Leiga á ökutækjum án ökumanns

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:38:00 (6009)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hefur leiga á skráningarskyldum ökutækjum án ökumanns farið vaxandi hérlendis. Sú þjónusta er mjög mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna í heild þar sem nauðsynlegt er fyrir ferðamenn, bæði innlenda og þá sérstaklega erlenda, að eiga kost á henni. Það hafa komið fram ábendingar um að verð á þessari þjónustu sé hærra hér en erlendis svo vissulega væri æskilegt ef hæstv. samgrh. léti athuga hvort ráðuneytið geti á einhvern hátt stuðlað að því að verðlagning hennar geti orðið lægri.
    Það hafa heldur ekki verið settar reglur um leigu á þessum ökutækjum, m.a. varðandi stærðarmörk, og virðist hafa skapast óeðlilegt ósamræmi. T.d. mega þeir sem tóku almennt ökupróf fyrir árið 1960 taka á leigu fólksflutningabifreiðir og aka þeim fullum af fólki ef það er ekki gert í atvinnuskyni. Eðlilega eru gerðar strangar kröfur til ökumanna almennra hópferðabifreiða. Það sýnist því óhjákvæmilegt að hæstv. samgrh. taki þessi mál til skoðunar og því hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn á þskj. 764 til hæstv. ráðherra:
    ,,Eru í undirbúningi reglur um leigu á skráningarskyldum ökutækjum án ökumanns, m.a. hámarksstærð þeirra?``