Skýrsla Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna í heiminum 1970--1990

135. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 12:43:55 (6037)



     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að við hæstv. félmrh. séum sammála um það að ef nægilegu fjármagni væri til að dreifa í jafnmikilvæg verkefni og hér er um að ræða, allar upplýsingar um stöðu kvenna, hér á landi og annars staðar, væri þetta ekki vandamál. Ég get þannig verið henni sammála um að það er alltaf vont að taka fé frá einum málaflokki í annan. Einmitt þess vegna beindi ég upphaflegri fsp. minni til hæstv. utanrrh. sem kaus að vísa málinu frá sér. Ég sé ástæðu til að geta þess að ég tel að utanrrn. ætti að standa fyrir þessari þýðingu en ég vildi hins vegar ekki í umræðu liðinnar viku hundsa orð hæstv. utanrrh. og þess vegna gat ég ekki annað en varpað þeirri spurningu fram til hæstv. félmrh. hvort það stæði til á vegum ráðuneytisins að þýða þessa skýrslu. En það er alltaf stefnumarkandi hvað þýtt er og ég held að það sé oft og tíðum hægt að finna ódýrar lausnir, þó ég geri mér grein fyrir að töflur eru erfiðar í þýðingum og varðandi það að um er að ræða skýrslur sem munu breytast, þá er það jafnframt ljóst að grunnstarfið í þýðingum mundi nýtast í seinni útgáfu. Á því leikur enginn vafi. Ég held að þau rit sem eru fáanleg á íslenskri tungu séu í rauninni yfirlýsing um það á hvaða málaflokk áhersla er lögð og mjög nauðsynlegt að þessi skýrsla sé til á íslenskri tungu til þess að fleiri hafi aðgang að upplýsingum í henni en þeir sem munu leita á bókasafn til þess að fá þær. Það er ekki fólkið sem við þurfum að koma upplýsingunum til. Það leitar þeirra upplýsinga. Það eru þeir sem eru andvaralausir.
    Í skýrslunni er feikilega djúpt tekið í árinni með það að grípa þurfi til aðgerða og að staða kvenna víða um heim, bæði á Vesturlöndum og annars staðar, sé slík að full ástæða sé til að blása til einhverra aðgerða og að konur víða um heim taki höndum saman um það, konur og karlar raunar, því skýrslan er ekki síður áhugaefni þeirra karla sem um hana hafa fjallað en kvenna.
    Ég ítreka síðan að ég tel að til slíkrar útgáfu þyrfti að koma aukið fjármagn og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra geti beitt sér fyrir því í samstarfi sínu í ríkisstjórn.