Eftirlit með veiðum erlendra skipa

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:20:00 (6029)



     Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir skýr og greinargóð svör og hv. þm. fyrir þátttöku í umræðunni. Ég tel að það sé mjög þýðingarmikið að rannsókn á djúpslóð fari fram hið allra fyrsta. Það þarf að leigja skip með meiri togkraft en þau skip hafa sem Hafrannsóknastofnun hefur um að ráða til að athuga þessa hluti. Ég er ekki viss um að það þurfi að kosta svo mikið sem menn ætla í áætlunum vegna þess að ef menn finna þessa dýrmætu afurð í einhverju magni þá borgar það allt leigugjald og meira en það.

    Ég minni á að á Nýja-Sjálandi fiska þeir að því að talið er 40.000 tonn. Ef við næðum 30.000 tonnum eru verðmæti svipuð og allur loðnuafli okkar Íslendinga.
    Ég læt þá þessu lokið en minni aftur á nauðsyn þess að við finnum leiðir til að beina stóru skipunum á djúpslóð þannig að smærri skipin fái meiri frið til þess að fiska þar á grunnslóð.