Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:51:24 (6057)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get gefið um það yfirlýsingu og ég hélt að hv. 5. þm. Austurl. væri það ljóst af fyrri umræðum í vetur að ég er andvígur því að fella niður ríkisstyrki til sjóflutninga, m.a. í okkar kjördæmi sem var það kjördæmi sem Ríkisskip hafði mesta flutninga til og frá, án þess að vita nokkuð um hvað tekur við til frambúðar. Ég hélt ég hefði sagt það fullljóst að það er allt of snemmt að segja nokkuð til um það hvað tekur við. Þessi mál eru enn þá í fullkominni óvissu þó að tvö stór skipafélög séu nú að berjast um reyturnar hjá Ríkisskipum. Ég vil að það liggi fullljóst fyrir. Það sem meira er, þetta opnar leiðina til að fella niður alla styrki til sjóflutninga og er kannski rétt að hv. 5. þm. Austurl. knýi á um svör við því, m.a. hjá sínum ráðherrum hvort þeir vilji standa að því í þessari ríkisstjórn að gera svo. Ég hélt að þetta væri fullljóst en ef hv. 5. þm. Austurl. hefur ekki skilið þetta vona ég að hann skilji það nú.