Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 14:53:20 (6058)


     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er þá fullljóst núna að afstaða Framsfl. og hv. þm. Jóns Kristjánssonar í þessu máli er í óvissu. Ég vil vekja athygli á því að þegar þetta mál var til umræðu á sínum tíma, að leggja starfsemi Skipaútgerðarinnar niður, þá var afstaða Framsfl. alveg ákveðin og örugg og ljós og það var að breyta ekki um starfshætti Skipaútgerðarinnar heldur að halda áfram að verja allt að 300 millj. kr. á ári til sjóflutninga.
    Ég vil segja það að ég treysti Samskipum algjörlega til þess að þjóna landsbyggðinni vel án ríkisstyrkja eins og reynslan fram að þessu hefur leitt í ljós. Á meðan annað kemur ekki fram en að Samskip sinni hlutverki sínu vel og veiti góða þjónustu, sem ég treysti þeim til að gera, tel ég að þessi breyting horfi fremur til styrktar landsbyggðinni og losi um peninga til uppbyggingar þar sem þeirra er frekar þörf.