Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:11:09 (6022)


     Magnús Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ljóst að hér sé hreyft máli sem getur haft mjög mikilvæg áhrif í íslenskum sjávarútvegi á tímum minnkandi afla úr hefðbundnum stofnum. Um er að ræða stofna sem vafalaust geta skilað miklum tekjum. Hins vegar er það áhyggjuefni hversu lítið við þekkjum til þessara stofna og raunar kom það fram í ræðu sjútvrh. áðan að það er ekki fjármagn a.m.k. á þessu ári til þess að rannsaka að verulegu marki. Hin stóru og öflugu frystiskip okkar hafa alla burði til þess að sækja á þessi mið. Hins vegar er slæmt að við skulum ekki hafa stjórntæki sem geta fremur hvatt til veiða í þessum stofnum frekar en að sækja í stofna sem þegar eru a.m.k. fullnýttir og jafnvel ofnýttir.
    Mig langar því í þessu sambandi að minna á hugmyndir okkar alþýðuflokksmanna um aflagjaldið sem gæti verið mikilvægt stjórntæki í því að verðleggja á mismunandi hátt veiðileyfi í mismunandi stofna og þar með væri hægt að beina veiðum okkar stóru skipa á þessi mið og reyna þá að draga úr sókninni á þau mið sem núna er mest sótt á. Þannig væri hægt að slá tvær flugur í einu höggi, auka tekjur þjóðarbúsins og draga úr álagi á hefðbundin fiskimið.