Ríkisreikningur 1989

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 15:07:00 (6067)

     Frsm. fjárln. (Karl Steinar Guðnason) :
    Virðulegur forseti. Ríkisreikningi fyrir árið 1989 var vísað til fjárln. eftir 1. umr. sem fram fór þann 20. nóv. hér á Alþingi samkvæmt þingskapalögum. Fjárln. hefur fjallað um reikninginn á fundum sínum.
    Fulltrúi Ríkisendurskoðunar mætti á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir skýrslu yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og þeim athugasemdum sem stofnunin gerði við ríkisreikning fyrir árið 1989. Endurskoðunarskýrsla yfirskoðunarmanna og Ríkisendurskoðunar var lögð fram á Alþingi í októbermánuði 1991 og er ástæða til að vísa til hennar. Þá mættu fulltrúar fjmrn. til viðræðu við nefndina og svöruðu fyrirspurnum.
    Ég tel ástæðu til að fjalla um nokkur atriði í ríkisreikningnum og bendi á að reikningurinn sýni breytta reikningsskilaaðferð frá fyrri ríkisreikningum.
    Á árinu 1990 ákvað þáv. fjmrh. að fengnum tillögum ríkisreikningsnefndar að breyta reikningsskilareglum á þann hátt að færa í ríkisreikninga allar skuldbreytingar ríkissjóðs og stofnana hans sem vitneskja er um óháð því hvort þær eru gjaldfallnar eða ekki. Ríkisreikningur fyrir árið 1989 er sá fyrsti sem gerður er upp samkvæmt þessum reglum og er því sem slíkur ekki samanburðarhæfur við fyrri ár. Segja má að með þessum breyttu reikningsskilaaðferðum sé verið að uppfylla ákvæði laga um ríkisbókhald og ríkisreikning þar sem kveðið er á um að hann skuli vera gerður upp á svokölluðum rekstrargrunni.
    Í ríkisreikningi fyrir árið 1989 voru eftirfarandi skuldbindingar ríkissjóðs í fyrsta sinn færðar: Lífeyrisskuldbindingar, skuldbindingar ríkis við sveitarfélög og aðra vegna sameiginlegra framkvæmda og rekstrar þessara aðila, áfallnir vextir og veitt og tekin lán ríkissjóðs. Auk skuldbindinga er ríkissjóður tók á sig á árinu 1989 eru í ríkisreikningi fyrir það ár færðar uppsafnaðar skuldbindingar ríkissjóðs frá fyrri árum. Með því að færa allar einhliða skuldbindingar sem ríkissjóður stofnar til á hverju ári mun ríkisreikningur gefa mun gleggri mynd en áður af rekstri ríkissjóðs og þeim skuldbindingum sem á honum hvíla í lok reikningsárs.
    Áður en ég vík að helstu niðurstöðum rekstrar- og efnahagsreiknings ríkissjóðs fyrir árið 1989 vil ég taka undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslu yfirskoðunarmanna er varða heimildir í 6. gr. fjárlaga, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Yfirskoðunarmenn leggja jafnframt til að mjög verði þrengdar þær heimildir til lántöku og útgjalda sem fjmrh. eru veittar við 6. gr. fjárlaga. Þar eru gjarnan á ferðinni opnar heimildir til umfangsmikilla fjármálaráðstafana og eignakaupa fyrir opinbera aðila. Slíkar opnar heimildir samrýmast ekki kröfum um nútímaleg vinnubrögð í ríkisfjármálum og við útgjaldaeftirlit. Eðlilegast virðist í þessu sambandi að veita sérstökum fjármunum beint til þeirra ráðstafana sem um ræðir í hvert sinn eða ákveða hámark þeirra fjárhæða sem ráðstafa má samkvæmt hverri heimild fyrir sig.``
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings er enn fremur fjallað um 6. gr. fjárlaga en þar er lýst þeim efnisatriðum sem 6. gr. heimildar fjárlaga nær til. Ríkisendurskoðun telur að þær heimildir í 6. gr. fjárlaga sem fela fyrr eða síðar í sér útgjöld eigi að koma fram á tölulegu formi í 4. gr. fjárlaga. Á sama hátt telur stofnunin að þeir liðir sem fela í sér heimildir til lántöku eigi að koma fram í lánsfjárlögum.

    Í 6. gr. fjárlaga eru ýmsar heimildir til handa fjmrh. um kaup og sölu eigna ríkisins og að ganga til samninga um tilskilin mál. Þessar heimildir eru án takmarkana um hversu háar fjárhæðir er um að ræða. Nefna má sem dæmi heimild til að ganga til samninga við Rarik og orkubú um yfirtöku skulda fyrirtækjanna vegna niðurfellingar verðjöfnunargjalds af raforku árið 1986. Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafði þessi heimild í för með sér verulegar skuldbindingar og útgjöld fyrir ríkissjóð eða alls 3,5 milljarða kr. sem ekki hafði verið áætlað í 4. gr. fjárlaga. Ljóst er að í einstökum tilvikum er ekki hægt að sjá fyrir um kostnað samfara einstökum málum en þar sem Alþingi fer með fjárveitingavaldið tel ég að í fjárlögum eigi að koma fram hámark fjárhæða sem fjmrh. er heimilt til þess að nýta til þessara verkefna.
    Í ríkisreikningi fyrir árið 1989 eru færðar ýmsar skuldbindingar ríkissjóðs, eins og áður er getið, sem ekki hafa áður verið færðar í ríkisreikningi en hafa veruleg áhrif á niðurstöður rekstrar og efnahags sé miðað við fyrri ár. Þannig námu gjöld A-hluta ríkissjóðs umfram tekjur 64,5 milljörðum kr. en á árinu 1988 varð rekstrarhalli að fjárhæð 2,1 milljarði kr. Vegna breyttrar reikningsskilaaðferðar er niðurstaða rekstrarreiknings ársins 1989 að sjálfsögðu ekki samanburðarhæf við niðurstöðu ársins 1988 auk þess sem hún gefur alls ekki raunhæfa mynd af afkomu ríkissjóðs á árinu 1989. Að frádregnum þeim skuldbindingum sem færðar voru í ríkisreikningi á árinu 1989 nam rekstrarhalli A-hluta ríkissjóðs 4,4 milljörðum kr. samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 1989 sem er 2,3 milljörðum kr. meiri rekstrarhalli en varð á árinu 1988. Færðar voru upp skuldbindingar sem hvíla á ríkissjóði vegna lífeyrissjóða en þær voru metnar á 45,6 milljarða kr. samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á stöðu sjóðanna. Skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna og lífeyrissjóða ráðherra og alþingismanna námu 43,6 milljörðum kr. og skuldbindingar vegna lífeyrissjóða starfsmanna og bankastjóra Útvegsbanka Íslands námu 2 milljörðum kr. Færðir voru áfallnir vextir á veitt og tekin lán A-hluta ríkissjóðs en áður voru einungis færðir greiddir vextir slíkra lána. Áfallnir ógjaldfallnir vextir á tekin lán ríkissjóðs námu 6,4 milljörðum kr. en á móti voru færðar áfallnar vaxtatekjur að fjárhæð 1,2 milljörðum kr.
    Fjárskuldbindingar ríkissjóðs vegna sameiginlegra framkvæmda ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila voru færðar til gjalda og til skuldar á árinu 1989. Þar er um að ræða sameiginleg verkefni á sviði menntamála að fjárhæð 1,6 milljarðar kr., heilbrigðismála að fjárhæð 112 millj. kr og hafnamála að fjárhæð 218 millj. kr. Ógreidd fjárframlög vegna þjóðvega í þéttbýli námu 865 millj. kr. og ógreiddur kostnaður til sveitarfélaga vegna reksturs sjúkrahúsa 440 millj. kr. Þá námu ógreiddar uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir og ógreidd búfjár- og jarðræktarframlög til bænda 474 millj. kr.
    Gjaldfærð var yfirtaka lána Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og hitaveitna að fjárhæð 3,5 milljarðar kr. Þá voru gjaldfærðar útflutningsuppbætur til bænda að fjárhæð 555 millj. kr. er greiddar voru á árinu 1988 með fé sem Framleiðsluráð landbúnaðarins tók að láni með ríkisábyrgð. Þetta lán var yfirtekið og bókað í ríkisreikningi. Framlag var veitt til afskriftar af kröfum ríkissjóðs og Ríkisábyrgðasjóðs á hendur Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og Skipaútgerð ríkisins að fjárhæð 550 millj. kr., svo og til niðurfellingar launaskuldar Ríkisútvarpsins er nam 319 millj. kr. Enn fremur voru færðar til gjalda 586 millj. kr. vegna lokauppgjörs á Útvegsbanka Íslands og 174 millj. kr. til tekna vegna sölu hlutabréfa í Útvegsbanka Íslands hf. Heildartekjur A-hluta ríkissjóðs námu 83,1 milljarði kr. sem er 15,5% hækkun frá árinu 1988.
    Í árslok 1989 voru kröfur ríkissjóðs færðar niður um 1,6 milljarða kr. Þar er um að ræða beina skatta einstaklinga og félaga að fjárhæð 1 milljarður kr. og söluskatt, tæpar 500 millj. kr., og síðan önnur gjöld um 200 millj. kr. Helstu ástæður fyrir afskriftum eru gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja, upplýsingar um eignaleysi á grundvelli árangurslausra aðfararaðgerða og fyrning en skattkröfur fyrnast að jafnaði á fjórum árum.
    Heildareignir A-hluta ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi námu 64,6 milljörðum kr. í árslok 1989 sem er 7,2 milljörðum kr. hærri fjárhæð en í árslok 1988. Hér er um að ræða peningalegar eignir, skammtímakröfur og veitt langtímalán ásamt hlutafé og stofnframlögum. Fastafjármunir ríkisins eru ekki færðir til eignar í efnahagsreikningi ríkisins enda eru kaup á slíkum fjármunum hjá aðilum í A-hluta ríkissjóðs færð til gjalda á kaupári samkvæmt lögum um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga.
    Bókfærðar heildarskuldir A-hluta ríkissjóðs námu 162,6 milljörðum kr. í árslok 1989 og jukust þær um 82,4 milljarða kr. frá árslokum 1988. Aukningu bókfærðra skulda má fyrst og fremst rekja til færslu þeirra skuldbindinga sem á ríkissjóði hvíla og greint er frá hér að framan. Skammtímaskuldir jukust um 7,5 milljarða kr. frá því í árslok 1988 og langtímaskuldir voru um 23,4 milljörðum kr. hærri en í árslok 1988. Þá voru teknar inn ýmsar langtímaskuldbindingar að fjárhæð 51,5 milljörðum kr. í ríkisreikning fyrir árið 1989. Þar vega þyngst áðurgreindar skuldbindingar vegna lífeyrissjóða að fjárhæð 45,6 milljarðar kr.
    Á árinu 1989 hefur A-hluti ríkissjóðs aukið peningalegar skuldbindingar sínar umfram peningalegar eignir og kröfur um 75,2 milljarða kr. Að frádregnum þeim skuldbindingum sem ekki hafa áður verið færðar í ríkisreikning jók ríkissjóður peningalegar skuldir sínar umfram eignir um 15,2 milljarða kr. Sambærileg skuldaaukning á árinu 1988 nam 7,7 milljörðum kr.
    Í nál. frá fjárln. segir:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og leggur til að ríkisreikningurinn fyrir árið 1989 verði samþykktur eins og hann liggur fyrir.``

    Undir nál. rita nefndarmennirnir Pálmi Jónsson, Árni Johnsen, Gunnlaugur Stefánsson, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson og Jón Kristjánsson auk mín, en með fyrirvara undirrita þær Margrét Frímannsdóttir, Guðrún Helgadóttir og Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.
    Guðmundur Bjarnason var fjarverandi afgreiðsluna en ég vísa til þess að þeir sem undirritað hafa með fyrirvara munu gera grein fyrir sínum fyrirvörum.