Greiðslur til stuðningsfjölskyldna

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:35:53 (6034)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að hér er um mjög mikilvægan þátt í þjónustu við fatlaða að ræða og full ástæða til þess að efla þennan þátt í þjónustunni. Ég get einnig tekið undir það að um mjög lágar greiðslur er að ræða til stuðningsfjölskyldna sem taka að sér þessa þjónustu við fjölskyldur fatlaðra barna, ekki síst í ljósi þess að vinnan er skattskyld, hún var það ekki lengst af en er núna orðið skattskyld og líka vegna þess að hluti af þeim peningum sem fjölskyldurnar fá, fer í útlagðan kostnað. Það gefur þannig auga leið að hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða.
    Í nýju frv. sem nú er til meðferðar í þinginu er einmitt lögð mikil áhersla á alla stoð og stuðningsþjónustu við fatlaða sem ég tel fulla ástæðu til að efla. Nái frv. fram að ganga á yfirstandandi þingi tel ég ástæðu til þess, í kjölfar samþykktar Alþingis á nýju frv.

þar sem áherslan er lögð á stoð- og stuðningsþjónustu við fatlaða, að endurskoða þá reglugerð sem sett var 1985.