Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:29:03 (6051)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Út af ræðu hv. 6. þm. Vestf. vil ég taka fram í fyrsta lagi að sá maður, sem annaðist sölu á eignum Skipaútgerðar ríkisins og hefur haft stjórn á því að leggja hana niður, er formaður stjórnarnefndar Ríkisskipa.
    Ég vil í öðru lagi taka fram að Samskip hafa þjónað Norðurfirði eins og fram hefur komið hjá tveimur hv. þm. Vestf. Mér er ókunnugt um að Samskip ætli að leggja niður siglingar þangað. Ég sat aðalfund Samskipa sem gestur fyrir skömmu þar bar þessar siglingar á góma en ekki var þess getið að til stæði að fella þessar siglingar niður en að sjálfsögðu mun samgrn. athuga það. Um það hefur verið rætt bæði við þá sem annast útgerð á Fagranesinu og eins Sæfara að til greina geti komið að annað hvort þessara skipa fari til Norðurfjarðar ef þörf er á. Og einnig má hugsa sér að rækja þá þjónustu með öðrum hætti.
    Ég verð enn að láta í ljósi undrun mína á því að þessi hv. þm. Vestf. skuli koma upp með þær fullyrðingar að sérstaklega sé níðst á Vestfirðingum í vegamálum. Það er auðvitað alveg hið gagnstæða. Það rennur meira fé til Vestfjarða nú í vegamálum en nokkru sinni fyrr og satt að segja óviðkunnanlegt þegar þingmenn eru að gera lítið úr því þegar önnur kjördæmi leggja mikið á sig til þess að koma við samgöngubótum í þeirra kjördæmi eins og nú er gert á Vestfjörðum. Ég vona að ég eigi ekki eftir að heyra fullyrðingar af þessu tagi oftar í þessum stól. Það er engum manni til sóma sem slíku heldur fram.