Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:49:00 (6056)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fylgdist af athygli með ræðu hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Mér varð ekki ljóst af ræðu hans hver afstaða hans er núna til Skipaútgerðar ríkisins og þeirra breytinga sem átt höfðu sér stað í strandflutningum umhverfis landið. Ég tel að það þurfi að liggja ljóst fyrir, sérstaklega í ljósi fyrri umræðna þegar verið var að leggja starfsemi Skipaútgerðarinnar niður, hver afstaða hv. þm. er nú til þessa máls. Vill hann hverfa aftur til sömu skipunar og var á strandflutningum á meðan þeir voru á vegum Skipaútgerðar ríkisins og kostuðu ríkissjóð á núvirði allt að 300 millj. kr.? Einnig þarf að liggja ljóst fyrir hjá hv. þm. hvort hann leggi til að þessir peningar verði teknir úr ríkissjóði eða hvort hann vill leita ráða til að nýta þessa fjármuni á annan hátt til uppbyggingar á landsbyggðinni. Þetta tel ég mikilvægt að hv. þm. ræði og fjalli líka um og það komi skýrt fram nú við 1. umr. hvort það er afstaða hans og Framsfl., vegna þess að ég trúi því að hann tali í nafni Framsfl., að vilja hverfa aftur til þeirrar skipunar er ríkti í formi Skipaútgerðar ríkisins og kostaði ríkissjóð allt að 300 millj. eða meira á ári.