni til. Hins vegar hefur verið tekin ákvörðun um það að færa skráningu gagna til stofnananna sjálfra í auknum mæli og er það mál í undirbúningi. Í notkun er svokallað BÁR-ET, þ.e tölvukerfi sem sett er upp í einmenningstölvum víða um landið og einkum og sér í lagi hjá minni stofnunum. Með þessu móti er vinnslan í raun og veru komin til stofnana sem verið geta jöfnum höndum í Reykjavík eða annars staðar á landinu.
    Skattálagning er unnin í tölvukerfi sem er að hluta til hjá Skýrsluvélum ríkisins og að hluta til hjá ríkisskattstjóra. Skattstofurnar eru í auknum mæli að tengjast þessum skattkerfum. Þannig undirbúa og færa skattstofurnar upplýsingar inn í álagningarkerfi skatta. Erfitt er að sjá að gengið verði lengra á þeirri braut en fyrirsjáanlegt er að skattstofurnar þurfa að hafa eins greiðan aðgang að álagningarkerfi og mögulegt er.
    Að því er varðar innheimtu skatta þá er í gangi staðgreiðslukerfi virðisaukaskatts og tolla. Hér gildir sama og áður að innheimtuumdæmi landsins eru tengd þessum kerfum og starfsmenn þar vinna allar upplýsingar beint inn á innheimtukerfin þó svo viðhald þeirra og stjórn sé hjá Skýrsluvélum ríkisins og innheimtuyfirvöldum í Reykjavík. Við viðhald og daglega stjórn tölvukerfa ríkisins starfar nokkur hópur manna. Í fjárlögum þessa árs kemur t.d. fram að notkun þessara kerfa og viðhald mun kosta ríkissjóð hátt í 500 millj. kr. Stærsti hluti þessara útgjalda er þó vegna vélavinnslu en ekki vegna beinna starfa eða þróunar þeirra á breytingum.

    Þau störf sem hugsanlega mætti flytja út á land tengjast því fyrst og fremst notkun kerfanna, þ.e. hvernig upplýsingar eru settar inn í kerfin og hvernig upplýsingar eru teknar út og þær notaðar. Fullyrða má að með breytingu af þessu tagi fjölgi störfum eitthvað úti á landi umfram það sem þegar er en ég get ekki nefnt neina ákveðna tölu í því sambandi.
    Sem svar við síðari spurningunni vil ég segja þetta: Heildaráætlun um dreifingu á tölvuvinnslu hefur ekki verið gerð. Hitt er það að í fjmrn. hefur sú stefna verið mörkuð að umfjöllun um starfsmannamál, þ.e. færslu nýrra starfsmanna og starfsmannaskrá og brottfelling þeirra sem hætta á skránni, yfirvinnuyfirlit o.fl. færist í auknum mæli til stofnunarinnar sjálfrar eins og áður sagði. Um þann starfafjölda sem þannig flyttist til er ekkert hægt að segja en langstærstu stofnanir hins opinbera, þar sem slík störf eru, eru sjúkrahús og stærri þjónustustofnanir. Áform um frekari breytingar á öðrum kerfum liggja ekki fyrir en vísað er til þess að bókhald ríkisins er nú að hluta til fært úti í stofnununum, m.a. úti á landi og því skilað í tölvutæku formi til ríkisbókhaldsins.