Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:04:23 (6065)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér var það til umræðu hvort Samskipum væri treystandi til að halda uppi þessari þjónustu á ströndina. ( GunnS: Hlutafélagið.) Já, hlutafélagið Samskip. Ég get upplýst að takmarkið með hlutafélaginu Samskipum er að skila hagnaði og hlutafélagið Samskip hf. hefur engar skyldur til að halda uppi flutningum á óarðbærar hafnir. Það er mergurinn málsins. Ef ekki verður hagnaður af þessum siglingum þegar fram í sækir hjá hlutafélaginu Eimskipum og hlutafélaginu Samskipum hækka þessir taxtar nema þriðji aðili komi til að berjast um þetta. Ég á nú ekki von á því.