Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 13:59:13 (6040)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar svar hæstv. ráðherra um áframhaldandi styrk úr ríkissjóði til að reka flóabáta þá vitnar hæstv. samgrh. í fjárlögin og segir: Þar er okkar stefna. Það er ágætt og ég fagna því því að það er óbreytt stefna. Fjárlögin eru þannig úr garði gerð varðandi styrki til flóabáta að þar er ekki breytt um stefnu. Með þessari yfirlýsingu hefur hæstv. samgrh. ógilt yfirlýsingu sína frá 24. sept. sl. þar sem hann talaði um að það væri óhjákvæmilegt að breyta þessu fyrirkomulagi.

    Í öðru lagi, hvað varðar afkomu Skipaútgerðar ríkisins á síðasta ári, er, eins og hæstv. ráðherra gat um, ekki búið að leggja fram ársreikninga og ég hef ekki séð niðurstöðutölur. En það kemur mér ekki á óvart þó að afkoman verði lakari á síðasta ári en ráð var fyrir gert sl. haust. Það er vegna þess að hæstv. ráðherra stóð í skemmdarverkastarfsemi gagnvart rekstri Skipaútgerðar ríkisins og tók margar ákvarðanir sem rýrðu fjárhag þess fyrirtækis.