Skipaútgerð ríkisins

136. fundur
Fimmtudaginn 07. maí 1992, kl. 16:03:30 (6076)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég var mjög undrandi á ræðu hv. 4. þm. Reykv. Ég skil ekki hvernig hægt er að

halda því fram að þau svör mín séu mögur þegar ég segi að andvirði þeirra eigna sem seldar eru renni í ríkissjóð. Það eru heldur ekki mögur svör þegar ég segi að ef stofnað er til skuldbindinga í nafni ríkissjóðs þá er auðvitað jafnaugljóst að ríkissjóður verður að svara þeim þannig að ég skildi ekki nákvæmlega við hvað var átt í þessu sambandi.
    Í öðru lagi verð ég að ítreka það sem ég sagði áðan að þegar stofnun eða fyrirtæki er lagt niður er auðvitað alltaf eftir nokkur vinna til að ganga frá lokauppgjöri, ganga frá eignum og öðru slíku og eigandi viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar hirðir síðan þann afrakstur sem stofnunin skilur eftir sig. Í þessu tilviki er það ríkissjóður sem tekur yfir eignir Skipaútgerðar ríkisins en á hinn bóginn hef ég talið það sjálfsagt að sú eignaumsýsla sem eftir verður þegar búið er að selja eignirnar verði í höndum þess ráðuneytis sem með slíka hluti fer.
    Ég vil svo segja það um hitt atriðið, hvort ég hafi verið að gera mér það upp þegar ég vann að því að spara fyrir ríkissjóð með því að leggja Skipaútgerð ríkisins niður, að gefa í skyn að ég hafi í þeirri vinnu verið að vinna af einhverjum annarlegum hvötum, mér hafi fremur gengið það til að Eimskipafélag Íslands tæki yfir þessa þjónustu heldur en Samskip, þá er það alls ekki í samræmi við þá niðurstöðu sem hefur orðið á þessu máli og allra síst í samræmi við það að stjórn og forstjóri Samskipa bauð mér sérstaklega á aðalfund félagsins nú fyrir skömmu vegna þeirra samskipta sem við höfðum átt. Ég vil af þessum sökum láta í ljósi undrun mína yfir því að blanda einkafyrirtækjum úti í bæ inn í þessar umræðu með þeim hætti sem hér var gert.
    Það er auðvitað ekki hægt að halda því fram að rekstur Skipaútgerðar ríkisins hafi átt að vera óbreyttur þegar það liggur fyrir að halli á rekstri þess hefur verið um 300 millj. kr. á ári. Það er heldur ekki hægt að gefa í skyn að það hafi verið á færi einhverra aðila, sem ekki höfðu verulega fjármuni, að standa undir þeim rekstri sem Skipaútgerðin hefur staðið undir í samkeppni við önnur fyrirtæki sem tengja saman millilandasiglingar og siglingar með ströndinni eins og Samskip og Eimskipafélagið gera. Ég hef orðið var við það, bæði hjá útgerðarmönnum, fiskverkendum og einstaklingum víðs vegar um landið að þeir telja að sínum málum sé vel borgið eins og þau eru núna og hjá hinum almenna borgara hef ég fundið að hann kann vel að meta ef hægt er að halda uppi sömu þjónustu og áður en í leiðinni spara þó fjármuni sem nema hundruðum millj. kr. á hverju ári.
    Ég var spurður að því áðan hvort ég gæti lagt þessa peninga til hliðar svo að þeir gætu farið í aðrar samgöngur. Auðvitað er rýmra um fyrir aðrar þarfir í samgöngumálum ef við getum sparað í sambandi við þætti eins og Skipaútgerð ríkisins og sá sparnaður hefur nú komið fram. Á hinn bóginn er það auðvitað áhyggjuefni að kostnaður við flóabáta virðist fara vaxandi á næsta ári og er auðvitað spurning með hvaða hætti hægt sé að draga þar úr og reyna að koma þeim rekstri á heilbrigðari grundvöll. En þar er við ramman reip að draga vegna þess að þær ákvarðanir, sem eru afgerandi um fjármagnskostnað og gerð skipanna, voru teknar í sumum tilvikum af síðustu ríkisstjórn og í sumum tilvikum enn fyrr þannig að þar er auðvitað þrengra um en á hinn bóginn er óhjákvæmilegt að halda uppi sérstakri þjónustu með flóabátum til Vestmannaeyja og Grímseyjar svo að dæmi séu tekin eða þá yfir Breiðafjörð vegna þeirra erfiðu vegasamgangna sem Vestur-Barðastrandarsýsla verður að búa við eins og hv. þm. er kunnugt. Aðalatriðið er sem sagt þetta. Ég læt í ljós undrun mína yfir því að verið sé að gera það tortryggilegt hvert eignir Skipaútgerðar ríkisins lendi þegar uppgjörið hefur endanlega farið fram. Það fer að sjálfsögðu í ríkissjóð eins og andvirði allra eigna sem seldar eru af opinberum aðilum. Ég læt líka í ljósi undrun yfir því að menn skulu halda að mér hafi annað gengið til með því að leggja niður Skipaútgerð ríkisins en að spara opinbera fjármuni og reyna um leið að tryggja bærilega þjónustu með ströndinni.