Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:13:55 (6024)



     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að minna á það rétt einn ganginn að það eru um tíu ár liðin síðan Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna lauk og þar af leiðandi eru líka tíu ár liðin síðan við eignuðumst réttindi í 350 mílur á Reykjaneshrygg t.d. og á Hatton-Rockall svæðinu að réttum alþjóðalögum, ,,de facto`` í raun.
    Allar þjóðir heimta sín réttindi, hafsbotnsréttindi og til hafsbotnsins heyrir allt sem á hafsbotninum er lifandi, lífrænt og ólífrænt og í honum líka. Það er kominn tími til ekki bara að auka og efla rannsóknir á þeim fisktegundum sem auðvitað eru mjög margar. Og gífurlegur auður leynist án nokkurs efa utan við 200 mílurnar og a.m.k. á nú að reyna að verja alla vega 200 mílurnar með þeim hætti að leyfa ekki erlendum skipum að koma inn til löndunar eða til athafna. Það er ekki sæmandi fyrir Alþingi að draga kannski enn að hrinda í framkvæmd þeim þál. og málum sem hafa verið samþykkt fyrir u.þ.b. tíu árum og raunar fyrr. Það er tími til kominn að framkvæma, bæði hafrannsóknirnar og eins að efla Landhelgisgæsluna til að hrekja þessa sjóræningja burt. ( Gripið fram í: Rétt hjá þér Eyjólfur.)