Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:01:33 (6042)


     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það markmið hæstv. samgrh. að halda uppi góðri þjónustu fyrir sem minnstan pening úr ríkissjóði. En ég skil orð hæstv. ráðherra þannig að stefna hans varðandi rekstur flóabáta sé óbreytt stefna frá tíð fyrri ríkisstjórna og það er út af fyrir sig fagnaðarefni þó að ég dragi ekki úr því að menn eigi að skoða þessi mál með opnum huga.
    Ég vil segja í sambandi við frágang fjárlaga fyrir árið 1991 að þá var ákveðið að ganga þannig frá fjárlögum að það vantaði 100 millj. kr. upp á að fjárlög dygðu til að mæta þeim tölum sem fram komu í rekstraráætlun fyrirtækisins. Á það var bent en svörin voru þau að menn mundu skoða málið síðar á árinu 1991 og grípa þá til aðgerða og gefa stjórnarnefndinni fyrirmæli ef hún ætti að breyta einhverju í sínum rekstri. Það kom ekki fyrr en seint á síðasta hausti en með öðrum hætti en til var ætlast þegar um málið var rætt.