Fíkniefnaneysla í landinu

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 11:48:03 (6014)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Framkvæmdir og aðgerðir til varnar í baráttunni gegn útbreiðslu ávana- og fíkniefna og notkunar á þeim hafa í meginatriðum byggst á störfum framkvæmdanefndar sem sett var á fót árið 1986 að frumkvæði þáv. forsrh., Steingríms Hermannssonar. Í meginatriðum hafa aðgerðir verið byggðar á þeirri stefnumörkun sem þá var ákveðin.
    Ég get minnst á helstu atriði sem unnið hefur verið að að undanförnu í ýmsum ráðuneytum en ég minni á að framkvæmdanefndin er skipuð fulltrúum þeirra ráðuneyta sem koma að þessu máli og gengur formennska til skiptis á milli ráðuneytanna í eitt ár í senn.
    Í félmrn. hefur verið unnið að því að tryggja að rekstur á neyðarathvarfi fyrir ungmenni í Rauðakross-húsinu í Reykjavík en hluti þeirra barna og ungmenna sem þangað leita eiga við vímuefnavanda að etja. Fjmrn. hefur sérþjálfað tollgæslumenn til eftirlits og leitar að fíkniefnum. Það fékk einnig sérþjálfaðan hund á síðasta ári til fíkniefnaleitar fyrir tollgæsluna með aðsetur í Reykjavík. Á vegum dómsmrn. var það ákveðið á síðasta ári að fá

annan hund til lögreglunnar í Reykjavík til fíkniefnaleitar og sérstakur maður var ráðinn til þess að stjórna honum. Þá ákvað dómsmrn. í samvinnu við menntmrn. á síðasta ári að styrkja og styðja við könnun Rannsóknastofnunar í uppeldis- og menntamálum þar sem athugun fer fram á fíkniefnaneyslu unglinga. Athugunin fór fram í marsmánuði sl. og tók til um 1.200 unglinga og þess er að vænta að niðurstöður verði tilbúnar á haustdögum en þær eiga að gefa mjög góða möguleika til að bera saman hverjir eru helstu áhættuþættirnir í sambandi við fíkniefnaneyslu unglinga. Þannig gætum við fengið gleggri mynd af vandanum og betri upplýsingar sem gera okkur kleift að bregðast við á skilvirkari hátt varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir. Ég tel að athugun af þessu tagi sé mjög mikilvæg undirstaða frekari aðgerða.
    Heilbr.- og trmrn. hefur síðan átt stærsta þátt í að móta meðferðarþátt að Tindum en þar var fyrir rúmu ári tekin í notkun sérstök stofnun fyrir unga ávana- og fíkniefnaneytendur. Heilbrrn. gekkst einnig fyrir sérstakri ráðstefnu um þessi efni á sl. vetri. Menntmrn. hefur beitt sér fyrir kennslu á námsefni Lions-hreyfingarinnar undir heitinu ,,Að ná tökum á tilverunni``. Á síðasta ári fékk utanrrn. sérþjálfaðan hund og mann til þess að stjórna honum við fíkniefnaleit á Keflavíkurflugvelli og á vegum þess ráðuneytis hafa einnig tveir menn verið sérþjálfaðir til þess að sinna ávana- og fíkniefnum.
    Ég tel að það sé einnig mjög mikilvægt að endurskoða starf framkvæmdanefndarinnar eða kannski fremur endurskoða skipulag hennar. Því miður hefur ekki verið endurskipað í nefndina frá sl. hausti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að fela einu ráðuneyti höfuðábyrgð í þessu efni þannig að forusta fyrir samstarfsnefnd ráðuneytanna hvíli á einu ráðuneyti til að tryggja markvissari framkvæmd og ákveðnari aðgerðir.
    Hv þm. spurði um fullgildingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um fíkniefni og skynvilluefni frá 1988. Það hefur staðið á því að fullgilda þennan samning fyrst og fremst vegna þess að lagasetningu um svokallaðan peningaþvott er ólokið.
    Frú forseti. Ég vildi að lokum leggja áherslu á meginatriði varðandi framkvæmd þessara mála en það er að við þurfum að leggja ríkari áherslu á forvarnir en verið hefur og að finna farveg fyrir fræðslustarfsemi í skólum og nauðsynlegar athuganir á fíkniefnavanda unglinga.
    Loks vil ég geta þess að skipulag löggæslunnar sjálfrar þarf að vera í stöðugri athugun þannig að hún verði sem markvissust. Nú fer fram í dómsmrn. endurskoðun á skipulagi löggæslunnar í landinu og þar á meðal hvernig rannsóknum í þessum málum verður fyrir komið.